Færsluflokkur: Bloggar
29.8.2010 | 06:46
Ömmupartý
Kæru bloggvinir
hér hefur heldur betur rignt eldi og brennisteini í alla nótt. Það er annars orðið ansi haustlegt hér og kalt á nóttinni. Í byrjun vikunnar var hívandi rok, sem er mjög óvanalegt á þessum slóðum. Bændurnir hérna eru í tómum vandræðum af því kornið hefur lagst niður og mikið af því er ónýtt.
Móðuramman kom á þriðjudagsnóttina. Flugið var 6 tímum of seint ,svo þau voru ekki komin til Fredericia fyrr en kl. 2 um nóttina og svo var eftir að komast heim. Við fórum því ekki í bælið fyrr en kl 3. Svo þurfti að vakna kl. 6 til að fara í vinnuna. En það var nú mesta furða hvað við vorum hress. Þær ömmurnar eru búnar að labba hér um allt Tiset og vekja gríðarlega athygli. Fólkið sem býr hérna á horninu selur sultu og ýmislegt grænmeti hérna úti á horni. Þær eru búnar að fara nokkrar ferðir þangað. Svo við þurfum ekki að kaupa sultu eða grænmeti á næstunni.
Á föstudaginn tók frúin frí í vinnunni og hleypti kellunum í búðir. Þetta var eins og að hleypa kúm út á vorin. Um kvöldið fórum við svo út að borða á farfuglaheimili hérna rétt hjá. Við höfum lengi ætlað að fara þarna, en höfum ekki látið verða af því. Við fengum herramannsmáltíð og ekki var skammturinn nú lítill. Það lá við að manni féllust hendur. Það er allavega alveg á hreinu að við förum þarna aftur.
Í gær var svo keyrt til Ribe og þær gömlu sögðust nú ekkert ætla að versla, en eitthvað tókst þeim nú að týna í poka. 'I dag fer svo frúin með mömmu sína, með lestinni til Kaupmannahafnar, svo flýgur hún heim í kvöld.
Auður Elín hefur notið þess í botn að fá alla þessa athygli. Hún hefur reynt mikið að spila með þær og plata þær til að láta allt eftir sér. En það hefur nú eitthvað verið upp og ofan hvernig það hefur gengið. Henni á ábyggilega eftir að leiðast óskaplega þegar ömmurnar fara heim. Auður Elín hefur sofið á milli okkar upp á lofti, svo það verður spennandi að sjá hvernig hún bregst við þegar hún flytur inn í herbergið sitt aftur. Hún hefur verið öll á iði í rúminu og sparkað í bakið á pabba sínum á nóttinni. En alveg látið mömmu sína vera.
Jæja ætli sé ekki best að fara að sinna börnum og búi.
kveðja
TIsetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.8.2010 | 10:56
Rigning
Kæru bloggvinir
þá er enn ein rigningarvikan búin. Það hefur rignt hressilega hjá okkur en sem betur fer ekki eins mikið og sums staðar á landinu þar sem allt hefur farið á kaf. Þeir eru að spá þessu eitthvað áfram svo það þýðir ekkert að væla yfir því.
Bóndinn átti afmæli á mánudaginn og fékk nú eitthvað smá af pökkum. Það fer nú alltaf fækkandi pökkunum eftir því sem maður eldist. En hann var nú víst bara sáttur. Og svo skellti frúin í eina köku. Við fórum og sóttum tengdó þann daginn. Sem betur fer rigndi ekki mikið akkúrat þann daginn. Annars er ekki víst að flugið hefði getað lent. Auður Elín er mjög sátt við að hafa ömmu. Var í pössun hjá henni eitt kvöldið meðan við hjónaleysin fórum að hjálpa til við að undirbúa grillkvöld fyrir íþróttafélagið. Hún er annars búin að vera voða pirruð greyið og hefur lítið viljað borða. Við fundum út af hverju í gær. Það er að koma annar jaxl og hún er mjög bólgin öðru megin í munninum. Ekki skrýtið að hún kvarti eitthvað yfir því.
Annars hefur nú lítið gerst hér fréttnæmt í vikunni. Mest allt í rólegheitunum. Frúin er alveg að verða brjáluð á að þurfa að nota extra langan tíma til að komast heim úr vinnunni. Nú er það bæði á morgnana og seinnipartinn. Á föstudaginn var svo sameiginlegt grill fyrir Tisetbúa. Þá hitar íþróttafélagið upp grillin og svo kemur fólk með matinn sinn og grillar. Það var mun betur mætt en í fyrra og þetta var bara mjög fínt. Hinn sálfræðingurinn í bænum var komin í hörku samræður við tengdó. Í gær var svo farið með tengdó á göngugötuna í Haderslev. Það þurfti að hleypa henni í búðir. Við lætum hana bara hafa síma og svo var henni hleypt af stað. Hún verslaði nú einhverjar spjarir og er víst ekki alveg búin enn. Þetta var voða þægilegt, þá gátum við gamla settið bara sest á bekk á meðan og slappað af.
Í dag fer bóndinn svo á fótboltaleik. Hann hefur nú ekki farið lengi, svo það er vonandi að liðið sem hann heldur með standi sig vel. Það hefur nú ekki rignt svo mikið í dag og vonandi að hann hangi þurr meðan hann er á leiknum. Það má ekki hafa regnhlífar með af því þær skyggja á þann sem stendur á bak við.
Á þriðjudagskvöldið kemur svo móðuramman í heimsókn. Það er spurning hvort Auði verði ekki spillt algjörlega þegar báðar ömmurnar eru hérna á sama tíma. Dönunum finnst alveg stórmerkilegt að við séum alltaf með svona mikið fólk í heimsókn. Þeir eru nú almennt ekkert mikið fyrir að hafa tengsl við fjölskylduna.
Bóndanum leiðist alveg óskaplega að geta ekki slegið blettinn. Það vex svo hratt hérna fyrir framan, af því það var settur áburður á það. Fólk hér í Tiset hefur nú haft á orði að þetta sé orðið hinn fínasti blettur. Enda töluverð breyting frá því sem var áður. Svo er nú alltaf eftir að setja upp snúrustaura út í garði. Það þornar alveg rosalega illa hérna inni í þessari tíð. Frúin er alveg að fara yfirum á þessu. Hún er ekki enn búin að ná niður þvottafjallinu sem skapaðist þegar krakkarnir voru hérna.
Jæja það er eftir að setja inn myndir af sviðahausunum og ýmsu fleiru. Reyni að fá bóndann í það í vikunni.
kveðja frá Tiset
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.8.2010 | 13:05
Hversdagsleiki
Kæru bloggvinir
Þá er enn ein vikan liðin. Þessi var bara nokkuð venjuleg. Vinnan komin á fullt og ekki mikið gert annað en að vinna, borða og sofa. Frúin hefur verið svo einstaklega heppin að það er vegavinna á smá kafla á leiðinni í vinnuna. Það er svo sem ekki í frásögur færandi nema að það er rosalega mikil traffík þarna og þeir eru alltaf að vinna þegar mest traffík er. Þetta þýðir að það getur tekið 1 1/2 - 2 tíma að komast til og frá vinnu. Það tekur venjulega 45-50 mín. Þetta er venjulega skárra á morgnana ef manni tekst að keyra snemma. En þetta nær náttúrulega ekki nokkurri átt. Svo á þetta örugglega eftir að taka tímana tvenna. Þó þetta sé bara stuttur kafli sem þeir eru að gera við. Vandamálið er nú líka að það er eiginlega ekki hægt að fara neina aðra leið. Það tekur allavega ekki minni tíma. Svo við vonum bara að þeir verði snöggir að þessu. Vinnan er nýflutt og það er ennþá verið að hengja upp myndir og ýmislegt. Það er bara einn karlmaður á vinnustaðnum, svo konurnar bjarga sér sjálfar með borvélar og hamar. Það þykir nú óvanalegt hér á þessum hluta Jótlands. Það er víða mjög klassísk verkaskipting kynjanna.
Bóndinn tók sig til í vikunni og setti inn fullt af nýjum videoum á youtube.com. Endilega kíkið. Það er eitt sérstaklega skemmtilegt þar sem Auður Elín er að rabba við Maju Elísabet. Maja er að verða 2 ára og þær standa svona á móti hvor annarri og eru eitthvað að spjalla saman. Þetta var tekið í afmælinu hennar Auðar. Það er auðveldast að finna nýjustu myndböndin við að kíkja á dagsetningarnar. Það verður rosa gaman að eiga þetta þegar þær eru orðnar eldri. Annars vorum við ferlega óheppin. Gummi geymdi öll myndbönd og ljósmyndir inn á hörðum disk. Svona svo maður myndi nú ekki týna þessu ef tölvan bilaði. En þá bilaði þessi harði diskur, og allar myndirnar eru farnar til spillis. Við fundum sem betur fer helling af þeim inn á gamalli tölvu. Svo það eru mest myndir af Auði sem eru glataðar. En við verðum að leita betur og sjá hvort við finnum ekki auka eintak af þessu einhvers staðar. Myndirnar af sviðahausunum koma svo fljótlega hér inn á bloggið. Eins gott að nágrannarnir sáu ekki aðfarirnar.
Sú stutta er annars alltaf á útopnu. Við fórum í mæðrahóp í gær. Við hittumst ennþá svona einu sinni í mánuði. Auður var auðvitað upp á öllu og út um allt. Það eru tveir ársgamlir strákar í hópnum og annar þeirra er voða líkur Auði, alltaf eitthvað að brasa. En þetta var voða fínt. Rosalega gaman að sjá hvað þessi kríli þroskast hratt. Við skelltum okkur svo til Kolding eftir hádegið. Við þurftum að sækja borvél sem við sendum í viðgerð. Vonandi að þetta hafi verið lagað almennilega. Í leiðinni kíktum við á Gunnþóru og Maju. Það er alltaf mjög gaman.
Nú er svo von á gestum. Tengdó kemur á morgun. Við tökum frí í vinnunni til að ná í hana. Hún flýgur á Billund. Hún ætlar að vera hér í 2 vikur. Svo hringdi móðir mín í fyrradag og hún ætlar að skella sér hingað í nokkra daga í lok mánaðarins. Það verður aldeilis fjör á bænum þá. Finnst allavega mjög líklegt að Auði Elínu leiðist ekki, þegar báðar ömmurnar eru komnar að dekra við hana.
Við skelltum okkur svo í sund í morgun. Við höfum verið allt of löt við það í sumar. Auði fannst þetta rosa gaman. Við ætlum að drífa okkur í ungbarnasund aftur í vetur. Það byrjar núna í byrjun september. Alveg nauðsynlegt að halda þessu við. Ef maður er ekki í einhverju svona prógrammi, þá kemur maður sér síður af stað. Svo er líka bara gaman fyrir hana að vera með öðrum börnum. Manni finnst alveg ótrúlegt að fyrir ári síðan þá vildi hún helst ekkert vera í vatninu. Nú finnst henni þetta rosalega gaman.
Á morgun á svo húsbóndinn afmæli. Hann er voða spenntur að fá pakka. Hann vill nú minna tala um hvað hann verður gamall! En ef maður er ungur í anda, þá getur varla skipt máli hvað fæðingarvottorðið segir.
Jæja best að fara að koma einhverju í verk áður en ungfrúin vaknar að miðdagslúrnum.
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2010 | 09:31
Tómlegt í kotinu
Kæru bloggvinir
Jæja þá erum við bara orðin 3 eftir í kotinu. Það er alltaf ansi tómlegt þegar krakkarnir fara heim. Þetta er nú samt skárra núna þegar við höfum Auði Elínu til að dreifa huganum.
Hér hefur nú bara verið heldur haustlegt veður undanfarið. Manni finnst bara eins og sumarið sé búið. En það koma vonandi eitthvað fleiri sólardagar.
Það er búið að gjörnýta mannskapinn hérna í fríinu. Ansi gott að hafa aðstoð bæði við mokstur og barnapössun. Helga Rut og Unnar voru liðtækar barnapíur og gripu líka í moksturinn og annað smálegt. Það er búið að gera ýmislegt bæði stórt og smátt. Nú er aðallega eftir að setja upp loftlista á ganginum og mála glugga. Feðgarnir fóru líka tvisvar út að veiða. Í fyrra skiptið veiddu þeir sitthvorn fiskinn. En í seinna skiptið var þetta nú hálfgert hallæri. Fiskarnir voru svo slappir að bóndinn fór bara út í og greip fisk með höndunum og henti í land. Þetta var bara eins og Stella í orlofi. En þeir höfðu nú voða gaman að þessu. Við gáfum Ella veiðidót í afmælisgjöf svo það varð nú að vígja þetta.
Nú er svo bara allt komið í gamla horfið aftur. Auður Elín byrjuð hjá dagmömmunni. Hún var nú heldur ósátt fyrsta daginn. Fannst þetta hálfgert svindl að þurfa að fara í pössun aftur. En þetta venst nú allt. Það var rólegt hjá bóndanum þessa vikuna. Skólinn byrjar ekki fyrr en í næstu viku. Svo þetta var hálfgert snatt hjá honum. Enda ágætt fyrst að Elli og Kristín voru ekki farin heim. Þá gat hann verið meira með þeim. Næstu viku ætti svo allt að vera komið í samt horf. Frúnni þótti nú ansi erfitt að byrja að vinna aftur. Hefði alveg getað verið fleiri daga í fríi.
Í gær var svo drifið í að afþýða frystikistuna. Það hefur staðið til lengi. Manni vex þetta alltaf svo í augum, en svo er þetta nú ekki lengi gert þegar maður drullar sér í gang. Þegar það var búið að rífa allt upp úr kistunni ákváðum við að prófa að svíða kindahausana sem við fengum í vor. Við vorum ekkert búin að verka þá, hentum þeim bara beint í kistuna. Við höfum nú ekki gert þetta áður, svo þetta hefur nú sennilega ekki litið mjög fagmannlega út, en þetta hafðist allt saman. Verst að sviðalyktin situr svo í nefinu á manni að ég held við höfum ekki lyst á að éta sviðin fyrr en í vetur. Það voru teknar nokkrar myndir af gjörningnum og þær koma inn við tækifæri. VIð höfum annars verið voða löt við að taka myndir í sumar. En það er búið að setja inn nokkrar hér á síðuna. Verðum að fara taka okkur eitthvað á í þessu og setja inn video líka.
Við héldum að gestagangurinn væri búinn þetta sumarið, en svo er tengdó búin að ákveða að koma. Svo hún er væntanleg fljótlega. Það verður nú ekki leiðilegt.
Auður Elín er voða mikið að breytast þessa dagana. Hún skilur orðið mikið meira og er farin að skilja þegar maður segir henni að gera ákveðna hluti. Það er svo annað mál hvort henni þóknast að gera það! Hún er voða ákveðin, sumir myndu kalla það frekju. Hún rekur upp harmakvein ef hún fær ekki það sem hún vill. En við reynum nú að stoppa hana eitthvað af. Henni finnst voða gaman að setja einhverjar tuskur á hausinn og labba með það út um allt. Hún er algjör fjörkálfur og bröltir upp á allt. Er farin að geta togað sig upp á stóla og borð. Þetta hefur nú gengið stórslysalaust fyrir sig hingað til. En hún er nú líka mjög fljót að jafna sig ef hún dettur eitthvað eða rekur sig á. Það eru nokkrir jaxlar á leiðinni, svo hún er nú frekar pirruð í munninum. En flesta daga tekur hún þessu nú með stóískri ró.
Jæja ætli þetta sé ekki orðið gott í bili. Endilega kíkið á nýjustu myndirnar
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.8.2010 | 14:10
Verslunarferðir
Kæru bloggvinir
þá er sumarið búið hjá okkur í bili. Það hefur verið rigning mest alla vikuna. Svo það var gott að vera búin að klippa hekkið allavega. Þetta lítur orðið mun betur út. Það varð að skilja eftir smá kafla af hekki, af því það var býflugnabú mitt í því og ein flugan stakk bóndann í ennið þegar hann ætlaði að klipppa. Hann hafði engan áhuga á að koma nálægt því aftur. Þetta var víst ekkert sérstaklega þægilegt. Svo er bara eftir að klippa hekkið hérna við innkeyrsluna og svo er þetta búið. Það verður vonandi minna mál að klippa þetta næsta ár.
Vegna veðurs hefur fjölskyldan ekki verið mikið utandyra þessa vikuna. En það hefur verið mikið farið í verslunarmiðstöðvar. Unga kynslóðin hefur heldur betur haft verslunaræði. Elli og Kristín leigðu sér bíl. Af því við komumst ekki öll í einn bíl. Þetta var rosalega þægilegt af því að þá gátum við farið á okkar bíl. Verið aðeins með þeim og skilið þau svo bara eftir í búðunum. Algjör lúksus. Held þau hafi verið fegin líka að fá bara að vesenast í þessu ein og ekki þurfa að horfa upp á okkur súr á svipinn.
Svo er frúin bara að fara að vinna aftur á morgun. Vinnan flutti í nýtt húsnæði meðan ég var í fríi og það er að byrja ný stelpa sem á að vinna með mér. Hún er nýskriðin úr skóla. En vonandi gengur þetta allt vel. Hún virkar allavega skynsöm. Bóndinn fer svo að vinna á þriðjudaginn.
Auður Elín er orðin rosalega dugleg að labba. Dettur ekkert mjög oft orðið. En það er líka ægilegur brussugangur í henni. Hún er alltaf að príla upp á allt. Var rosa sniðug, hún fattaði nefnilega að bíllinn sem við gáfum henni í afmælisgjöf er mjög góð trappa. Svo hún leggur honum við hliðina á stól og prílar svo upp á stólinn. Hún er búin að taka nokkrar byltur við þetta. En það fylgir þessu víst. Hún nýtur þess í botn að hafa allt þetta fólk. Hún er farin að stunda það að baula eitthvað og svo eiga allir að gera eins og hún. Alveg óskaplega fyndið. Það verður fróðlegt að vita hvernig henni líst á það þegar allir fara heim. Helga og Unnar fara heim á morgun og Elli og Kristín á fimmtudaginn. Það verður nú aldeilis tómlegt þá. Dönum finnst við alveg stórskrýtin að vera bara heima í sumarfríinu. Það fara flestir eitthvað í frí, annaðhvort innanlands eða utan. Við erum bara rosalega hallærisleg að þeirra mati. Þeir hafa sennilega aldrei kynnst svona undarlegu fólki.
Það hefur ekki ennþá komist í verk að setja inn myndir. Reyni að fá þetta gert í vikunni.
Ætli þetta sé ekki nóg í bili. Það þarf að fara að sinna búi og börnum.
kveðja
Tisetfjölskyldan
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.7.2010 | 14:35
Tiltekt og hitabylgja
Kæru bloggvinir
Þá er enn ein vikan í sumarfríinu liðin. Það er búið að vera rosa gott veður og mikill hiti. Algjör bongóblíða.
Við höfum verið í allsherjar tiltekt hér í kompunum á bak við og í bílskýlinu. Það var búið að hrúgast upp alls konar drasl, sem þurfti að koma skipulagi á. Það þýddi auðvitað margar ferðir á haugana. Við erum ennþá að fara með drasl frá fyrri eigendum. Maður skilur ekki hvernig er hægt að safna svona miklu drasli. Svo er búið að fara með allan sandinn og múrsteinana og ruslið sem lá hér á planinu, svo nú er innkeyrslan bara næstum boðleg. Þarf bara að henda möl í hana og hreinsa illgresi. Svo er búið að setja upp auka skáp á ganginum frammi, svona fyrir ryksugu og svoleiðis.
Á föstudagsnóttina komu svo Elli og Kristín. Svo nú er heldur betur fjölmennt í kotinu. Auður Elín fílar þetta alveg í botn. Hún verður ábyggilega alveg ómöguleg þegar þau fara heim. Við fórum á risastóran markað á föstudaginn. Þar var bæði hægt að kaupa hunda, hesta og fataleppa ásamt ýmsu öðru. Það var alveg urmull af fólki. Höfum aldrei lent í öðru eins.
Í gær var svo byrjað á einu stórverkefninu. Að klippa hekkið í kringum húsið. Það hefur ekki verið klippt í mörg ár, svo það er af nógu að taka. Feðgarnir eru nú mest í þessu, en frúin er eitthvað að reyna að aðstoða. Við keyptum lítinn fataskáp inn í herbergið hennar Auðar, og nýjar gardínur, svo nú eru þetta farið að líkjast aðeins meira barnaherbergi. Við þurfum svo að kaupa hillur og setja upp fleiri myndir. Við gátum líka tekið til í svefnherberginu og komið fötunum okkar ofan í kommóðuna sem var inni hjá Auði. Svo þetta lítur nú allt orðið snyrtilegra út.
Auður æfir sig alla daga í að labba. Hún stendur oft úti á miðju gólfi og horfir út í loftið. Hún er óþreytandi að reyna að standa upp. Hún er farin að geta tekið nokkur skref áður en hún dettur á bossann. Annars fara nú dagarnir í að halda uppi lögum og reglu og reyna að gefa liðinu að éta.
Það þarf svo að fara að reyna að koma inn myndum. Það hefur ekki komist í verk.
Kveðja
Gummi, Ragga og allir hinir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.7.2010 | 13:01
Fullt hús barna
Kæru bloggvinir
hér er ennþá sól og blíða. Voða fínt að hafa svona gott veður meðan maður er í sumarfríi. Það á nú eitthvað að vera skýjað næstu daga. En vonandi verður það bara stutt.
Á mánudaginn komu Unnar Ernir og Helga Rut. Auður Elín er ekkert smá ánægð með það. Sérstaklega Unnar. Hún sér ekki sólina fyrir honum. Hann er nú líka duglegur að leika við hana. Það er rosa gott að hafa svona barnapíur. En frúnni þætti nú allt of mikið að eiga svona mörg börn, svona dags daglega. Það er búið að fara í skemmtigarð og í búðaferð. Þau létu nú bara vel af þessu hvoru tveggja. Svo var ráðist í að moka múrsteinunum og ruslinu hér af planinu. Það er ennþá smá eftir. Enda erum við hjónaleysin hvorugt í almennilegu ástandi fyrir að vera að djöflast eitthvað í svona löguðu. Frúin fékk svo mikið tak í hnakkann í nótt að hún getur varla hreyft höfuðið í dag. Eina lækningin er víst hitapoki og verkjatöflur. Við vonum þetta verði gengið yfir fljótlega.
Það er búið að fara allmargar ferðir á ruslahaugana. Það var eitthvað farið að safnast upp draslið. Síðan er búið að vera að taka til hér í geymslum og víðar. Það er nú víst nóg eftir ennþá. En það er fínt að geta tekið þetta svona smám saman og hafa krakkana til að passa Auði Elínu á meðan. Maður gerir lítið með hana vakandi.Hún er eiginlega alveg hætt að sofa á daginn. Sefur mesta lagi í klukkutíma. Svaf áður 3-4 tíma. En hún sefur hins vegar pínu lengur á morgnana svo það er nú í sjálfu sér ágætt. Hún verður bara pínu þreytt á daginn í staðinn. Hún er allt í einu orðin voða dugleg að borða og drekka. Hún er líka nýbúin að uppgötva flugur. Finnst þetta stórmerkileg kvikindi og er alltaf að reyna að grípa þær. Það gengur nú eitthvað illa. Enda eru þær töluvert sneggri en hún. Henni finnst voða fyndið að blaðra eitthvað og svo apa krakkarnir eftir henni og þá heldur hún áfram og apar eftir þeim.
Nú svo er verið að reyna að slaka pínu á svona inn á milli. Það er nú ekki okkar sterkasta hlið, en það verður að reyna það líka.
Jæja það er víst hállfgerð gúrkutíð hérna hjá okkur núna. Látum heyra í okkur að viku liðinni.
kveðja frá stórfjölskyldunni
Auður Elín, Gummi, Ragga, Helga Rut og Unnar Ernir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.7.2010 | 10:16
Hitabylgja
Kæru bloggvinir
Hér hefur allt verið með kyrrum kjörum síðustu vikuna. Engar fyllibyttur að keyra eins og brjálæðingar. Fyllibyttan sem keyrði eins og vitleysingur síðustu helgi, var komin á annan bíl daginn eftir. Hann er örugglega ekki með ökuskirteini, en honum er víst nokkuð sama. Það er náttúrlega bara ekkert sniðugt að svona vitleysingar séu undir stýri.
Það hefur verið rjómablíða hér síðustu vikuna. Í gær var yfir 30 stiga hiti og maður var algjörlega að bráðna. Í dag er skýjað en samt 28 stiga hiti. Það liggur við að það sé best að vera bara inni.
Bóndinn var á námskeiði í síðustu viku. Nú er hann kominn með réttindi til að keyra í öllum löndum innan evrópusambandsins. Þetta var nú víst ekkert rosalega skemmtilegt, en gott að hafa þetta. Þetta er orðið krafa hérna í Danmörku og fyrirtækið borgar fyrir.
Ungfrúin fór til annarar dagmömmu þessa vikuna. Það gekk nú vonum framar. Hún vildi að vísu ekki sofa almennilega hjá henni, en borðaði og hagaði sér víst bara nokkuð vel. Þessi dagmamma er voða almennileg og virtist hafa áhuga á börnunum. Það kom svo í ljós að hún er hér frá Tiset og við kaupum egg af foreldrum hennar. Auður er voða mikið að prófa sig áfram með að labba. Hún er nú pínu smeyk við að sleppa sér ennþá. Er voða hissa þegar henni tekst að labba án þess að detta. Hún hefur verið voða pirruð seinnipartinn, sennilega af því hún er ekki í því umhverfi sem hún er vön. Hún á líka voða erfitt með að sofa á nóttinni. Sennilega út af hitanum. Hún fór í 1 árs skoðun á föstudaginn. Lækninum leist mjög vel á hana. Hún er orðin 11 kg og 81 cm. Læknirinn skildi ekkert í því af hverju barnið er svona langt og spurði hver í fjölskyldunni væri svona hávaxin. Kannski báðir foreldrarnir! Við vorum þarna bæði. Hún fékk svo 2 sprautur. Við fyrri sprautuna vældi hún pínu en hló bara að þeirri seinni. Henni virðist ekkert hafa orðið meint af þessu. Í gær létum við renna í sundlaugina hennar hérna úti. Hún fór í hana með pabba sínum og fannst þetta stórmerkilegt. Allavega notalegt að kæla sig niður í hitanum. Hún er voðalegur prakkari og ef henni er bannað eitthvað, þá horfir hún ögrandi á mann og heldur áfram. Hún tekur ástfóstri við einhvern mat í smá tíma og er alveg vitlaus í það. Núna er uppáhaldið jarðaber og belgbaunir. Það hefur verið voða barátta að fá hana til að drekka. En það er nú eitthvað að koma. Við erum að reyna að venja hana af pela. Nú fær hún bara á kvöldin áður en hún fer að sofa. Svo er meiningin að venja hana alveg af þessu. Við vonumst eftir að geta gert það núna í sumarfríinu. Svona ef hún fer að vera eitthvað erfið að sofa þegar hún hættir að fá pela.
Jæja ætli þetta sé ekki orðið gott í bili
Kveðja frá heitu löndunum
Auður Elín, Gummi og Ragga
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2010 | 11:02
Allt að gerast í Tiset
Kæru bloggvinir
hér hefur veðrið heldur betur sýnt á sér sparihliðina undanfarið. Það hefur verið steikjandi hiti um helgina. Í gær var svo heitt að maður svitnaði bara við að hugsa. Það var alveg rosalega mikill raki í loftinu. En í gærkvöldi og nótt var þrumuveður og mikil rigning, svo í dag er bara þolanlegur hiti og minni raki.
Bóndinn hefur haft langa pásu um miðjan daginn alla síðustu viku, svo hann hefur verið rosa duglegur að bardúsa í húsinu. Hann er búinn að mála á klósettinu og gera klárt til að mála hurðakarma og gluggakistur. Svo þetta skríður nú allt áfram. Hann fékk hjálp til að setja saman rólustatífið og í gær keyptum við svo rólur og grófum statífið niður. Ungfrúin er búin að prófa græjurnar og er alveg hæstánægð með þetta. Var líka heillengi í sandkassanum um daginn. Finnst þetta bara alveg rosa gaman. Svo er bara eftir að pumpa í barnalaugina sem við keyptum og þá er þetta orðinn eins og besti skemmtigarður hérna á bak við. Frúin óskar sér svo að fá snúrur líka, og þá getur þetta ekki orðið mikið betra.
Föstudagskvöldið var heldur betur atburðaríkt, frúin fór snemma að sofa eins og alltaf, en bóndinn var að horfa á kassann. Allt í einu heyrði hann rosa læti í einhverjum bíl og svo kom rosa skellur. Hann kíkti út, það var auðvitað komið svartamyrkur. Þá sá hann bíl renna fram hjá, afturdekkin voru farin undan og framdekkin voru öll beygluð, svo það stóðu eldglæringar allt í kringum hann. Hann stoppaði svo hérna fyrir framan húsið. Bóndinn dreif sig í föt og út á gangstétt, þá var sá sem keyrði bílinn komin út úr bílnum. Það safnaðist svo saman hellingur af fólki. Einn fór heim og hellti á könnuna og kom svo með pappaglös og gaf öllum kaffi. Það varð úr þessu heilmikil samkoma. Ökumaðurinn var vel ölvaður og eflaust á einhverju meiru. Hann var keyrður á sjúkrahús. Löggan kom svo loksins og þá gátu allir farið í rúmið. Einhver konan sagði það væri nú merkilegt að það þyrfti að gerast eitthvað svona, svo fólkið í Tiset talaði saman.
Í gær átti frúin svo afmæli. Hún fékk voða fínar gjafir og rúnstykki í morgunmat. Svo keyrðum við til Haderslev og keyptum skápa hérna fram á gang. Frúin var að verða geðveik á að hafa enga skápa. Við gengum svo niður göngugötuna. Síðan keyrðum við heim og moldvörpuðumst í garðinum. Í gærkvöldi fórum við svo út að borða. Alveg frábær matur. Það er nú ekki mikið úrval af veitingastöðum hér í sveitinni svo við fórum á kínastað sem er með alveg mjög fínan mat. Í alla staði alveg einstaklega vel heppnaður afmælisdagur.
Í morgun fórum við svo í sund. VIð höfum ekkert farið síðan ungbarnasundið hætti. Auður Elín er orðin alveg brjálæðislega hrædd við að fara í sturtu, en þegar við komum í sundlaugina gekk þetta nú betur. Hún var smá tíma að venjast lauginni aftur, en svo kom þetta allt saman. Við verðum að reyna að vera dugleg að fara með hana þangað til ungbarnasundið byrjar aftur. Dagmamman hennar er komin í sumarfrí, svo næstu viku á hún að vera hjá annarri dagmömmu. Það verður spennandi að sjá hvernig það gengur. Hún er vön að neita að borða og drekka þegar það er verið að breyta einhverju svona. Hún tók fyrstu skrefin, án þess að halda sér í, í gær, á afmælisdag móður sinnar. Ekki amalegt það. Hún er farin að vera duglegri að ganga með, en er eitthvað smeyk við að sleppa sér alveg ennþá. En þetta kemur allt saman.
Í morgun kom kötturinn inn með fugl í kjaftinum. Hún er nú alveg einstaklega klaufaleg við að veiða, svo frúin sem var ein frammi með Auði, hélt nú að kvikindið væri dautt. En nei, ekki alveg, svo kötturinn lék sér aðeins með fuglinn og svo tók frúin hann og rotaði hann og henti í ruslið. Bóndinn svaf á sínu græna meðan á þessu stóð. Það er ekki það skemmtilegasta sem maður veit, þegar kettirnir eru að draga inn svona kvikfénað. Sérstaklega ekki þegar þetta er lifandi.
Jæja ætli sé ekki komin tími á að koma sér út í garð.
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.6.2010 | 12:34
Sól, loksins sól
Kæru bloggvinir
þá erum við loksins farin að sjá til sólar oftar en 2 daga í viku. Það hefur verið mjög gott veður alla vikuna og líka núna um helgina. Maður kann bara varla á þetta og verður dasaður á þessum hita. Nú vonum við bara að þetta haldi eitthvað áfram. Það er að verða kominn júlí og maður er varla búinn að taka fram sumarfötin.
Frúin hefur verið mjög upptekinn í vinnunni þessa vikuna. Yfirmaðurinn hennar var að fara á ellilaun og það var allt á öðrum endanum í undirbúningi. Á fimmtudaginn komu svo fullt af nánustu samstarfsmönnum og kvöddu manninn. Við í vinnunni sungum frumsamin söng. Það er mjög danskt að gera það. Frúin er nú eins og fram hefur komið ekki mikið fyrir svona uppákomur, en það var ekkert annað að gera en láta sig hafa það. Þetta gekk nú allt mjög vel og allir voru víst ánægðir með þetta. Frúin dröslaðist líka með borð og stóla upp og niður stiga og var alveg búin á því á eftir. Þetta var haldið í húsnæði sem vinnan er að fara að flytja í núna í júlí. Þannig að það var allt í múrryki og ógeði. Þetta er örugglega í 10 skipti að vinnan sem frúin er í, flytur meðan hún er þar. En það verður mjög fínt að flytja, við fáum meira pláss og það verða skrifstofur fyrir alla. Við flytjum líka frá 3 hæðum inn í 2 hæðir.
Í gær fórum við með mömmuhópnum í dýragarð hérna rétt hjá. Þetta var nú ekki neitt sérstakt. Okkur fannst dýrin hálf horuð og það var hryllilega skítugt vatn hjá þeim. Allavega ekki til neinnar fyrirmyndar. Við höfum nú farið í nokkra dýragarði og þetta var einn af þeim verstu. Auður er nú líka full lítil til að fatta þetta allt saman. En naut þess að vera úti. Það var hálf kalt í gær. Hefði verið betra að vera þarna í dag, því það hefur verið rosa gott veður í dag. Þegar við vorum búin í dýragarðinum ákváðum við svo að renna með sófann okkar til Steina og Sigrúnar. Þau voru svo sæt að kaupa hann af okkur, svo við gætum losnað við hann. Þannig að dagurinn í gær var hálfgerður keyrsludagur.
Í dag erum við svo búin að setja saman sandkassa í garðinum og ryksuga bílinn. Auður Elín er ekki búin að prófa sandkassann ennþá. Hún þurfti að fá sér middagslúr. Dagmamman segir hún nenni ekki að vera í sandkassanum hjá henni, svo það verður spennandi að sjá hvað hún segir yfir þessu. Hún er allt í einu komin með 2 framtennur. Þetta kom svona bara yfir nótt höldum við. Svo nú er hún komin með 6 tennur. Hún er orðin duglegri að borða. Borðar meira að segja orðið rúgbrauð hérna heima. Við keyptum disk handa henni sem er með svona sogskálum undir, svo hún geti ekki hent honum í gólfið. Þetta er ægilega mikið sport, allavega ef henni finnst maturinn góður. Hún er voða mikill sjálfstæðispúki og vill bjarga sér. Það er auðvitað bara mjög gott.
Skólarnir hér eru komnir í sumarfrí, svo í næstu viku keyrir bóndinn morguntúr og svo ekki fyrr en kl. 16:00. Það eru nokkrir krakkar sem eru í skólavistun. Þarnæstu viku fer hann svo á námskeið. Og þar á eftir er svo 3ja vikna sumarfrí. Jibbí!
Hann ætlar að henda inn myndum hér á morgun.
Kveðja úr sólinni
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)