Færsluflokkur: Bloggar
20.6.2010 | 18:52
1. árs afmæli
Kæru bloggvinir
Hér lætur sumarið ennþá bíða eftir sér. Það koma svona 2 dagar í miðri viku þar sem er sól og gott veður. Síðan er yfirleitt skítaveður um helgar. Það voru þrumur hér í morgun og úrhellisrigning. Ekki beint huggulegt. En við höldum nú enn í vonina að það komi sumar. Við erum orðin ansi þreytt á þessum umskiftum.
Hér hefur annars allt gengið sinn vanagang. Hér í Danaveldi hefur aðalfréttin verið að einhver hvalur álpaðist til að synda inn í fjörð hér á austurströnd Jótlands og festist á einhverju rifi. Þar lá hann mest alla vikuna og þetta var þvílíkt fréttnæmt, það var ekki talað um annað og fólk keyrði úr öllum áttum til að sjá þetta stórmerkilega fyrirbrigði. Nú svo losaði hann sig en synti þá bara lengra inn í fjörðinn. Nú er blessað dýrið svo farið á vit feðra sinna og hann á víst að enda daga sína á einhverju safni í Kaupmannahöfn. Bóndinn sagði nú við vinnufélaga sína að það væri nú ekki annað að gera en skjóta kvikindið og éta það. Það fannst þeim nú alveg hreint fráleitt. Manni finnst nú hálf bilað að fólk fylkist að til að glápa á einhvern hval sem berst fyrir lífi sínu.
Hápunktur vikunnar var svo auðvitað afmæli ungfrúarinnar. Held við séum ekki ennþá búin að fatta að hún sé orðin eins árs. Maður skilur ekki hvað þetta er fljótt að líða. Hún hefur fengið margar góðar gjafir. Takk kærlega fyrir það. Hún fékk meðal annars geisladiska með íslenskri tónlist. Við höfum verið að spila þetta um helgina og hún er farin að dilla sér í takt. Mjög fyndið að sjá það. Henni líkar þetta allavega mjög vel. Í dag héldum við svo stórveislu fyrir hana. Þetta var mjög alþjóðlegt. Það voru Íslendingar, Tisetbúar og danskir vinir okkar. Afmælissöngurinn var sunginn bæði á dönsku og íslensku. Frúin er nú ekki alveg týpan í að vera svona skemmtanastjóri. Hún er mjög fegin að það eru 13 ár þar til hún þarf að standa í fermingu og halda ræðu fyrir dótturina. Kannski hún láti pabbann bara um það. En þetta var alveg frábær dagur og ungfrúin fékk ennþá fleiri gjafir. Hún tók þessu nú rólega eins og hún er vön. Var pínu hissa á að sjá allt þetta fólk, en naut sín mjög vel. Hún og dóttir vinkonu okkar voru svo farnar að spjalla saman á einhverju bullmáli undir lokin. Rosa gaman að sjá þær. Það náðist video af þessu. Það voru teknar nokkrar myndir og við reynum að henda þeim inn hér fljótlega. Ásamt videoinu. Nú er litla fjölskyldan bara búin á því. Auður var fljót að sofna, og við hjónaleysin erum búin að smyrja nesti fyrir morgundaginn og liggjum nú í sófanum. Svo er bara vinna á morgun. Eftir 2 vikur fáum við svo 3ja vikna sumarfrí. Þá kemur Helga Rut og Unnar Ernir í heimsókn. Elli Jón og Kristín koma svo í lok júlí. Svo við fáum nú einhverjar heimsóknir. Þetta leit ekki vel út á tímabili. En þetta verður sennilega eins og við erum vön.
Jæja ætli sé ekki best að reyna að slappa aðeins af áður en maður fer í bælið.
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.6.2010 | 12:07
Gestirnir komnir og farnir
Kæru bloggvinir
hér hefur aldeilis verið líflegt síðustu dagana. Bragi bró og Gunna komu á miðvikudaginn og fóru í morgun. Þau komu nú ekki með góða veðrið með sér. Hér hefur verið rok og skítaveður eiginlega alla síðustu viku. En vonandi hafa þau tekið þetta með sér til Kaupmannahafnar aftur. Það spáir allavega einhverju meira sumarlegu í næstu viku.
Það er annars búið að vera rosa gaman að fá heimsókn. Auður Elín hefur verið alveg á útopnu. Henni hefur nú samt fundist við veita gestunum full mikla athygli á köflum og hefur hækkað róminn til að reyna að komast að. Ekki alveg að vilja deila okkur með öðrum. En henni hefur nú þótt rosa gaman að hafa gestina og notið þess að hafa einhverja fleiri að tala við. Hún hefur auðvitað heillað þau upp úr skónum. Við keyrðum með þau hér út um allt að sýna þeim. Frúin var í fríi á föstudaginn og við keyrðum til vinnufélaga hennar og keyptum heilan lambaskrokk. Fengum 4 hausa, innyfli og eistu með. Við erum búin að grilla einu sinni af því og þetta er bara besta lambakjöt sem við höfum smakkað hér í Danaveldi. Svo við erum bara himinlifandi. Nú þurfum við bara að kaupa okkur græjur til að svíða hausana. Það hefur aldrei tekist áður að kaupa kjöt beint af bóndanum hér í DK. En þetta fólk er heilmikið að selja, svo þetta er ekkert mál. Arabavinir okkar í Árósum verða auðvitað örugglega mjög svekktir að missa viðskiptin, en ekkert við því að gera.
Bragi og Gunna komu með föt með sér sem Hófí föðursystir hafði gefið okkur um jólin. Þar á meðal voru sokkapar. Auður Elín hefur tekið miklu ástfóstri við þessa sokka og þvælist með þá út um allt. Hún er annars ansi kvefuð núna. Það rennur endalaust úr nefinu á henni og hún er með hósta. Vonandi að hún verði búin að hrista þetta úr sér fyrir næstu helgi, þá ætlum við að halda upp á afmælið hennar. Við vorum búin að ætla að fara út og versla föt á hana. Hana var farið að vanta buxur og einhver sumarföt. En við þekkjum svo gott fólk sem gefur okkur föt, að það eru búnir að koma 3 pokar fullir af fötum hérna síðustu dagana. Alveg meiriháttar. Gæti ekki passað betur.
Í gær var svo ráðist í að gera lambakæfu úr slögunum. Uppskriftabókin er víst ennþá í einhverjum kassa, svo það var farið á netið að leita að uppskrift. Það var nú ekki beint auðvelt, en hafðist að lokum. Þá vandaðist nú málið því okkur vantaði allarahanda krydd. En við slepptum því bara og þetta kom bara mjög vel út. Nú er frúin svo að baka rúgbrauð. Það jafnast ekkert á við rúgbrauð með nýrri kæfu. Svo komu Bragi og Gunna með íslenskt nammi með sér svo það er bara veisla þessa dagana.
Jæja ætli sé ekki best að fara að sinna brauðbakstrinum
kveðja frá Tiset
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.6.2010 | 16:30
Bæjarhátíð og bílasala
Kæru bloggvinir
hér hefur verið mikið að gera síðustu vikuna. Bæjarhátíðin byrjaði á fimmtudag og endaði í dag. Það hefur verið heilmikið að snúast í kringum það. Veðrið hefur verið alveg frábært síðustu dagana. En nú spáir rigningu á morgun. Það er svo sem ekki vanþörf á. Allt orðið mjög þurrt.
Bóndinn auglýsti gömlu mözduna okkar til sölu og það varð allt vitlaust. Það hringdu örugglega 30-40 manns sem vildu endilega kaupa gripinn, en vildu nú gefa mismikið fyrir hann. Frúin var alveg gáttuð, hafði alls ekki búist við neinu. Það hringdu allavega 2 frá Sjálandi sem ætluðu bara að taka lestina og kaupa bílinn. Það er víst mjög erfitt að kaupa svona gamla bíla á Sjálandi. Þar keyrir fólk ekki eins langt í vinnu og hér á Jótlandi. Það eru betri almenningssamgöngur og fólk skiptir greinilega oftar um bíla. Það voru mikið arabar sem hringdu og vildu kaupa. Þeir eiga oft einhvern að sem getur dittað að bílum ef eitthvað bilar. En það var nú samt Dani sem keypti bílinn. Við fengum ca. 60.000 meira fyrir hann en ef við hefðum selt hann í brotajárn, svo við erum mjög ánægð með það. Nýji bíllinn hefur reynst mjög vel hingað til. Mjög gott að keyra hann af því maður situr svo hátt og þægilegt í alla staði. Vonandi að það haldi bara áfram.
Af ævintýrum kattarins er það að segja að hún kom heim í síðustu viku og komst upp á loft. Þar fer hún oft undir gólffjalirnar og felur sig. Í þetta skipti kom hún svo ekki niður í 2 daga. Ekki meðan við vorum heima a.m.k. Við vorum því farin að halda að við þyrftum að rífa allt í sundur þarna uppi til að finna hana. Það hefði nú verið huggulegt og gestir að koma á miðvikudaginn. En sem betur fer kom hún niður aftur. Nú er bara passað upp á að loka upp á loft.
Ungfrúin er búin að vera alveg í rosa stuði. Hún er búin að vera á bæjarhátíðinni alla helgina og fengið gríðarlega athygli. Hún er alveg hætt að vera mannafæla, svo það hafa margir haldið á henni og henni hefur bara líkað vel. Það var matur og annáll á föstudaginn og það var auðvitað gert grín að frúnni á brunabílnum. Af því það fór að rjúka úr gamla bílnum um daginn. Það kvöldið fórum við ekki heim fyrr en hálf ellefu og Auður var ennþá alveg í rosa stuði. En hún var voða fljót að sofna þegar heim var komið og vaknaði á sama tíma og venjulega morguninn eftir. Í gær var svo kökukeppni. Það var keppt í þremur tegundum. Frúin bakaði gulrótarköku. Allar kökurnar fengu svo númer og aftan á því var skrifað nafn. Á köku frúarinnar var skrifað nafn bóndans. Kakan var svo valin besta kakan af formkökunum. En af því nafn bóndans stóð á miðanum þá fór hann og tók á móti verðlaununum. Við fengum vínflösku og súkkulaði. Svo nú halda allir í Tiset að hann sé rosa bakarameistari ! :)
Í dag tók frúin svo þátt í brennókeppni. Liðið tapaði auðvitað. En gaman að vera með. Við brunuðum svo í 3 ára afmæli Rebekku í Kollund. Fyndið að á svipuðum tíma í fyrra vorum við í 2 ára afmæli þar og þá var frúin alveg á steypirnum. Ótrúlegt hvað tíminn flýgur. Eftir að frúin fór að vinna þá vinnst ekkert undan henni hérna heima og drullan hrúgast upp. En það verður að taka skurk í þessu núna. Það er ekki hægt að bjóða Braga bró og Gunnu í alla þessa drullu.
Kær kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín partýgella
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.5.2010 | 14:18
Nýr bíll
Kæru bloggvinir
þá er sumarið komið og farið. Það var síðustu helgi og svo hefur verið rigning og leiðindaveður mest alla vikuna. Stundum smá sól fyrripartinn. En í gær og í dag hefur bara verið skítkalt. Ekkert spennandi við það. Við vonum að það verði betra veður næstu helgi því þá er bæjarhátíðin í Tiset og það er ekkert spennandi við að halda svoleiðis þegar veðrið er leiðilegt. Við fórum að hjálpa til við að setja upp tjöld og svoleiðis áðan. Bóndinn er þar ennþá. Hann hlýtur nú að fara að skila sér. Það er náttúrlega ekkert verið að vinna í neinu akkorði við þetta.
Það hefur nú annars allt gengið sinn vanagang hér í vikunni. Bóndinn hefur verið á fullu að leita að öðrum bíl. Í gær keyrðum við svo til Ebeltoft. Bær sem er hérna tæpa 200 km frá. Við versluðum svo bílinn og keyrðum heim. Frúin er óskaplega lítið hrifin af því að keyra á hraðbrautinni, en neyddist til þess í gær. Eftir 1 og hálfan tíma urðum við nú að stoppa því frúin var komin með sjóriðu af öllum þessum akstri. Bóndinn neyddist til að keyra skikkanlega, svo við misstum ekki af hvort öðru. Bíllinn sem við keyptum er Renault Scenic. Voða fjölskylduvænn bíll. Hann er 12 ára en það telst nú ekki mikið hér. Við höfum aldrei átt svo nýlegan bíl eftir við fluttum hérna út. Hann er voða vel með farinn og hefur verið passaður vel, svo við vonum að hann endist eitthvað. Við ætlum að reyna að selja þann gamla fyrir lítinn pening. Það er vonandi einhver sem vill kaupa hann. Hann ætti alveg að endast í minnsta kosti ár í viðbót. Sérstaklega ef maður getur gert við hann sjálfur og þarf ekki að eyða of miklum pening í hann. Hér fara bílarnir í skoðun á 2 ára fresti, svo maður getur keypt druslu og keyrt hana í tvö ár og svo hent henni. Það er alveg óhuggulega dýrt að kaupa nýja bíla, svo það lætur maður sig ekki einu sinni dreyma um.
Ungfrúin tók þessu bílastússi með stóískri ró. Hún svaf í bílnum nánast alla leiðina til Ebeltoft og til baka líka. Það er ekki beint erfitt að hafa hana með í svona stússi. Alveg ótrúlegt hvað hún er róleg í bíl, miðað við hversu erfitt hún á með að sitja kyrr hérna heima. Hún var nú samt voða fegin að komast úr bílnum í gær og fá að skríða um.
Kötturinn á heimilinu hefur verið í einhverjum ævintýrum. Hún kom heim í síðustu viku, öll eitthvað í lamasessi. Við höldum að annað hvort hafi hún lent í slagsmálum eða það hafi verið keyrt á hana. Hún fór svo út í fyrradag og sást ekkert í gær. Við vorum því eiginlega búin að afskrifa hana. En svo kom hún heim áðan. Hún virðist vera alveg einstaklega óheppin alltaf greyið. En gott hún skilaði sér.
Jæja það er víst ekkert meira spennandi að frétta héðan
Kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.5.2010 | 16:36
Sól og blíða
Kæru bloggvinir
þá er vorið loksins komið hérna hjá okkur. Það hefur verið steikjandi sól og hiti hér síðustu daga. Það var kærkomið. Það er farið að grænka pínulítið bletturinn hér fyrir framan. Það verður bara að vökva hann á hverjum degi, því það er svo heitt. Við vonum auðvitað að þetta haldist eitthvað.
Frúin lenti í heilmiklu bílaævintýri í vikunni. Hún var á leiðinni heim úr vinnunni þegar það fór að lykta af brenndu gúmmí eða einhverju slíku. Það var svo sem ekki til frásögu færandi, en svo fór að koma reykur upp á milli mælaborðsins og stýrisins. Hún brá á það ráð á keyra út í kant og kanna málið. Það var ekkert að sjá undir húddinu, allt í lagi með olíu og vatn, svo hún ákvað að keyra aðeins lengra, með opinn glugga vel að merkja. Það gekk nú ágætlega í fyrstu, en svo fór að rjúka aftur. Aftur stoppaði hún og lét þetta kólna og svona komst hún heim. Bóndinn var eitthvað að mixa víra undir stýrinu um daginn, því stefnuljósin hættu að virka. Frúin var því sannfærð um að þetta væri eitthvað tengt því. Þegar heim var komið ætlaði bóndinn að kíkja á þetta, en þá vildi bíllinn ekkert starta aftur. Bóndinn reif þetta allt í sundur og fann út að botninn í svissinum var bráðnaður og við gátum ekkert gert í því. Þá var hringt í Falck, sem er svona hjálparþjónusta við bílaeigendur. Það kom einhver karl, mörgum tímum seinna og kíkti á þetta. Hann gat ekkert gert og keyrði bílinn á verkstæði. Við urðum svo að leigja bíl á meðan, svo frúin kæmist í vinnuna. Við fengum bílinn svo aftur á föstudaginn. Það var rándýrt að fá þennan varahlut, en kostaði ekki mikið að fá hann settan í. Allavega, þá erum við að velta því fyrir okkur að tala við bankann eftir helgi og kanna hvort við getum fengið lán til að kaupa bíl. Svona áður en maður er búinn að borga offjár í að gera við þennan sem við erum á. Þetta slitnar fljótt þegar það er keyrt svona mikið.
Við fórum svo í afmæli hjá nágrönnum okkar í gær. Maðurinn, sem er Ameríkani, átti 42 ára afmæli, og er búinn að vera jafn lengi í Ameríku og í Danmörku. Það var partý úti í garði hjá þeim og við vorum vel bökuð og brennd eftir daginn. Alveg ótrúlegt að maður skuli ekki passa sig. En þar var frúin svo spurð hvort hún væri farin að keyra brunabíl. Það átti að vera voða fyndið af því ég var að keyra með reyk í bílnum. Það berast fljótt fréttirnar hér í sveitinni. Þá hafði dagmamman séð að frúin var á lánabíl og spurt út í það. Dagmamman er svo góð vinkona formannsins í íþróttafélaginu í Tiset. Það verður spennandi að heyra hvort ekki verði gert grín að þessu á bæjarhátíðinni þarnæstu helgi.
Í dag renndum við svo til Árósa. Komum við hjá John vini okkar og keyptum kjöt af Arabavinum okkar. Það er nauðsynlegt þegar maður fer til Árósa.
Ungfrúin hefur verið eitthvað erfið að borða undanfarið. Ekki gott að vita hvað veldur því. Hún er annars hress og kát og alveg á útopnu. Við erum aðeins farin að prófa að lesa fyrir hana. Henni finnst það nú spennandi en það er erfitt að sitja kyrr.
Nú er svo um að gera að nýta sér að það er auka frídagur á morgun. Það eru víst ekki fleiri langar helgar fyrr en við förum í sumarfrí um miðjan júlí.
Bestu kveðjur
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.5.2010 | 11:23
Pestarbæli
Kæru bloggvinir
það er ekkert sem bendir til þess að við fáum vor í bráð hér í Danaveldi. Það hefur verið þurrt ansi lengi, svo bóndinn byrjaði að vökva blettinn hér í gær. Þegar hann var að verða búinn byrjaði að rigna og það rigndi eldi og brennisteini í alla nótt og gerir enn. Þetta er sannkallað haustveður. Algjört skítaveður.
Annars gerðist sá merki atburður á þriðjudaginn að frúin lagðist með einhverja magakveisu. Það er ansi merkilegt þar sem hún hefur aðeins tvisvar á ævinni, síðan hún varð launþegi sem 16 ára, að hún hefur verið veik frá vinnu. En þegar maður kemst ekki frá náðhúsinu með góðu móti, er erfitt að komast í vinnuna, svo hún varð að láta sig hafa það að vera heima á miðvikudaginn. Ungfrúin smitaðist svo á föstudaginn og hefur verið með háan hita og niðurgang. Hún hefur nú borið sig vel greyið, en það er voða erfitt að horfa á hana svona lasna. Maður er allavega minntur á hversu ótrúlega heppinn maður er að eiga heilbrigt barn. Bóndinn hefur ekki enn smitast af ófögnuðinum, svo hann sleppur kannski. Við vonum það, hans vegna. Frídagarnir hafa því farið í að reyna að slappa af. Kannski var þetta planlagt svona, svo við tækjum því rólega. Það er bara ekki auðvelt þegar maður er svona hálf ofvirkur.
Garðurinn hér fyrir framan er aldeilis orðinn breyttur. Það er búið að sá grasfræi og jafna hann allan voða fínt. Þetta verður rosa flott. Það verður bara að passa að hann þorni ekki. Það er nefnilega sjaldan sáð grasfræi hér á vorin, út af hitanum. Við tókum okkur svo til einn daginn og hreinsuðum gangstéttina hér fyrir framan. Það var hrunin svo mikil mold úr beðinu, út á gangstéttina, ásamt ýmsu öðru. Þetta er allt annað líf núna. Við afrekuðum líka að fara í eina heimsókn.
Það verður nú eitthvað rólegra hér í gistiþjónustunni hjá okkur í sumar, en hefur verið. Við fáum góða gesti í byrjun júní, í nokkra daga. Bragi bró og Gunna ætla að kíkja við. Og svo kemur Helga Rut sennilega í sumarfríinu okkar í júlí og kannski kemur Unnar Ernir (stjúpbarnabarnið) með henni. Elli Jón er orðinn svo fullorðinn að hann má ekkert vera að því að kíkja á okkur gamla settið. Það verður skrýtið ekki að hafa allt fullt hérna allt sumarið eins og venjulega. Síðasta sumar var fólk hér stanslaust frá byrjun júní til lok ágúst. Þannig að þetta verður öðruvísi.
Þegar við fluttum hér til Tiset fórum við ófáar ferðir á ruslahaugana og hittum þar mann, sem var mjög áhugasamur hvað við værum að gera hér og vildi endilega hjálpa okkur að aðlagast. Hann keyrði alla múrsteinana úr klósettinu á haugana fyrir okkur. Hann er nefnilega bóndi og á fullt af stórtækum vinnuvélum. Hann er aðalmaðurinn í vatnsveitunni hér í Tiset og var á vappi hér á dögunum. Við buðum honum í kaffibolla svo hann gæti séð hvað við værum búin að gera. Hann er fyrrverandi pólitíkus og mjög áhugasamur um að öllum líði vel í Tiset og við vorum eitthvað að tala um að það væri nú pínu erfitt að kynnast fólki. Og að fólkinu hér fyndist við ábyggilega stórskrýtin að hafa flutt hingað. Hann sagði að fólk talaði mjög vel um okkur og fólki fyndist við mjög hugrökk að ráðast í að laga þetta hús sem við keyptum. Það er nú ágætt ef fólk getur séð eitthvað jákvætt við þetta bardús hjá okkur. Það eru mjög mörg illa farin hús í götunni sem við búum við. Hús sem eru á nauðungaruppboðum og rotna bara niður.
Jæja látum þetta nægja í bili
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.5.2010 | 15:55
Óskum eftir vorveðri
Kæru bloggvinir
eins og fyrirsögnin gefur til kynna erum við orðin ansi langeygð eftir að fá vor hér i Danaveldi. Það hefur verið frekar kalt hér undanfarið og frost á nóttinni. Maður hefur þurft að skafa bílrúður hér á morgnana. Það er nú ekki alveg eðlilegt á þessum árstíma. Kannski eldgosið á Íslandi sé eitthvað að rugla veðrið í ríminu.
Bóndinn er búinn að hreinsa upp öll trén sem hann felldi hér í bakgarðinum og það er þvílíkur munur að sjá blettinn. Sonur hjónanna sem bjuggu hérna kom við hér í gær og fékk næstum áfall. Enda enginn smá munur. Þetta hafa örugglega verið 30 tré sem við felldum og öll mjög stór og gömul. En það var engin prýði af þessu, svo þá er ekkert annað að gera en að fella þetta. Við erum mjög köld í því. Við myndum svo gjarnan vilja klippa niður hekkið á milli okkar og nágrannans, en hún vill ekki heyra á það minnst. Það er svo gisið að það þyrfti að klippa það vel niður til að fá það til að þétta sig. En við verðum að bíða þar til hún hrekkur upp af eða selur. Enda höfum við svo sem nóg að gera innandyra, það er ekki það. Við erum búin að plana að klára þetta smotterí sem hefur setið á hakanum lengi. Það verður að gera bara smá og smá í einu. Karlinn þolir engin stórverkefni. Hann er annars byrjaður í líkamsrækt og hefur allavega ekki versnað við það, svo það er vonandi að það hjálpi eitthvað. Það getur allavega ekki versnað mikið. Það er líka fínt fyrir hann að nota morgunpásurnar í eitthvað svona. Þá þarf hann ekki að hanga og bíða eftir að fara að keyra aftur.
Ungfrúin er eitthvað að sættast við dagmömmuna. Hún er allavega farin að háma í sig rúgbrauð hjá henni og það vill hún nú yfirleitt alls ekki borða hérna heima. Hún hefur nú eitthvað verið að mótmæla hérna heima í vikunni. Verður leið ef við erum ekki í kringum hana og hefur verið hálf mömmusjúk. En það er nú sennilega ekki við öðru að búast. Það sjást ennþá engar tennur, en hún slefar eins og brjálæðingur, svo þetta hlýtur nú að fara að koma. Hún hefur verið mjög erfið að sofna á kvöldin. Vaknar oft 3-4 sinnum fyrir miðnætti, en sefur nú yfirleitt eftir það. Svo er alveg týpískt að á virkum dögum er hún voða þreytt á morgnana en um helgar vaknar hún eldsnemma og er ekkert þreytt! Frúin er búin að setja plötu fyrir stigann svo hún komist ekki upp, en þá er mesta skemmtunin að gaufast í skónum. Hún finnur sér alltaf eitthvað að gera þessi elska.
Næsta vika er svo algjör lúksus. Það eru bara 3 vinnudagar. Uppstigningardagur er á fimmtudaginn og margir taka frí á föstudaginn. Dagmamman er með lokað svo frúin tók sér frí og svo kom í ljós að bóndinn var líka með frí, svo við fáum 4 daga helgi. Ekki amalegt það og svo er hvítasunnan helgina eftir. Hins vegar eru víst engir auka frídagar í júní. En þá er stutt í sumarfrí svo maður hlýtur nú að þola það.
Það eru komnar nýjar myndir, af ungfrúnni og svo smá af garðaframkvæmdum.
Bestu kveðjur
Ragga, Gummi og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.5.2010 | 13:15
Hitt og þetta
Kæru bloggvinir
þá er sólin farin að skína á okkur hérna í Tiset. Það hefur annars verið frekar óspennandi veður í þessa þrjá frídaga sem við höfum haft núna. Karlinn dreif sig í að slá garðinn hérna á bak við. Hann þoldi ekki að horfa á þetta lengur. Enda er þetta allt annað líf núna. Við fórum í gær að kaupa sandkassa og rólur. Bóndinn er búinn að ákveða að setja þetta á bak við hús í sumar og leyfa blettinum hér fyrir framan að jafna sig. Það er ekki búið að klára hann og við höfum ekkert heyrt frá manninum sem ætlaði að gera þetta. En hann hlýtur að láta sjá sig. Allavega ef hann vill fá borgað.
Ungfrúin er nú ennþá eitthvað ósátt við að borða hjá dagmömmunni en allt annað gengur betur. Hún er hætt að elta hana út um allt. Svo það hlýtur að vera merki um að þetta gangi betur. Við erum að velta fyrir okkur hvort hún sé loksins að fara að fá tennur í efri góm. Hún slefar einhver ósköp núna og er frekar óhress. En við höfum nú haldið að þær væru á leiðinni í marga mánuði svo við bíðum bara og sjáum hvað setur. Hún blaðrar ógurlega mikið hérna heima og er alveg á útopnu. Mauðr skilur ekki alltaf hvaðan barnið hefur alla þessa orku.
Í gær fórum við í ungbarnasund. Það er svo komið í sumarfrí. Og byrjar ekki aftur fyrr en í september. En við verðum að reyna að fara með hana í sund þangað til, svona til að halda þessu við. Hún er orðin algjör vatnahundur. Við ætlum líka að kaupa litla sundlaug til að hafa hérna úti í garði.
Við erum búin að auglýsa sófann okkar, og hitt og þetta smálegt á netinu. Við erum búin að selja hátalara, en ekki það sem tekur mest pláss, sjónvarpið og sófann. En við vonum að einhver falli fyrir þessu og vilji kaupa. Sérstaklega sófann af því við urðum að koma honum í geymslu. Svo ef við getum ekki selt hann, þá erum við í hálfgerðum vandræðum.
Bóndinn ætlar að reyna að henda inn myndum og videoi af dömunni í dag eða í vikunni.
Kveðja
Ragga, Gummi og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.4.2010 | 13:22
Hósti og hor
Kæru bloggvinir
hér eru allir með hor og hósta. Ekki beint skemmtilegt. En sennilega hefur Auður Elín smitað okkur með einhverjum bakteríum frá dagmömmunni. Hún varð allavega kvefuð fyrst. Við verðum annars mjög sjaldan kvefuð, því við tökum alltaf lýsi. En kvenfólkið er nú eitthvað að skríða saman meðan húsbóndinn er eitthvað slappari. Hér var rosa gott veður í gær, sól og hiti. Í dag er líka mjög hlýtt, en eitthvað mistur, kannski öskuryk frá Íslandi. Það er nú gott að heyra að þetta sé eitthvað orðið minna. Hér er ekkert talað um þetta lengur, enda eru þeir farnir að fljúga aftur, svo þá eru þeir nú bara sáttir.
Við tókum helling af greinum úr bakgarðinum í gær og keyrðum á haugana. Það er nú samt hellingur eftir. Það þarf að saga þetta allt í sundur til að koma þessu á kerruna. Greinarnar eru svo kræklóttar að þær taka alveg ótrúlega mikið pláss. En þetta verður allavega mjög fínt þegar við erum búin að koma þessu í burtu. Ekki verður þetta verra þegar við verðum búin að slétta garðinn og losna við allar þessar rætur. Það væri nú gaman að geta hent niður kartöflum í vor. En við sjáum til hvað verður. Fyrst er að klára þetta verkefni. Karlinn djöflast í þessu þótt hann ætti náttúrlega alls ekki að gera það. En það er ekkert hægt að stjórna honum, svo hann verður að læra að finna út hvað hann getur mikið. Garðafyrirtækið sem er að laga garðinn hérna fyrir framan er búið að fræsa þetta allt upp og jafna til. Þetta lítur strax betur út, þó það eigi eftir að fínpússa þetta. Ætli þeir komi ekki á morgun. Það verður æðislegt að geta setið þarna úti í sumar. Við ætlum svo að fjárfesta í rólu og sandkassa, svo það sé eitthvað skemmtilegt að gera fyrir Auði. Hún var annars með okkur út í garði í gær. Bara að skríða í grasinu. Henni fannst þetta nú eitthvað skrýtið og erfitt að athafna sig í öllum þessum fötum. Hundurinn hérna á bak við okkur var skíthræddur.
Henni gengur nú eitthvað betur hjá dagmömmunni. Er farin að borða eitthvað og getur haft ofan af fyrir sér í smástund. En hún er voða lítil í sér og drífur sig á eftir dagmömmunni ef hún fer að skipta á hinum börnunum. En hún er allavega orðin rólegri hérna heima. Er orðin miklu betri að sitja og leika sér. Hún hefur ekki haft neina eirð í sér til þess hingað til. Það er náttúrlega bara gott. Hún er nú samt ennþá mjög spennt fyrir tröppunum upp á loft og er fljót að koma sér fram á gang ef hún sér sér færi á því. Hún er líka farin að blaðra mikið meira eftir hún kom til dagmömmunnar. Er sennilega að segja rosa miklar sögur, við skiljum bara ekkert hvað hún er að tala um. Við höfum alveg gleymt að taka myndir, en sjáum til hvort það verður úr því núna seinnipartinn.
Næsta föstudag er svo frídagur hér í Danaveldi. Svokallaður bænadagur. Ekki er nú líklegt að margir noti daginn til bæna, en við erum voða sátt við að fá extra frídag. Manni finnst hver mínúta sem maður hefur með fjölskyldunni vera orðin mjög dýrmæt, eftir maður fór að vinna aftur.
Jæja látum þetta nægja að sinni
Bestu kveðjur
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.4.2010 | 12:27
Auður Elín 10 mánaða
Kæru bloggvinir
Héðan er allt fínt að frétta. Við fylgjumst með fréttum af eldgosinu á netinu og líst nú ekkert á þetta. Það er voða lítið fjallað um þetta í dönskum fjölmiðlum. Bara talað við fólk sem getur ekki flogið. Auðvitað er það voða leiðilegt. En sumir hérna láta nú eins og þetta sé okkur Íslendingum að kenna. Það er nú hægt að kenna okkur um margt, en ekki þetta. Það virðist lítið vera spáð í hvað þetta hefur mikil áhrif á gróður og skepnur. En við vonum nú að þetta fari eitthvað að réna. Áður en meiri skaði hlýst af.
Ungfrúin byrjaði hjá dagmömmunni á mánudaginn, var bara stutt fyrst og hefur svo verið allan daginn. Hún er nú ekkert mjög upprifin yfir þessu, en dagmamman segir hún sé voða góð. Neitar hins vegar að borða hjá henni. En það hlýtur nú að koma. Það er stelpa hjá dagmömmunni sem er mánuði eldri en Auður og hefur ekki verið þarna svo lengi. Hún er voða afbrýðisöm og þær hanga á sitt hvorri buxnaskálminni. En á föstudaginn var þessi stelpa ekki og þá virtist Auður sætta sig betur við þetta. En dagmamman er nú sannfærð um að þetta komi allt, svo við vonum það besta. Mömmunni finnst þetta nú alls ekkert skemmtilegt en við því er víst lítið að gera. Við föttuðum í morgun að ungfrúin er 10 mánaða í dag. Vorum eitthvað sein að fatta hvaða mánaðardagur er. Hún fór allt í einu að skríða á fjórum fótum í vikunni. Hefur annars bara dregið sig áfram á maganum. Henni finnst líka voða fyndið að horfa á allt á hvolfi.
Það er nú eitthvað að lifna yfir hlutunum í vinnunni hjá frúnni. Hún er ráðin inn í svona verkefni, þar voru tveir sálfræðingar fyrir. Annar þeirra hættir núna á morgun og hinn hættir 1. maí. Sú verður reyndar áfram í húsinu. En svolítið fyndið samt. Það þarf því að ráða tvo nýja sálfræðinga fljótlega. Það er nú ágætt að annar sálfræðingurinn verður áfram í húsinu, svo hægt sé að spyrja hana ráða. Forstöðumaðurinn er nefnilega líka að hætta, svo það væri nú ekki mjög gott ef allir væru farnir og frúin stæði ein með þetta allt saman.
Í gær fékk bóndinn einn vinnufélaga sinn til að hjálpa til við að fella trén hér bak við hús. Hann sagaði líka helling af trjám nágrannans sem héngu yfir í okkar garð. Nágranninn var búinn að gefa leyfi. Vonandi að hún sé ekki búin að gleyma því og fái alveg áfall þegar hún sér hvað þeir hafa gert. Nú er bara eftir að fá lánaðan vagn og traktor til að keyra þetta í burtu. Félagi bóndans ætlar svo að hjálpa okkur í haust að jafna lóðina og við ætlum svo bara að sá grasfræi. Það er nú líka á áætlun að reyna að gera smá kartöflugarð. Þeir eyðilögðu snúrurnar fyrir frúnni. Henni fannst það nú heldur súrt. Það er rosa munur að geta hent þvottinum út. En staurarnir voru orðnir alveg morknir svo þetta var nú víst bara spurning um tíma hvenær þeir gæfust upp.
Við fórum í ungbarnasund í morgun. Það er venjulega á laugardögum, en í dag voru nýjir stjórnendur. Þetta voru konur sem eru að læra að kenna ungbarnasund, svo það var mjög fínt. Við lærðum fullt af nýjum æfingum og þetta var voða gaman.
Bóndinn er svo að fara aftur á fótbolta á efitir. Þetta er að verða voða spennandi. Veðrið er líka rosa gott svo það ætti ekki að væsa um hann.
Það verða sennilega teknar myndir af ungfrúnni í vikunni. Það hefur bara alveg gleymst.
Kær kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)