Færsluflokkur: Bloggar
11.4.2010 | 11:43
Nýjir tímar
Kæru bloggvinir
Þá er enn einu sinni runninn upp sunnudagur. Hér í Danaveldi er vorið eitthvað að rembast við að koma. Það var rosalega fínt veður í gær og líka í dag. Bara skýjað í dag. Við drifum okkur í að grilla í gær. Við höfum ekkert grillað síðan síðasta haust. Dönunum finnst við örugglega biluð, því þeir grilla bara á sumrin. En þeir vita bara ekkert af hverju þeir eru að missa.
Hér hefur nú ýmislegt nýtt gerst í vikunni. Ungfrúin flutti í herbergið sitt á mánudaginn. Það vantar bara smá myndir á veggina og aðrar gardínur, og þá er þetta orðið fínt. Hún hefur í langan tíma alltaf vaknað minnst einu sinni á nóttinni og verið ægilegt brölt á henni. Hún hefur ekkert verið að væla, bara týnt snuddunni en hefur sofnað um leið og hún hefur fengið snuðið aftur. En síðan hún flutti í nýja herbergið sefur hún alla nóttina og sefur meira að segja lengi á morgnana. Áður vaknaði hún oft kl. 5 nú sefur hún til 6 eða 7. Hún hefur sennilega bara verið orðin þreytt á að hlusta á hrotunar í foreldrum sínum. Enda hefðum við nú verið búin að flytja hana út úr svefnherberginu ef það hefði verið tilbúið. Hún er rosa dugleg að æfa sig að labba og labbar nú meðfram stofuborðinu án vandræða. Við verðum að fara að taka video af þessu. Bóndinn er búinn að koma stóru tölvunni í gang og búinn að setja fullt af nýjum videomyndum inn á youtube.com. Bara slá inn gje1965 í leitargluggann og þá ætti þetta að koma. Það er rosalega fyndið að sjá hvað hún breytist hratt núna. Það verður rosa gaman að eiga þetta þegur hún verður eldri. Við skelltum okkur í smá hjólatúr á mánudaginn. Það var nú ansi kalt, og hjólin þurfa víst að fara í smá aðhlynningu. En við verðum að reyna að vera dugleg að hjóla þegar það fer að hlýna meira. Ungfrúin var svo heima með pabba sínum á fimmtudag og föstudag. Þegar móðirin kom heim á fimmtudaginn þá vildi sú stutta alls ekki sleppa henni. Fannst þetta náttúrlega ekki ná nokkurri átt að kellan léti sig bara hverfa í marga klukkutíma. En þau feðginin höfðu það nú mjög fínt. Bara viðbrigði ekki að sjá mömmu sína svona lengi.
Það gekk bara vel í vinnunni. Það er auðvitað alltaf erfitt að byrja á nýjum stað og oftast hefur enginn tíma til að setja mann inn í hlutina, svo maður finnur bara út úr þessu sjálfur. Þetta verður nú sem betur fer frekar rólegt til að byrja með, enda tekur tíma að koma heilanum í form eftir svona langan tíma heima. Frúin er farin að hafa verulegt samviskubit yfir að senda barnið til dagmömmu. Finnst hún alls ekki standa sig. Það væri náttúrlega frábært að geta unnið eitthvað minna en 37 tíma á viku. En það er ekki í boði. Svo hún verður að læra þetta eins og svo mörg önnur börn. Hún hefur auðvitað líka mjög gott af því að vera með öðrum börnum. Frúnni finnst verst að hugsa til þess að skila henni af sér á morgnana ef hún verður eitthvað ósátt við það. En við vonum bara það besta.
Karlinn er orðin alveg fótboltaóður og er farinn á fótboltaleik. Það eru margir leikir núna af því leiktímabilið er að klárast og þeir halda svo frí á sumrin.
Við erum búin að panta mann til að koma og laga blettinn hérna fyrir framan hús. Þetta lítur svo hræðilega út og ekkert hægt að nota blettinn. Og við eigum engin tæki til að vinna þetta. Við ætlum bara að láta hann sá grasfræi og vona að vorið verði ekki mjög þurrt. Þá ætti að vera hægt að sitja hérna úti í sólinni. Ef við fáum eitthvað svoleiðis í sumar. Okkur finnst við nú alveg eiga það skilið eftir veturinn.
Jæja ætli við látum þetta ekki nægja í bili
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2010 | 11:31
Gleðilega páska
Kæru bloggvinir
Gleðilega páska. Við vonum að þið hafið átt góða páska og borðað mikið af góðum mat og ekki má gleyma páskaeggjum. Hér hefur verið skítaveður síðustu daga. Rok og rigning og skítakuldi. Við vorum búin að plana að fara út að hjóla, búið að kaupa hjólahjálma á alla fjölskylduna. En það hefur bara ekki verið spennandi útiveður. Það gæti verið að við komumst út á morgun. Við verðum nú að viðra hjálmana og hjólin. Ef þau virka ennþá eftir að hafa staðið úti í bílskýli í vetur. Við keyptum barnastól sem Auður Elín getur setið í, aftan á öðruhvoru hjólinu. Það verður gaman að sjá hvernig henni finnst það.
Annars hefur vikan farið í að kaupa ýmsar nauðsynjavörur fyrir ungfrúnna, áður en hún fer til dagmömmunnar. Hún fékk nýja útiskó. Fyrstu svona alvöru skóna. Henni finnst nú voða skrýtið að vera í þeim. Þeir eru miklu þyngri og stífari en inniskórnir hennar. Hún lyftir löppunum voða hátt þegar hún er í þeim. Hún er eiginlega eins og hestur með hófhlífar. Það var svo líka keyptur regngalli, ekki veitir af. Það er ekki víst að það verði bara sól í sumar. Okkur finnst við nú samt alveg eiga skilið að fá gott sumar eftir þennan óvenju harða vetur.
Ungfrúin er annars dugleg þessa dagana að æfa sig að labba meðfram borðum og stólum. Þetta er nú eitthvað að vefjast fyrir henni ennþá, en hún tekur miklum framförum. Hún er ótrúlega sterk í höndunum og hífir sig upp við sófaborðið. Hún er orðin duglegri við að borða, en vill ennþá ekki sjá að borða brauð. Við verðum bara að vona að hún læri það hjá dagmömmunni. En ef henni er boðinn kjúklingur, þá er hún alveg í skýjunum. Þá veinar hún bara ef þetta gengur ekki nógu hratt. Eins gott að kjúllinn er svona ódýr hér í Danmörku að við borðum hann minnst einu sinni í viku.
Bóndinn fór til hnykkjarans á mánudaginn. Hann hafði nú ekki neitt sérstaklega spennandi fréttir. Hann tók nýjar röntgenmyndir og það kom í ljós að hryggjaliðirnir og brjóskið, frá miðju baki og upp í hnakka, eru alveg slitin upp. Hann hélt að hann væri kannski fæddur með einhvern veikleika í hryggnum sem svo hefði smá versnað, og kannski hefur útafaksturinn í vetur gert útslagið. En það er allavega mjög lítið hægt að gera. Hann ætlar eitthvað að reyna að nudda hann og hnykkja en þetta snýst mest um að hlífa bakinu og styrkja aðra vöðva. Þetta þýðir auðvitað að restin af húsinu verður ekki löguð í bráð. Bóndinn ákvað nú samt að láta ekki deigann síga og er búinn að klára barnaherbergið. Steypti gólfið einn daginn og lagði svo parketið í dag. Frúin er alveg í skýjunum. Alveg æðislegt að klára þetta. Nú er bara eitthvað smotterí eftir og svo að flytja inn. Við reynum að gera það á morgun. Meiningin er að ungfrúin fari að sofa þarna inni. Það verður spennandi að sjá hvernig það fer.
Bóndinn fékk svo hjálp frá formanninum í íþróttafélaginu til að skipta um púströrið undir bílnum. Það er ekkert smá fyndið að keyra bílinn núna. Hann er búinn að vera púströrslaus í tæpt ár. Það verður munur fyrir frúnna að keyra í vinnuna án þess að vera með heyrnaskjól. Það er ótrúlegt að maður sé búinn að vera heimavinnandi í næstum heilt ár. Tíminn bara flýgur áfram. Það verður spennandi að byrja að vinna aftur en líka erfitt. Alltaf erfitt að byrja á nýjum stað. Nú hefur maður heldur ekki bara sjálfan sig að hugsa um. Nú þarf maður líka að hafa áhyggjur af því hvernig Auði Elínu gangi að aðlagast dagmömmunni. En við vonum bara það besta. Frúin byrjar að vinna á fimmtudaginn og Auður Elín byrjar í aðlögun á mánudaginn. Dagmamman er í fríi næstu vikuna.
Eins og sjá má er búið að vera nóg að gera. Við ætlum því bara að taka því rólega og njóta síðustu daganna í páskafríinu. Karlinum veitir allavega ekki af að hvíla sig eftir þessi átök.
Páskakveðja
Tisetfjölskyldan
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.3.2010 | 12:38
Nýjar myndir
Kæru bloggvinir
þá eru komnar nýjar myndir af prinsessunni. Albúmið heitir Auður Elín 9 mánaða.
kveðja
Auður Elín og family
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2010 | 12:36
Nýjar myndir
Kæru bloggvinir
þá er búið að setja inn nýjar myndir af ungfrúnni. Albúmið heitir Auður Elín 9 mánaða.
kveðja
Auður Elín og family
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2010 | 11:26
Sófaævintýrið
Kæru bloggvinir
Hér er eitthvað aðeins farið að vora. Það er allavega farið að sjást fólk útivið og er það venjulega til marks um að vorið sé að koma. Það er eins og fólk leggist í dvala hér á veturna.
Við höfum staðið í heilmiklu ævintýri þessa vikuna. Þannig var að við eigum tvo risavaxna sófa. Og þeir eru eiginlega allt of stórir inn í þetta hús. Þar fyrir utan þá stóð minni sófinn fyrir framan ofninn í stofunni og teppaði allan hitann. Við vorum því búin að vera að leita okkur að hægindastólum í staðinn. Þeir fundust loks í vikunni. Einhver frúin var að skipta um húsgögn og vildi losna við hægindastólana fyrir lítinn pening. Karlinn hennar var nú ekki hrifinn, en við vorum voða feginn. Þeir eru meira segja næstum í sama lit og sófarnir okkar. Þetta var nú allt saman mjög fínt. En þegar átti að fara að koma sófanum upp á loft, vandaðist málið. Hann komst alls ekki þangað með góðu móti. Við urðum því annaðhvort að skrúfa hann í sundur eða finna geymslu fyrir hann. Það var svo farið í að leita að geymslu og með hjálp formannsins í íþróttafélaginu fannst hún í gær. Hann kom meira að segja og hjálpaði bóndanum að koma sófanum þangað. Ekki dónaleg þjónusta. Hann ætlar líka að hjálpa bóndanum að skipta um púströr á bílnum. Það kom gat á það síðasta vor, og hefur svo verið að smá versna. Við tímum ekkert að nota mikinn pening í þennan bíl, því honum verður örugglega hent fyrir næstu skoðun. Það er allt of dýrt að gera hann kláran fyrir skoðun. Formaðurinn í íþróttafélaginu, sem heitir Lars, er voða nákvæmur maður og finnst við ábyggilega óttalegir slóðar. Hann benti bóndanum á það í gær að maður gæti fengið sekt fyrir að keyra með ónýtt púströr. Við höfðum nú ekki látið okkur detta það í hug. Svo það er eins gott að þekkja fólk sem þekkir reglurnar hér í Danaveldi.
Bóndinn er svo að fara á sinn fyrsta alvöru fótboltaleik á eftir. Hann er að fara með einhverjum körlum úr vinnunni. Hann er auðvitað voða spenntur fyrir því. Hann er að vinna núna næstu 3 daga. En keyrir eitthvað minna af því margir krakkar eru farnir í páskafrí. Ef heilsan leyfir verður sennilega reynt að vinna í barnaherberginu í páskafríinu. Frúin er orðin verulega þreytt á að geta ekki notað það. En það verður víst bara að anda rólega og slaka á!
Auður Elín er alveg á útopnu þessa dagana. Hún vill helst bara standa upprétt, en getur ekki fært sig úr stað. Það pirrar hana ógurlega, hún hefur heldur ekki fattað hvernig hún sest niður, svo þegar hún er þreytt á að standa, þá vælir hún bara. Hún verður örugglega efnileg í byggingarvinnu þegar hún verður eldri. Hún er allavega farin að rífa dyrakarma úr veggjunum og rífa niður veggfóður.
Við ákváðum að ráðast í að framkalla eitthvað að digital myndunum okkar. Það hefur aldrei orðið úr því, okkur hefur fundist það svo dýrt og svo hefur þetta bara gleymst. Við erum svo loksins búin að finna stað sem framkallar ódýrt, og erum núna að fara í gegnum allar myndirnar. Það þarf að velja minnst 1000 myndir, og við erum langt komin. Hér eftir verður þetta svo gert jafnóðum. Allavega ef frúin fær einhverju ráðið. Það er búið að taka myndir af ungfrúnni, þarf bara að henda þeim hér inn á síðuna.
Jæja látum þetta gott heita í bili
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2010 | 16:02
Flatskjár
Kæru bloggvinir
Okkur þykja nú heldur slæmar fréttirnar af gosinu á Fimmvörðuhálsi. En vonum að það verði ekki meira úr þessu svo ekki hljótist mikill skaði af. Þetta er búið að vera hérna í dönsku fréttunum. En þykir nú örugglega ekki fréttnæmt nema af því það hefur þurft að rýma hús. Það eru nú mjög sjaldan fréttir hér frá Íslandi. Það þarf að vera ansi merkilegt til að þeir segi frá því hér. Annars hefur nú verið heldur rólegra hérna hjá okkur. Vorið lætur eitthvað standa á sér. Það er ekki orðið almennilega hlýtt ennþá, en þetta hlýtur nú að koma.
Bóndinn fór til hnykkjara á mánudaginn og henni leist ekkert á hann, svo hún ætlar að senda hann í röntgenmyndatöku aftur og svo fer hann aftur til hnykkjara eftir páska. Við vonum að það komi til með að hjálpa eitthvað. Ekkert vit í að hafa karlinn svona. Hann fékk margra ára draum uppfylltan í gær. Við keyptum nefnilega flatskjá. Þetta er nú búið að vera á óskalistanum í minnst 5 ár. En aldrei verið látið verða af því að kaupa slíkan grip. Við ákváðum svo bara að safna fyrir þessu og láta þetta eftir okkur. Það væri eflaust hægt að nota peningana í margt annað. En okkur fannst við alveg eiga þetta skilið. Gæðin í nýja tækinu eru voða góð og bóndinn auðvitað alveg í skýjunum. Þetta var svo sem ekki í frásögur færandi, nema við fórum niður á landamæri til að kaupa tækið. En svo þegar átti að koma því í bílinn og halda heim, þá komst tækið ekki í bílinn. Allavega ekki ef við Auður áttum að fara með líka. Við dóum nú ekki ráðalaus og hringdum í Steina vin okkar sem býr rétt hjá. Hann ætlaði svo að koma og lána okkur sinn bíl. En þegar til kom, fór bíllinn ekki gang og hann gat því lítið hjálpað. Það varð því að bruna heim, ca. 70 km, henda okkur stelpunum úr bílnum og bruna aftur til baka og ná í tækið. En bóndanum fannst þetta alveg þess virði af því tækið var svo mikið ódýrara í þessari búð en á öðrum stöðum. Svo nú er hann bara alsæll.
Ungfrúin hefur verið frekar óhress þessa vikuna. Eitthvað að angra hana. Við höllumst helst að því að það séu að koma fleiri tennur. En það er nú erfitt að spá um það. Hún er alveg orðin óð í að standa upp. Notar hvert tækifæri til að komast á lappir. Fann það út í vikunni að dótakassinn er alveg fyrirtaks stuðningur fyrir þessa iðju. Hún átti 9 mánaða afmæli á fimmtudaginn. Við höfum verið á svo miklu flakki undanfarið að við höfum ekki haft tíma til að taka myndir. En það verður bætt úr þessu mjög fljótlega. Hún er orðin voðalega dugleg að skríða og er alltaf að reyna að komast áfram á fjórum fótum. En það vantar nú eitthvað upp á tæknina ennþá.
Í dag var okkur svo boðið í hádegismat hjá fyrrverandi vinnufélaga Röggu. Það var voða notalegt.
Jæja ætli þetta sé ekki nóg í bili
Kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.3.2010 | 13:06
Vorið farið að nálgast
Kæru bloggvinir
þá höldum við jafnvel að vorið sé á leiðinni. Það hefur nú verið frekar leiðilegt veður siðustu viku, en allavega ekki snjór. Og ekki brunagaddur á nóttinni. Það eru farnar að kíkja upp páskaliljur í garðinum. Svo þetta hlýtur allt að vera að koma. Nágrannarnir eru líka farnir að rótast í garðinum, svo þetta hlýtur allt að benda til þess að við fáum vor fljótlega.
Við fórum að heimsækja væntanlega dagmömmu í vikunni. Okkur leist nú bara ágætlega á þetta. Hún er búin að vera dagmamma í tæp 25 ár, svo eitthvað hlýtur hún að vita um starfið. Það er stelpa hjá henni sem er mánuði eldri en Auður. Hún var nú frekar afbrýðisöm þegar Auður mætti á svæðið. En þær hljóta nú að finna út úr þessu. Gott að það er einhver á svipuðum aldri, svo hún sé ekki ein með mikið stærri börnum. Dóttirin hefur annars verið frekar slöpp undanfarna daga. Maginn eitthvað að stríða henni. Hún hefur því verið frekar óhress. En þetta er nú eitthvað að lagast. Hún fékk rosalegan bleiubruna. Aldrei fengið svoleiðis. En bóndinn dró gamalt húsráð fram úr erminni og setti kartöflumjöl á bossann og það gerir kraftaverk. Engin ástæða að vera að kaupa rándýr krem þegar maður hefur kartöflumjöl. Hún hefur líka verið voða þurr í kinnunum í kuldanum og hvað virkar best? Auðvitað bara gamla góða júgursmyrslið. Einhverjum þykir við eflaust hallærisleg, en við höldum nú að dóttirin taki ekki skaða af þessu.
Hún er annars farin að vinka í tíma og ótíma. Veit örugglega ekkert hvað það þýðir en finnst það mjög sniðugt. Sérstaklega að gera það fyrir framan spegilinn. Hún er greinilega eitthvað að uppgötva stelpuna í speglinum og finnst það mjög skemmtilegt. Hún æfir sig líka grimmt þessa dagana að skríða á fjórum fótum. En eitthvað vefst þetta nú fyrir henni ennþá. En æfingin skapar meistarann.
Í gær fengum við svo heimsókn af góðum vinum okkar. Þau komu færandi hendi með nánast nýja hrærivél og stól til að hafa á hjóli. Svo nú þarf bara að skaffa hjólahjálm fyrir bóndann og ungfrúnna og vonast eftir að það fari að hlýna meira. Þá getum við farið að hjóla. Vinir okkar þekkja mann sem hefur mikla söfnunaráráttu. En sem betur fer vill hann gjarnan losna við eitthvað af því. Svo þegar okkur vantar einhverja hluti, þá er bara að tala við vinina og sjá hvort þau geta skaffað þetta. Ekki dónaleg þjónusta. Hrærivélin var vígð í dag og það er komið rúgbrauð í ofninn. Það var ólíkt auðveldara að hræra deigið í vél en í höndunum. Svo fylgir henni líka hakkavél, svo næsta sláturgerð ætti að vera auðveldari. Við höfum notast við handsnúna hakkavél til að hakka innmatinn, og það reynir töluvert á hendurnar.
Eftir að snjórinn fór er allt hryllilega blautt og garðurinn frekar óárennilegur. Hann leit mun betur út þegar það var snjór yfir. En það er samt betra að vera laus við snjóinn. Maður reynir bara að loka augunum þegar maður lítur út um eldhúsgluggann.
Bóndinn er að æfa sig að ganga með gleraugu. Hann er fjarsýnn á öðru auganu og nærsýnn á hinu. Þetta hlýtur að vera eitthvað sem kemur með aldrinum. Honum fannst þetta nú frekar pínlegt að þurfa að fara að ganga með gleraugu. En hann hlýtur nú að venjast þessu.
Annars eru allar framkvæmdir í húsinu á pásu. Karlinn er alltaf að farast í bakinu. Það versnaði svo mikið þegar hann keyrði út af í vetur að hann rétt hefur það af að mæta í vinnuna, en ekkert meira. Hann er að fara til hnykkjara á morgun og við vonum að það hjálpi nú eitthvað. Hann sefur ekki orðið á nóttinni út af þessu.
Jæja látum þetta duga í bili
kveðja frá Tiset
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.3.2010 | 12:17
Snjór, meiri snjór
Kæru bloggvinir
þá er aftur kominn snjór. Það snjóaði á föstudaginn, ekkert mikið en samt 15-20 cm. Það hefur annars verið mjög fallegt veður undanfarið og við hjónaleysin höfum verið nokkuð dugleg að fara út að labba. Það eru nú ekki margar gönguleiðir í bænum, svo þetta er nú frekar tilbreytingarlaust. En gott að komast út og fá ferskt loft. Í einum af þessum túrum í vikunni gengum við framhjá húsi sálfræðingsins. Hann kom út og bauð okkur innfyrir að skoða sálfræðistofuna sína. Hann var ægilega stoltur af þessu og talaði um þetta eins og þetta væri eitthvað ægilega mikið notað. En við getum nú ekki ímyndað okkur að hann hafi marga viðskiptavini. Þeir sem hafa komið einu sinni koma allavega örugglega ekki aftur. Nema þeir séu alveg kexruglaðir. En maðurinn er alltaf mjög almennilegur, svo það er ekkert upp á hann að klaga. Í sömu gönguferð fórum við og keyptum egg hérna mitt í Tiset. Við höfum ekki prófað það áður, en þetta voru bara fínustu egg. Það er mjög algengt að fólk sé að selja egg, en meira samt á sveitabæjum. Konan sem seldi okkur þessi egg var svo gömul og rýr að hún var alveg að falla saman.
Annars hefur nú ekki gerst margt spennandi hér í Tiset síðustu vikuna. Fastir liðir eins og venjulega. Ungfrúin á bænum heldur áfram uppteknum hætti og ferðast um allt hús og rífur og tætir. Hún er búin að klemma sig nokkrum sinni á skúffum og hurðum. Já og skoða kattamatinn og kattaklósettið. En það er nú víst eitthvað sem erfitt er að koma í veg fyrir. Hún hefur verið voða dugleg að borða graut. En þessa vikuna hefur hún harðneitað að borða slíkt, nema kannski smá hafragraut á morgnana. Hún bítur vörunum saman og þykist ekkert vilja. En hún hefur drukkið vel af pelanum, svo þetta er nú sennilega bara einhver sjálfstæðisbarátta. Henni finnst rosalega spennandi að smakka allt sem við erum að borða. Hún er aðeins byrjuð að borða brauð. Því miður ekki rúgbrauð. Hún ælir bara ef hún fær það. En við vonum bara að þetta komi allt með kalda vatninu. Við foreldrarnir þurfum sennilega bara að vera pínu þolinmóð. Það er nú einmitt okkar sterkasta hlið. :)
Frúin fór í mæðrahóp í vikunni. Það var mjög fínt. Annar strákurinn í hópnum er byrjaður hjá dagmömmu. Hann er um 7 mánaða. Það gengur víst voða vel. Það er algengt viðhorf hér í sveitinni að það sé mikið auðveldara að venja börnin á dagmömmu þegar þau eru svona lítil, og þess vegna sé þetta mjög hollt fyrir þau. Frúnni er nú farið að kvíða fyrir að þurfa að skilja prinsessuna eftir á hverjum degi hjá einhverri ókunnugri kerlingu og hefði alls ekki getað hugsað sér að gera það fyrr en núna. Finnst það meira segja of snemmt. En það er ekki svo mikið um að velja ef maður vill fá einhverja vinnu. Störfin vaxa ekki á trjánum eins og er. Auður Elín byrjar sennilega hjá dagmömmunni fljótlega eftir páska. En við förum að heimsækja hana núna á þriðjudaginn, og þá kemur þetta allt í ljós. Ef við þekkjum ungfrúnna rétt þá tekur hún þessu nú sennilega með stóískri ró. Það verður sennilega frekar mamman sem æsir sig eitthvað yfir þessu.
Jæja þá eru fréttabrunnarnir víst alveg orðnir uppþornaðir
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.2.2010 | 12:23
Hláka
Kæru bloggvinir
hér hefur verið hláka mest alla síðustu viku og snjórinn hefur minnkað mikið. Það er voða munur að geta verið lopapeysulaus og ullarsokkalaus innandyra. Þeir eru nú eitthvað að tala um að það kólni aftur í vikunni og snjói meira. En við sjáum hvað setur. Við höfum nú heyrt að það hafi snjóað á Íslandi, og erum ekkert öfundsjúk. Erum alveg búin að fá nóg af snjó og kulda. Eini kosturinn við snjóinn er að það er ekki eins dimmt og garðurinn lítur mun betur út þakinn snjó. Við höfum verið að gefa fuglunum hér í garðinum. Það er mjög gaman að fylgjast með þegar þeir eru að borða. Sem betur fer er kötturinn svo vitlaus að hún getur með engu móti veitt fugla.
Auður Elín hefur tekið miklum framförum í að skríða. Hún er farin að nota fæturna meira til að ýta sér áfram, svo þetta gengur nú hraðar. Sérstaklega þegar hún er að reyna að ná í köttinn. Kötturinn er svo vitlaus að hún sest beint fyrir framan Auði, sem þýðir að Auður rífur hressilega í hana. En köttuinn bara stendur og bíður eftir að við björgum henni. Auður Elín er líka alveg brjáluð í rafmagnssnúrur og tölvuna. Það fer gríðarlega í taugarnar á henni að hún getur ekki reist sig upp eða staðið upp. En hún verður nú bara að vera þolinmóð. Móðirin er nú eiginlega bara fegin að hún kemst ekki meira um ennþá. Hún hefur nóg að gera að hlaupa á eftir henni. Hún er aðeins að byrja að opna skúffur, og þykir það gríðarlega spennandi. Hún hefur verið eitthvað erfið að drekka pela í vikunni. En við erum að reyna að auka við hana matinn, og minnka pelann. Hún er ennþá voða léleg að borða rúgbrauð, en smakkar allt annað sem er stungið upp í hana. Svo við vonum að hún verði ekki mjög matvönd! :) Við fórum með hana til læknis í vikunni og hún er með helling af eyrnamerg innst í eyranu og með sýkingu í augunum. Hún fékk því bæði nefdropa og augndropa með heim. Hún hefur lagast í augunum en ekki af kvefinu, svo það verður að tala aftur við lækninn. Hún hefur verið voða dugleg að taka lyfin. Nýjasta sportið er annars að skríða upp á hilluna undir sófaborðinu og vesenast eitthvað þar.
Annars hefur vikan nú verið heldur viðburðalítil. Frúin er ekki ennþá búin að kaupa gardínuefni og bóndinn ekki búinn að hengja upp stangirnar, svo það eru ekki komnar neinar gardínur upp ennþá. Dagurinn í dag hefur verið notaður til að baka bæði rúgbrauð og pylsuhorn. Við erum orðin svo miklar húsmæður. Við gæddum okkur líka á heimasöltuðu lambakjöti og baunasúpu í vikunni og það var ekkert smá gott. Það er orðið ansi langt síðan við höfum saltað kjöt.
Jæja látum þetta gott heita í bili
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2010 | 15:09
Brakandi blíða
Kæru bloggvinir
hér hefur verið brakandi blíða í dag, sól og fallegt veður. Það hefur reyndar verið frekar kalt, en allt verður betra þegar sólin skín. Það hefur verið heldur hlýrra hér síðustu vikuna, en það á að kólna aftur í næstu viku og koma meiri snjór. Við drifum okkur út að labba í blíðunni.
Fríið hefur verið notað vel í hina ýmsu snúninga og smáverkefni. Við fórum í stærsta skemmtigarð í Danmörku á þriðjudaginn (IKEA) í Árósum. Þar var að vonum fullt út úr dyrum. Við hjónaleysin keyptum inn eins og enginn væri morgundagurinn. Fengum ljós á ganginn og ýmislegt fleira á góðu verði. Við keyptum líka gardínustangir í stofuna. Nú vantar bara að kaupa gardínuefni og hengja þetta upp. Það er alveg ótrúlega lítil festa í veggjunum í stofunni, svo það verður eitthvað skrautlegt að fá gardínustangirnar til að hanga uppi. Við fórum líka í Arababúðina og keyptum fullt af kjöti. Það er eini staðurinn sem við vitum um þar sem hægt er að fá lambakjöt á góðu verði. Svo nú erum við búin að fylla frystirinn og leggja lambakjöt í saltpækil. Við fórum svo loksins og skiptum viftunni í eldhúsinu. Það hefur verið á dagskrá lengi. En þessi sem við keyptum fyrst var alltaf eitthvað biluð. Við fengum aðra viftu í staðinn og borguðum bara lítið fyrir. Við vonum að þessu endist eitthvað betur. Nú er bara smá málningarvinna eftir á baðinu, þá fer þetta allt að smella saman.
Ungfrúin er farin að vera ansi ákveðin ef hún fær ekki það sem hún vill. Gaman að fylgjast með þessum tilþrifum hjá henni. Hjúkrunarkonan kom í vikunni og leist bara vel á hana eins og alltaf. Hún gerði heyrna- og sjónpróf á henni. Eitthvað sem þær gera við öll börn þegar þau eru 8 mánaða. Hún heyrði eitthvað verr á hægra eyranu svo hjúkrunarkonan vildi að við færum með hana til læknis til að athuga hvort hún væri með vökva í eyranu eða eitthvað í þá átt. Þetta var nú ekkert alvarlegt, en betra að láta tékka á þessu. Hún hefur verið kvefuð undanfarið, svo það gæti nú alveg verið að hún væri með eitthvað í eyrunum. Hún er farin að þekkja nafnið sitt, en gegnir nú ekki alltaf þegar kallað er á hana! Allavega ekki þegar hún er að gera eitthvað sem hún má ekki. Mesta sportið þessa dagana er að fá eplabát að naga. Hún gleymir að vísu að kyngja, svo hún safnar þessu bara upp í sig. Þar til við drögum þetta út úr henni. Við erum farin að reyna að gefa henni smá brauð líka, en hún kúgast nú bara á því.
Á föstudaginn fórum við til Ribe og hún fór í myndatöku. Það er samkeppni í ljósmyndabúðinni. Maður fær fría myndatöku og svo tekur hún þátt í keppni um fallegasta barnið í Ribe. Maður getur svo keypt myndirnar á góðu verði. Hún var með eldrauðar kinnar á myndunum. Hún fær oft mjög rauðar kinnar seinnipartinn, oft í tengslum við tannverki. En þetta gekk nú allt vel og við völdum mjög fína mynd af henni til að stækka.
Bóndinn ætlar að henda inn nokkrum myndum í dag
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)