Færsluflokkur: Bloggar

Nýjar myndir

Smá viðbót. Það eru komnar inn nokkrar myndir af Auði í nýju lopapeysunni frá Árný nágrannakonu ömmu og svo eru myndir úr herberginu hjá Auði, það hafðist loksins að innrétta það. Og myndir af myndauppsetningunni. Endilega kíkið. Það er orðið svo erfitt að taka myndir af Auði, alltaf þegar maður birtist með myndavélina verður hún svo upptekin af því að skoða hana, að hún gleymir því sem hún var að gera sniðugt.

Útréttingar og snúningar

Kæru bloggvinir

þá er vikufríið búið. Ótrúlegt hvað þetta er alltaf fljótt að liða. Það hefur verið frekar leiðilegt haustveður undanfarið, rok, rigning og frekar hryssingslegt. Það snjóaði meira segja sums staðar í vikunni. Við fengum nú ekki neitt. En það þarf allavega að fara að huga að því að setja vetrardekkin undir. Við ætluðum nú að setja þau undir sjálf, en það þarf að balancera þau á verkstæði. Það er hryllilega dýrt, en við vorum nú búin að finna lítið verkstæði hérna rétt hjá sem gerir það ódýrara. Svo það á að fara í það á morgun þegar frúin er búin að vinna. Það er víst það sama hér og heima. Um leið og fyrstu snjókornin koma rjúka allir og fá vetrardekkin undir. Og engin leið að fá tíma á verkstæði. En þetta hlýtur nú að reddast. Við vonum allavega að við fáum ekki vetur eins og í fyrra, þá kemst frúin örugglega ekki í vinnuna.

Vikan hefur verið notuð í að útrétta allt mögulegt sem hefur setið á hakanum. Á þriðjudaginn fórum við í IKEA. Það var reyndar ekki eins slæmt og við höfðum búist við. Við vorum komin snemma og komin út aftur um hádegi og þá var allt að fyllast. Við keyptum ýmislegt í herbergi ungfrúarinnar. Hún tók þessu nú öllu með mikilli ró eins og venjulega. Ekkert að pirra sig á þessu. Við fórum svo að heimsækja John vin okkar í Árósum og keyptum líka smá kjöt af Arabavinum okkar. Þeir spurðu hvort við vildum ekki lambakjöt líka. En við gátum afsakað okkur eitthvað, svo þeir urðu ekkert móðgaðir. Á miðvikudaginn fórum við svo að hjálpa Steina og Sigrúnu að fylla gáminn. Frúin reyndar var nú mest í að líta eftir börnum, meðan bóndinn var í að bera húsgögn. Þetta gekk allt voða vel og tók ekki langan tíma. Við sóttum svo lambaskrokk eftir þetta allt saman. Á fimmtudaginn var svo gert slátur. Við gátum ekki fengið blóð, þeir hafa ekki tíma í að hræra í því eftir slátrunina. En við megum koma í sláturhúsið og gera það sjálf ef við viljum. Við sjáum til með það. Gott að vita að það er hægt að fá þetta ef maður vill.

Á föstudaginn fórum við svo til Kolding og settum barnið í pössun. En foreldrarnir fóru á hótel. Það var voða notalegt að vera bara tvö. Þjónustan var nú frekar léleg, en af því við borguðum ekkert fyrir þetta, svo við vorum ekkert að kvarta neitt. Ungfrúnni fannst bara gaman að vera hjá Gunnþóru og var dugleg að leika við Maju dóttir hennar sem er 2 ára. Þær hittast nú ekki oft, en eru voða góðar saman. Það var voða gott að endurheimta barnið aftur. Hún er alveg bullandi kvefuð og pínu rellin út af því. Annars finnst henni voða gaman þessa dagana að fela sig og segja svo bö þegar maður kíkir á hana. Hún getur líka orðið sýnt hvað hún er stór og klappað saman höndunum. Ógurlega gaman. Í gær vinkaði hún svo í hvert skipti sem einhver keyrði framhjá húsinu.

Svo á morgun tekur hversdagsleikinn við aftur. Það var ákveðið í dag að láta verða af því að hengja upp myndir loksins. Við höfum aldrei búið jafn lengi á neinum stað og ekki hengt upp myndir. Enda er þetta allt annað líf. Nú þarf frúin bara að finna tíma til að sauma gardínur og þá verður þetta varla betra. Við erum svo að kíkja á hvort við getum einhvers staðar keypt ódýra sjónvarpsmublu. Það vantar hirslu fyrir geisladiska og svoleiðis. Þetta hirsluleysi fer óstjórnlega í taugarnar á frúnni, svona á köflum, enda er hún kontrólfrík og vill hafa allt á sínum stað! :) Bóndinn ætlar nú að reyna að henda inn myndum af dóttirinni og myndauppsetningunni. Já og sláturgerðinni.

Bestu kveðjur úr kuldalandi

Gummi, Ragga og Auður Elín


Flatkökubakstur

Kæru bloggvinir

þá er fjölskyldan komin í vikufrí. Það á nú að reyna að nýta tímann í eitthvað nytsamlegt. Við erum nú ekkert sérstaklega góð í að slaka á, svo það verður spennandi að sjá hvort það takist. Við stefnum á að fara til Árósa á þriðjudaginn og kíkja í IKEA. Það þarf að versla bókahillur fyrir ungfrúnna og ýmislegt smálegt. Það þarf nú líka að kaupa eitthvað kjöt. Við megum ekki alveg svíkja arabavini okkar. Við erum hætt að kaupa lambakjöt af þeim, sem við höfum keypt í mörg ár.

Þegar við fórum á fætur hér í morgun var hrím á jörðinni og 3 gráðu frost. En mjög fallegt veður. Það er aldrei að vita nema maður drífi sig í göngutúr seinna í dag.

Frúin lenti nú í smá vandræðum á föstudaginn. Þegar hún skilaði barninu hjá dagmömmunni kom það í ljós að hún vissi ekkert um fundinn sem við höfðum ætlað að halda á morgun. Þá hafði konan sem ég talaði við, ekkert sagt henni af því. Ég varð því að stynja út úr mér, hvað okkur fyndist vandamálið. Hún virtist nú vera mjög leið yfir þessu og opin fyrir að reyna að bæta þetta eitthvað, svo við erum búin að aflýsa fundinum á morgun og ætlum að sjá til hvernig þetta gengur. Það er annars verið að skipta út börnum hjá dagmömmunni. Það hefur verið ein stelpa á Auðar aldri og svo strákur rúmlega árs gamall og lítil 6 mánaða stelpa. Nú hættir strákurinn og það kemur 2 ára stelpa í staðinn, svo þetta verður mikill kvennafans. Þegar við sóttum Auði hjá dagmömmunni á föstudaginn, þá hló hún eins og vitleysingur og hún hafði víst verið að kreista upp úr sér einhvern tröllahlátur allan daginn og reyna að fá hina krakkana með sér í það. Hún hefur síðan verið að reka upp þennan ægilega hrossahlátur síðan. Svo þetta er greinilega eitthvað mjög sniðugt. Uppáhaldsleikurinn er ennþá að taka dúkkuföt og setja í kassa og færa þetta fram og tilbaka. Þetta er mikið nákvæmnisverk og fötin mega ekki liggja út fyrir. Það er heldur ekki sama í hvaða röð þau fara ofan í kassann. Hún hefur sennilega erft smámunasemina frá mömmu sinni, vesalings barnið.

Í dag var svo ákveðið að skella sér í flatkökubakstur. Þetta hefur nú ekki heppnast sérlega vel hingað til, en nú höldum við að við séum búin að finna út hvernig best er að gera þetta. Þessar sem við gerðum í dag eru allavega næstum eins og hjá mömmu. Þannig að nú verðum við að gera þetta oftar. En þegar maður er komin upp á lagið er þetta svo sem ekkert stórmál. Við erum allavega voðalega stolt af þessu. Við fórum á flóamarkað hér í morgun. Það var óttalega mikið drasl og ekkert sem var spennandi að kaupa.

Við erum búin að flytja tölvuna inn í stofu, hún var áður inni hjá Auði, en nú ætlum við að reyna að gera herbergið hennar klárt, svo hún geti notað það meira. Við erum búin að setja lítið borð og stól þarna inn líka. Henni finnst auðvitað mest spennandi að standa upp á þessu. Hlær bara þegar hún er skömmuð. Það hefur nú alveg örugglega erft frá pabba sínum. Móðir hennar var alveg einstaklega stillt og prúð sem barn.

Bestu kveðjur frá Tiset

Gummi, Ragga og Auður Elín

 


Gróðurhúsaniðurrif

Kæru bloggvinir

þá er sólin loksins farin að láta sjá sig hér í Tiset. Það er rosa gott veður í dag, en pínu kalt. Við erum búin að standa í stórræðum í gær og í dag. Við erum búin að taka niður eitt stykki gróðurhús og ferja heim. Það stóð í garðinum hjá Steina og Sigrúnu, en þar sem þau eru að flytja heim til Íslands og nenna ekki með gróðurhúsið með sér, þá fengum við að hirða það. Við héldum nú við næðum þessu öllu í gær, en eftir að hafa tekið allt glerið úr og skrúfað grindina í sundur, þá vorum við orðin svo þreytt og loppin að við keyrðum heim bara með glerið. Í morgun sóttum við svo restina. Það verður aldeilis spennandi að púsla þessu saman aftur. Við erum nú ekki enn búin að finna út hvar við ætlum að hafa það, en garðurinn ætti nú að vera nógu stór fyrir það. Við erum að spá í að reyna að rækta tómata og eitthvað í þessu. Það kemur allt í ljós. Fyrst er nú að setja það saman aftur og fá nokkrar nýjar rúður. En þetta verður allavega spennandi.

Annars er nú lítið búið að vera í gangi hérna. Auður Elín er alveg búin að jafna sig af þessu kvefi og er í banastuði flesta daga. Hún finnur sér alltaf eitthvað að bauka. Við erum ekki alveg nógu hress með dagmömmuna hennar svo við erum að fara á fund með henni næsta mánudag. Það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því. Auður Elín virðist alveg vera sátt við að vera hjá henni, en manneskjan er frekar léleg í mannlegum samskiptum. Það er varla yrt á mann þegar maður kemur með Auði, eða þegar maður sækir hana. Og ef það er eitthvað sagt, þá er það yfirleitt eitthvað um að Auður Elín hafi verið að róta í skápunum hjá henni eða eitthvað svoleiðis. Við vonum að það hjálpi eitthvað að tala við hana. En maður er nú frekar stressaður yfir þessu. Það er heldur ekkert sérstaklega spennandi að þurfa að skipta um dagmömmu þegar Auði virðist líka þessi svona vel.

Það er búið að vera brjálað að gera í vinnunni hjá frúnni og hún kemur seint heim flesta daga. En eftir næstu viku er viku frí, svo maður verður bara að bíta á jaxlinn. Bóndinn sér um barnið og kvöldmatinn. Ekki dónalegt það. Við hjónaleysin eigum 10 ára sambúðarafmæli um þessar mundir, ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Við ætlum að bregða okkur á hótel eftir tvær vikur. Verðum bara eina nótt og erum búin að fá pössun fyrir grísinn í sama bæ og við verðum á hóteli. Svo ef allt fer í háaloft, þá getur maður allavega sótt barnið. Hún er svo sem ekkert mjög mikil mannafæla, en hún er ekki vön að sofa annars staðar en heima hjá sér, svo við vitum ekki hvernig hún bregst við því. Frúin hefur nú alltaf gert hálfpartinn grín að mömmum sem eiga erfitt með að láta aðra passa börnin sín, en hún er nú víst ekki mikið betri sjálf! :)

Sagan af brenniofninum heldur áfram. Eftir að bóndinn lenti undir honum um daginn, þá brotnaði eitthvað stykki í mótornum og það þarf að finna eitthvað út úr því. Það er ekki enn búið að heppnast að finna varahluti í mótorinn. En við ætlum nú að reyna að vinna eitthvað í þessu áfram.

P.s. Það væri nú gaman ef einhver myndi kvitta! :)

kveðja úr kotinu

Gummi, Ragga og Auður Elín


Nýjar myndir

Kæru bloggvinir

þá er bóndinn búinn að setja inn myndir af ungfrúnni. Endilega kíkið á þær!

 

kveðja

Gummi og co


Pestarbæli

Kæru bloggvinir

þá er enn og aftur kominn sunnudagur, ótrúlegt hvað tíminn líður alltaf hratt. Hér er voða mikið haustveður, rok og rigning flesta daga. En það er nú það sem má búast við hér á þessum árstíma.

Ungfrúin kom heim veik frá dagmömmunni á mánudaginn. Hún andaði voðalega grunnt og hóstaði mikið. Okkur leist ekkert á hana, svo við fórum með hana til vaktlæknis um kvöldið. Hann hlustaði hana og fannst ekkert athugavert við það svo við fórum aftur heim. En hún var heima þriðjudag og miðvikudag. Fór svo til dagmömmunnar á fimmtudaginn. Þetta er nú í fyrsta skipti sem hún er svona veik af einhverri alvöru. Svo maður kann nú ekki neitt á þetta. Svo vorum við mæðgurnar í fríi á föstudaginn af því hún átti að fara í bólusetningu, þá síðustu þar til hún verður 4 ára. Læknirinn okkar fann út að hún væri komin með bronkítis. Svo við fórum heim með púst sem hún á að fá á kvöldin. Það hefur hjálpað eitthvað, því hún er mikið hressari og sefur betur á nóttinni. Hún grét smá þegar læknirinn hlustaði hana, en eiginlega ekkert þegar hún var sprautuð. Hennar stærsta áhugamál þessa dagana er að brölta upp á allt, og standa og hrynja niður. Maður sér fyrir sér að hún eigi eftir að fara einhverjar ferðir á slysavarðstofuna með þessu áframhaldi. En hún hefur nú sloppið hingað til. Hún er alveg heilluð af öllum dýrum og bendir á allar skepnur og segir einhver hljóð. Hvort sem það er úti á túni, eða í einhverri bók. Frúin var að segja við bóndann að það væri núna sem maður ætti að reyna að koma inn hjá henni einhverju áhugamáli.

Við hjónaleysin höfum ennþá sloppið við pestina, sem betur fer. Það er voða mikið að gera í vinnunni hjá frúnni, allavega næstu tvær vikurnar. Svo er haustfrí eftir það í eina viku. Það er nú bara stefnt á rólegheit hérna heima. Við reynum kannski að klára eitthvað hérna heima. Það eru nokkur smáverkefni eftir. Alltaf eitthvað að gera.Við þurfum líka að fara til Árósa og í IKEA, uppáhaldið okkar. Það á að kaupa hillur og eitthvað smotterí fyrir barnaherbergið. Við erum að pæla í að flytja tölvuborðið hér inn í stofu og þá þarf að innrétta herbergi dótturinnar.

Bóndinn hefur ekki enn komið því í verk að setja inn myndirnar, hann ætlar að reyna að gera það á morgun. Frúin var svo heppin að geta hengt út sængurnar í gær og eitthvað fleira. Frábært að geta þurrkað svoleiðis úti. Í dag fengum við svo gest í mat. Það var Lone fyrrverandi vinnufélagi frúarinnar og maðurinn hennar. Auður Elín heillaði þau auðvitað upp úr skónum, enda er hún góð í því. Henni finnst voða gaman að hitta nýtt fólk.

Jæja það er víst ekki mikið annað til tíðinda hér á bænum

kveðja frá Tiset

Gummi, Ragga og Auður Elín


Heyskapur

Kæru bloggvinir

Hér hefur verið voða gott veður síðustu viku. Það var svo gott að bóndinn komst loksins í að slá bakgarðinn. Það var orðið svo hátt grasið að það var ekkert hægt að hirða það, svo við hjónaleysin urðum að raka þetta saman í gær. Manni leið bara eins og maður væri kominn heim í sveitina. Það var rosa blíða hér í gær, svo frúin dreif sig í að hengja út á snúrur. Það heppnaðist svona ljómandi vel, svo nú getur maður allavega sagt að þær hafi verið notaðar einu sinni á þessu sumri. Vonandi að maður nái að nota þær eitthvað meira á næsta ári. Það rignir allavega í dag, svo það er ólíklegt að það verði þurrkað utandyra á næstunni. Þetta er nú orðið frekar þreytandi.

Við fórum í ungbarnasund í gær. Það eru tveir mismunandi hópar. Við höfum alltaf verið í yngri hópnum og erum þá í stórri laug, þar sem Auður nær ekki í botninn. Svo er eldri hópur, sem er í annarri laug, þar sem börnin geta náð í botninn. Við prófuðum eldri hópinn í gær og Auður Elín var alveg á útopnu. Hún skreið upp á bakkann og henti sér út í laug. Svo æfði hún sig í að labba í lauginni. Það tók smá tíma að venjast því, en þetta var nú allt að koma. Hún er allavega ekkert vatnhrædd. Eina vandamálið er að hún vill alls ekki í sturtu og brjálast alltaf við það. En það hlýtur að ganga yfir.

Hún er eitthvað að hressast, er allavega farinn að borða meira. Hún vill nú samt helst ekki borða morgunmat nema skoða IKEA bæklinginn samtímis. Hann er nú orðinn ansi slitinn, svo hún er með varabækling. Það er bæklingur frá svona vélaverkstæði. Þar eru myndir af dýrum og ýmsu tengdu landbúnaði. Það finnst henni ekkert minna spennandi. Hún er orðin voða dýrastelpa. Ef hún sér hund, þá bendir hún og æsist öll upp. Það þýðir þó ekki að hún sé eitthvað mjúkhentari við köttinn okkar. Hún veit ekkert skemmtilegra en að toga í skottið á henni og sleppir ekki þó kötturinn veini.

Við urðum svo að bregða okkur í bæjarferð í dag. Það hefur verið leitað mikið að úlpu fyrir dótturina, og það er ekki auðhlaupið að því að skaffa svoleiðis. Maður hefði nú haldið að það væri auðvelt á þessum árstíma, en sennilega höfum við bara farið að leita of seint og þetta verið allt uppselt. En við fengum allavega úlpu á barnið. Spennandi að vita hvort maður geti keypt kuldagalla í janúar. Vil ekki kaupa hann núna, ef þessi sem hún á endist kannski allan veturinn. Það er erfitt að meta það akkúrat núna. Hún vex ekki eins hratt og þegar hún var lítil.

Bóndinn lenti heldur betur í vandræðum í vikunni. Hann var að fylla á trépillubrenniofninn og þá valt sílóið með öllum pillunum yfir hann. Hann náði sem betur fer að koma sér undan því, en allar rafmagnsleiðslurnar rifnuðu úr sambandi, svo það þarf að fá rafvirkjann aftur til að tengja þetta. Sem betur fer slasaðist hann nú ekkert alvarlega, er bara allur lurkum laminn.

Sviðin voru borðuð með bestu lyst á sunnudaginn. Þetta er mikill herramannsmatur. Auður Elín var nú ekkert yfir sig hrifin, en lét sig hafa það að borða eitthvað smá. Henni þótti betra að naga kjálkann.

Í dag er svo bara afslöppun. Það er langt síðan við höfum legið á sófanum, svo okkur fannst tími kominn á það!

Bóndinn hendir kannski inn myndum á næstunni.

Kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín


Rigning og rok

Kæru bloggvinir

hér hefur verið þvílíkt skítaveður síðustu viku, að við munum varla annað eins á þessum árstíma. Það hefur verið alveg hífandi rok og slengjandi slagveður. Í verstu hviðunum hefur vatnið skafið yfir vegina. Í Esbjerg, þar sem frúin er að vinna er alltaf rok, af því bærinn liggur út að sjó. En í þessari tíð er það ennþá verra. Það væri ekki spennandi að búa þar.

Bóndinn fékk fyrrverandi nágranna sinn (son hjónanna sem bjuggu í okkar húsi) til að hjálpa við að finna stykkið sem vantaði í brenniofninn. Hann vinnur á vélaverkstæðinu hérna á horninu. Hann fann það og hjálpaði til við að setja það í. Síðan á föstudaginn hefur þetta svo keyrt og við vonum bara að þetta sé komið í lag. Það væri voða mikill munur. Við trúum ekki alveg á það ennþá af því það hefur verið svo mikið vesen með þetta.

Maður er nú alltaf að komast að því hvað heimurinn er lítill. Pabbi einnar stelpunnar sem Gummi keyrir í skóla, fór að segja honum að hann hefði átt húsið hérna á bak við okkur. Hann fór að segja að karlinn sem bjó hérna í húsinu okkar, hefði alltaf verið að slátra skepnum hérna í bakgarðinum og henti svo bara innyflum og beinum og öllu draslinu hérna í bakgarðinn. Þetta olli þvílíkri flugnaplágu og ógeðslegri lykt, sérstaklega á sumrin. Það hefur verið gaman að búa við það.  Hann var ekkert að grafa þetta niður, herfaði bara yfir þetta öðru hvoru. Þannig að það verður gaman að fara að setja niður kartöflur í þetta. Hlýtur allavega að vera orðinn góður jarðvegur þarna! Bara að maður komi ekki niður á allt of margar beinagrindur.

Í kvöld á svo að prófa sviðin sem við sviðum um daginn. Það er búið að sjóða þau og þetta virtist bara hafa heppnast nokkuð vel. Það verður spennandi að prófa það í kvöld með kartöflum og rófustöppu. Svo er meiningin að fara í sláturgerð núna næst þegar við kaupum lambaskrokk. Erum búin að panta blóð, það verður fróðlegt að sjá hvort maður geti fengið það. Alltaf gaman að vera í svona tilraunastarfsemi.

Félagsmálatröllið á heimilinu er kannsi að missa stöðuna sem varaformaður í íþróttafélaginu. Það á að halda fund í næstu viku, þar sem á að ræða framtíð félagsins. Það er bara eitt félag sem spilar fótbolta undir merkjum félagsins. Nú er sveitafélagið að spara svo mikið að það á að hætta að slá fótboltavöllinn hérna, sem þýðir að fótboltafélagið verður að flytja eitthvað annað. Því er verið að spá í hvort eigi að sameina íþróttafélagið hér einhverju öðru eða hvað eigi að gera. Hann er að vonum mjög áhyggjufullur yfir þessu!

Ungfrúin hefur verið voða slöpp síðan á föstudaginn. Hún fékk hita á föstudagskvöldið en var hitalaus í gær og í dag. Hún er voða lítil í sér og grætur upp úr þurru. Svo slefar hún alveg eins og hún fái borgað fyrir það. Það er erfitt að fá að sjá upp í munninn á henni, en þetta lýsir sér allavega eins og tanntaka. Hún er voða erfið að borða líka. Hún borðar ekki morgunmat nema fletta IKEA bæklingi samtímis. Svo druslast hún út um allt með hann. Hann er orðinn ansi slitinn.  Hún sefur voða órólega og sparkar í allt sem fyrir verður. Pabba hennar  er ýtt alveg út í horn í stóra rúminu okkar. Hún lætur frúnna eiginlega alltaf vera. Hún er farin að leika sér meira með dúkkur og druslast með þær fram og til baka. Við þurfum að reyna að finna svona litla dúkkukerru svo hún geti keyrt um með börnin sín.

Það verða vonandi teknar myndir af ungfrúnni í dag, hún varð 15 mánaða í gær.

Kær kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín


Fastir liðir eins og venjulega

Kæru bloggvinir

hér er allt að verða komið í sama horfið aftur. Fastir liðir eins og venjulega. Það er komið týpískt haustveður með rigningarmistri og grámyglu. En það hefur hlýnað aftur, svo þetta er ekki alslæmt. Það hefur ekki enn viðrað til að vígja snúrustaurana. Það er ekki víst að það viðri til þess fyrr en næsta sumar. September er oft ansi votur.

Í gær var okkur boðið í 60 ára afmæli hjá einum vinnufélaga Gumma. Þetta byrjaði um hádegi og svo var setið og borðað allan daginn. Við fórum heim klukkan 15:30 og þá var eftir að borða súpu. Auður er nú venjulega voða ánægð með svona samkomur. Veður í fangið á öllum og gramsar í öllu. Frúin var því orðin vel sveitt að hlaupa eftir henni. Það eru tveir siðir í dönskum veislum, sem okkur finnast pínu kjánalegar. Önnur er að þegar maður kemur gengur maður á alla í veislunni og heilsar með handabandi, hvort sem maður þekkir viðkomandi eða ekki. Síðan er alltaf verið að syngja og hrópa húrra. En sinn er siður í hverju landi, svo maður er nú ekkert að kippa sér of mikið upp við þetta. Við fórum allavega ekki svöng heim í gær. Í morgun renndum við svo til Þýskalands, það var allt orðið goslaust, svo það var ekki um annað að ræða en renna í gosleiðangur. Við komum svo við í kaffi hjá Steina og Sigrúnu í Kollund. Þau eru að flytja heim aftur, svo nú verður ekkert hægt að sníkja sér kaffi þar. Algjört hallæri. Þau eru á fulllu að losa sig við fullt af hlutum og við njótum góðs af því. Erum búin að fá rennibraut fyrir Auði og annað útidót.

Það kom nú smá framhald á garðaævintýrið síðustu helgi. Konan við hliðina var með einhvern mann að hjálpa sér og vildi endilega fara í að klippa hekkið. Bóndinn byrjaði því en lenti aftur í að ergja geitungana og fékk 4 stungur í hendina. Við vorum búin að segja við nágrannann að við yrðum að bíða með að klippa kaflann, þar sem geitungabúið er, en henni fannst það algjör vitleysa. Þar til Gummi var stunginn. Þá lét hún sér loks segjast og þeir klipptu ekki meira þann daginn. Það á að fara aftur í þetta eftir nokkrar vikur, þegar þessi kvikindi eru vonandi dauð. Nágrannakonan var vel kennd og röflaði einhver ósköp. Ekki alveg uppáhaldið okkar. En fínt ef það endar með að það megi klippa hekkið eitthvað almennilega. Þessi maður sem var að hjálpa henni var greinilega eitthvað að þrýsta á hana að klippa. Hún var ekki alveg sátt.

Auður er orðin betri að sofa á nóttinni. Við erum farin að gefa henni meira að borða á kvöldin og hún er hætt að fá þurrmjólk. Hún er svo mikið pelabarn að það er ekki búið að heppnast að venja hana af pelanum svo hún fær ennþá venjulega mjólk í pela áður en hún fer að sofa. Hún hlýtur að gefa sig með þetta einhvern daginn. 

Auður Elín er alltaf að hrella köttinn og kötturinn er svo vitlaus að hún er alltaf að klína sér utan í Auði. Auður, sem annars er farin að skilja ýmislegt, þykist ekkert skilja í því að hún megi ekki toga í skottið á kettinum! :) Hlær bara og togar meira, sérstaklega þegar kötturinn byrjar að veina. Hún fór út í búð með pabba sínum um daginn og var í prjónakjól sem hún fékk frá nöfnu sinni á Akranesi. Kerlingarnar í búðinni voru svo hrifnar af kjólnum að þær urðu að minnast á það. Það er ekki mjög algengt hér að fólk geri það. Svo nú verður karlinum ekki hleypt einum út í búð aftur. Auður fór í fyrsta skipti í alvöru klippingu um daginn. Hún var nú ekkert mjög hrifin, en það er allt annað að sjá barnið núna. Það verða kannski teknar myndir af hausnum á barninu við tækifæri og kannski smellt nokkrum af kjólnum sem vakti svona mikla hrifningu. Hún er búin að fá legokubba og er alltaf eitthvað að gaufast með þá. En er ekki búin að fatta ennþá hvernig þetta virkar. En það kemur.

Jæja þá eru fréttabrunnarnir þurrir og komin tími á að fara að elda

kveðja frá Tiset

Gummi, Ragga og Auður Elín


Aftur ein í kotinu

Kæru bloggvinir

þá erum við aftur orðin ein í kotinu. Tengdó flaug heim á fimmtudaginn. Það er því ansi tómlegt hérna hjá okkur. Auði Elínu leiðist óskaplega að hafa bara foreldra sína til að ráðskast með. Tengdó hefur greinilega tekið rigninguna með sér heim því það hefur verið ágætis veður síðan hún fór heim. Um helgina hefur verið sól og blíða.

Annars er nú svo sem ekki mikið að frétta hér frá Tiset. Bara fastir liðir eins og venjulega. Vegavinnan er loksins búin, svo nú kemst frúin nánast klakklaust í vinnuna. Vonandi að þeir fari ekki að rótast meira í þessu í bili. Það munar alveg ótrúlega miklu ef það bætist eitthvað við aksturinn hjá manni. Auður er búin að vera hjá annarri dagmömmu en venjulega, þessa vikuna. Henni hefur nú líkað það mjög vel. Bara hlaupið í fangið á henni á hverjum degi. Það er rosa munur að þurfa ekki að skilja hana eftir hágrátandi. En hún fer svo til gömlu dagmömmunnar á morgun. Auður er annars alltaf á fullu eitthvað að brasa. Hún er alltaf að klifra upp í hægindastólana og gera ýmsar kúnstir. Hún reynir að standa upp og í gærmorgun flaug hún á hausinn þegar hún var með einhverjar æfingar í öðrum stólnum. Hún er farin að teygja sig fram, ef hún vill að maður kyssi hana. Það finnst henni rosa sniðugt. Hún sefur voða illa á nóttinni. Er algjörlega friðlaus og snýr sér og byltir á alla kanta. Hún hefur verið að fá jaxla, svo sennilega er það út af því. Hún hefur líka verið voða lítil í sér seinnipartinn. En vonandi fer maður nú að fá pásu á þessari tanntöku. Í dag var svo farið og verslaðir kuldaskór og stígvél fyrir veturinn. Svo hún ætti að vera fær í flestan sjó.

Við hentum inn myndum af henni og ömmunum í vikunni. Gleymdist bara að skrifa um það. Svo endilega kíkið.

Konan hérna við hliðina hefur verið voða viðkvæm fyrir að láta klippa trén á milli okkar. Svo í gær var allt í einu kominn maður inn í garðinn okkar að klippa trén. Það er svo sem ágætt af því það þurfti að klippa þau meira. Bara svolítið skrýtið að tala ekki við okkur fyrst. En hún er nú voða sérstök.Hún mætti líka alveg planta trjám þar sem vantar. En það er nú ekki sennilegt að hún geri það.

Í gær var svo farið í að setja niður snúrustaura í garðinn. Þetta var mikil kúnst. VIð fengum lánaðan bor til að grafa holurnar með og svo þurfti að steypa staurana niður. Frúin hefur aldrei haft svona fína þurrkaðstöðu. Hún var algjörlega að verða brjáluð á að geta ekki þurrkað úti. En svo fattaði hún nú að hún gæti hengt upp á svölunum uppi. Það lagaði nú eitthvað skapið. Það hefur verið svo rakt í ágúst að það hefur ekkert gengið að þurrka. Nú er svo búið að koma hita á húsið, það var ótrúlegur munur að fá smá yl. Við erum svo búin að fá rafvirkja til að kíkja á pilluofninn og við vonum að það þurfi bara að skipta um eitthvað lítið stykki. En það á eftir að koma betur í ljós. Við vonum það besta. Svo er búið að festa ofnana betur á veggina í svefnherberginu og stofunni. Þeir voru að detta niður. Það er svo lítið hald í veggjunum. Við vonum allavega að við komum pilluofninum í gang fyrir veturinn. Það er svo dýrt að kynda með gasi.

En þá er best að fara að hjálpa karlinum að slá garðinn. Það er búið að vera svo mikil spretta undanfarið að það verður að slá einu sinni í viku og það er varla að það dugi.

Bestu kveðjur frá Tiset

Gummi, Ragga og Auður Elín


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband