Færsluflokkur: Bloggar
14.2.2010 | 16:14
Bolludagur í Danmörku
Kæru bloggvinir
hér er haldið upp á bolludaginn í dag. Svo við drifum okkur í að baka bollur í morgun. Það hefur nú aldrei heppnast að baka vatnsdeigsbollur, en þær heppnuðust svona ljómandi vel í morgun. Danir borða annars aðallega gerbollur með glassúr.
Hér er annars ennþá frost og kuldaboli. Þetta er orðið ansi þreytandi. Það hefur nú ekki bætt neitt í snjóinn en bara alltaf sami kuldinn. Og virðist ekkert vera lát á honum. Frúin þakkar allavega Guði fyrir að við fengum lopapeysur um jólin. Þær eru heldur betur búnar að koma sér vel. Frúin fór annars í atvinnuviðtal á föstudaginn og fékk vinnuna. Þetta er í svona svipuðu starfi og hún var í áður en hún fór í barneignarfrí, en bara á öðrum stað. Þetta er í Esbjerg, sem er ca. 40 mín akstur héðan. 10 mínútum lengra en til Haderslev þar sem hún var áður. Við erum búin að fá pláss fyrir Auði hjá dagmömmu frá 1. april. Ekki hérna í Tiset, því hún hefur ekkert laust pláss núna. Svo við þurfum að keyra hana hérna til Gram sem er ca. 3 km í burtu. Það væri auðvitað auðveldara ef hún kæmist að hérna í Tiset, bæði af því það er svo stutt í hana og af því hún þekkir hana. Það losna pláss hjá henni í haust, en þá er ekki víst hún fái nóg börn til að geta haldið áfram að starfa sem dagmamma. En við sjáum hvað setur. Ef Auði líkar vel við hina dagmömmuna, þá er þetta auðvitað ekkert mál. Það verður rosalega furðulegt að þurfa að fara að vinna aftur. Þegar maður byrjaði í barneignafríi fannst manni þetta vera alveg ótrúlega langur tími, en hann hefur bara flogið af stað og ungfrúin að verða 8 mánaða. Það verður nú samt fínt að komast í gang aftur, tekur bara smá tíma.
Það átti að reyna að koma brenniofninum í gang í vikunni, en ekki gekk það nú eftir bókinni, eitthvað vesen með rafmagnið. Gummi og vinnufélagi hans eru búnir að reyna að finna hvað er að, en ekkert hefur gengið. En sem betur fer getum við hitað húsið með gasinu. En það er bara alveg rosalega dýrt, svo við vonum að hitt komist í lag fljótlega.
Næstu viku er frí í skólunum í Danmörku og bóndinn tók sér líka frí. Það á nú eitthvað að reyna að ditta að hérna heima og útrétta hitt og þetta. Það er alveg ótrúlega margir snúningar hjá manni. Alltaf eitthvað sem þarf að hringja út af eða skjótast. Það liggur við að þetta sé full vinna stundum.
Í dag var svo bolludagshátíð í Tiset. Börn og fullorðnir máttu koma í grímubúningum og svo var kötturinn sleginn úr tunnunni. Þetta var nú frekar skrýtið og fullt af fólki þarna sem við þekktum ekki. En svo var svo kalt þarna inni að við fórum heim til kunningja okkar og borðuðum bollur og fengum kaffi.
Jæja látum þetta gott heita að sinni
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.2.2010 | 18:37
Fastir liðir eins og venjulega
Kæru bloggvinir
þá er víst enn og aftur kominn sunnudagur og vikan nú verið heldur viðburðalítil. Bara fastir liðir eins og venjulega. Hér er enn snjór og hálka. Þó orðið heldur hlýrra á daginn en hefur verið. En ennþá brunagaddur á nóttinni. Hér hefur verið mikið talað um að húseigendur eiga að halda gangstéttinni fyrir framan húsið sitt, hreinni. Við vissum þetta og höfum nú reynt að standa okkur í stykkinu. Enda eins gott, það var verið að tala um í fréttunum í vikunni, að aðalsportið þessa dagana er að hringja í lögregluna og klaga ef nágranninn hreinsar ekki stéttina. Þetta er nú svolítið týpískt fyrir Danina. Þeim finnst voða skemmtilegt að klaga. Og maður getur fengið sektir fyrir ótrúlegustu hluti. En við erum nú smám saman að læra á þetta. Reynum allavega að passa okkur.
Það var mæðrahópur hér á heimilinu á mánudaginn. Það var voða fínt. Það er voða gaman að sjá hvað börnin smám saman eru farin að pæla meira hvort í öðru og toga eitthvað í hvort annað. Það er auðvitað líka voða hollt fyrir bæði Auði og frúnna að hitta annað fólk. Auður Elín hefur annars verið eitthvað óþekk við að sofa á nóttinni undanfarið. Það er eitthvað að angra hana. Við erum farin að hallast að því að þetta séu kannski fleiri tennur. Hún er annars orðin duglegri að borða mat, finnst það voða mikið sport. En þetta kemur nú svona í bylgjum. Hún er líka farin að hreyfa sig um allt gólf. Hún hefur nú mest verið að brölta í kringum dótið sitt. En ákvað svo í vikunni að prófa að færa sig út í eldhús. Svo nú verður maður að fara að setja lása á skápana. Það er örugglega ekki langt í að hún fari að rífa og tæta í hurðarnar. Henni finnst allavega alveg óskaplega skemmtilegt að rífa og tæta. Ef mamma hennar er að byggja eitthvað úr kubbum eða púsla, þá finnst henni rosa sniðugt að tæta það í sundur.
Næsta verkefni á heimilinu er að fara og kaupa trépillur í brenniofninn. Það verður svo spennandi að sjá hvort þetta virki eftir allan þennan tíma.
Hér komu góðir gestir í dag, Steini og Sigrún, Rebekka og Karlotta. Það var auðvitað voða gaman eins og alltaf. Þau gripu með sér íslenska snúða. Það er bakarí mitt á milli okkar sem selur íslenska snúða. Sonur eigendanna er að vinna í bakaríi á Íslandi og sendi þeim víst uppskriftina. Þeir eru bara alveg eins góðir og á Íslandi. Hér var annars stóri bökunardagur í dag. Bökuðum bæði bollur og fyllt brauð. Já maður er bara alveg að farast úr myndarlegheitum. Við erum nú ekki ennþá búin að prófa að baka rúgbrauð úr pakka. Erum ennþá að borða hitt sem var bakað um daginn.
Bóndinn er ennþá að vesenast eitthvað í að reyna að setja video inn á youtube síðuna. Þetta er eitthvað erfið fæðing. Stóra tölvan okkar er nefnilega biluð og það er víst eitthvað erfitt að koma þessu inn í fartölvuna. Svo það er einhver bið á þessu.
Jæja þetta er nú víst það helsta héðan úr frostbælinu
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.1.2010 | 16:52
Til hamingju Ísland
Kæru bloggvinir
það má segja að maður sé bara hálfgáttaður á að Íslendingar hafi unnið bronsið í handboltanum. Maður þorir einhvern veginn aldrei að vona að þeir vinni leikina, af því maður hefur nú oft orðið skúffaður. En allavega frábær árangur. Vinnufélagar bóndans hættu alveg að tala um handbolta eftir að Danirnir duttu út. Ef hann reynir eitthvað að tala um það, þá fara þeir bara að tala um að það gangi nú ekki svo vel með fjármálin á Íslandi núna. Svo þetta er voða viðkvæmt mál.
Hér er ennþá hávetur. Það kom hláka einn dag í síðustu viku en hefur svo snjóað töluvert síðan, svo staðan er sú sama. Og það er von á meiri snjó í vikunni. Þeir eru eitthvað farnir að tala um að eftir ca. 14 daga gæti þetta eitthvað farið að breytast. Maður er allavega farin að verða hálfþunglyndur á þessu. Það hefur þó verið heldur hlýrra á daginn undanfarið, svo það er þó allavega bót í máli.
Við hjónaleysin skelltum okkur með íþróttafélaginu í keilu og út að borða í gærkvöldi. Ungfrúin fór í pössun. Hún grét eins og ljón þegar hún áttaði sig á því að hún átti að verða eftir, en jafnaði sig nú og stóð sig bara nokkuð vel. Það var voða fínt að komast aðeins að heiman. Hún hefur annars verið voða ljúf undanfarið. Er búin að átta sig á því að hún getur öskrað ansi hátt og finnst það voða sniðugt. Það liggur við að við þurfum að vera með heyrnaskjól. Hún er komin með nýjan barnabílstól, þar sem hún getur horft á allt í kringum sig, þetta þýðir að hún er steinhætt að sofa í bílnum. Það er svo margt að skoða. Áður sat hún í stól sem snéri baki í akstursstefnuna og þá var auðvitað ekkert merkilegt að sjá. Við fórum og keyptum stóran vaskabala og svona sæti fyrir hana til að sitja ofan í. Þetta hefur vakið mikla lukku. Nú getur hún setið í balanum og leikið sér meðan foreldrarnir eru í sturtu. Svo getur maður notað þetta sem heitan pott fyrir hana úti í sumar. Við vonumst auðvitað eftir góðu sumri. Eigum það skilið eftir þennan vetur.
Píparinn kom loksins í vikunni. Hann gat nú ekki klárað og kemur aftur á morgun. VIð réðumst í að klára herbergið þar sem brenniofninn er. Nú á bóndinn bara eftir að spasla. Frábært að vera loksins búinn að því. Svo vonumst við eftir að geta farið að kynda aftur með trépillum. Hitt er svo hryllilega dýrt.
Jæja látum þetta duga að sinni
kveðja
Snjókarlarnir í Tiset
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.1.2010 | 12:19
Bakstur
Kæru bloggvinir
hér er ennþá brunagaddur og snjór. Það var 9 stiga frost hér í morgun, en er reyndar bara 6 stig núna. Við hjónaleysin drifum okkur út í smá göngutúr í morgun. Frúin ákvað að fara bara í norparann, hefur ekki farið í hann síðan við fluttum til Danmerkur, en hann kom sér vel núna. Það hefur aldrei verið nógu kalt til að vera í honum. En í dag var hann algjört þarfaþing. Þeir eru nú eitthvað að tala um að það fari kannski að hlýna upp úr næstu helgi, og væri það nú vel þegið. Það er þó einn stór kostur við snjóinn og það er birtan sem fylgir honum. Desember og janúar geta verið ansi dimmir og grámyglulegir hérna, en það hefur verið mjög bjart og fallegt veður núna undanfarið. Maður er líka farin að taka eftir því að daginn er farið að lengja, það er bjart hérna til rúmlega 5 seinnipartinn. Það er alltaf voða notalegt þegar fer að birta aftur.
Frúin tók sig til í vikunni og bakaði rúgbrauð úr súrdeigi. Hún keypti einhverja danska kökubók og ákvað að nú yrði hún að fara að verða pínu myndarleg húsmóðir. Hún hefur nú alltaf ímyndað sér að það þyrfti nánast háskólagráðu til að baka súrdeigsbrauð, en þetta heppnaðist nú bara ótrúlega vel. Tók að vísu 5 daga í allt, af því deigið þarf að standa og súrna. Gallinn við þetta er að það er ógeðslega vond lykt af þessu meðan þetta er að lyfta sér. Svo sáum við eftir á að það er hægt að kaupa tilbúið í pakka efnið í svona brauð, veit samt ekki hvort þú sleppur við súrlyktina. Það verður að prófa það líka. Í dag er bóndinn svo búinn að bretta upp ermarnar og ætlar að baka bollur. Svo það er nóg að gera.
Píparinn var búinn að lofa að koma í vikunni en hefur ekkert sést. Hann segist alltaf vera að laga sprungin vatnsrör sem þola ekki kuldann. En vonandi fer hann nú að láta sjá sig. Þetta er nú orðið ansi þreytandi. En maður skilur auðvitað að sprungin vatnsrör hafi forgang.
Auður Elín þroskast voða mikið þessa dagana. Hún er farin að sitja sjálf á gólfinu. Það eru reyndar smá jafnvægisvandamál ennþá, en ekkert stórvægilegt. Hún er búin að vera ótrúlega fljót að ná tökum á þessu. Hún er orðin voða dugleg að borða og finnst sérstaklega spennandi að prófa það sem við erum að borða. Hún er sérstaklega hrifin af fisk. En annars smakkar hún eiginlega allt. Hún er svolítið lík Ozzy gamla hundinum okkar. Hún fylgist nákvæmlega með hvað við borðum og vill fá það sama. Hún hefur líka fengið að naga bein hjá pabba sínum. Henni finnst það alveg rosalega skemmtilegt. Hennar uppáhaldsleikföng þessa dagana eru annars tómar mjólkurfernur. Maður þarf ekki að eyða stórfé í dýr leikföng handa henni.
Bóndinn var svo heppin í vikunni að detta niður á snjóskóflur. Þær hafa verið uppseldar síðan snjórinn kom. Hann er voða ánægður með gripinn og er búin að prófa hana hérna fyrir utan. Vinnufélagar hans hafa verið að ræða eitthvað handbolta undanfarið, og verið ansi kokhraustir og talið að þeir myndu nú rústa Íslendingunum. Svo það verður ekki leiðilegt fyrir hann að mæta í vinnuna á morgun. Þeir eru almennt með mikla minnimáttarkennd gagnvart öðrum þjóðum og fara í rosa vörn ef einhver er að setja út á Danina. Þeir hafa líka oft mikla þörf á að benda okkur á að það gangi nú ekki svo vel hjá Íslendingunum núna. En þeir töluðu ekkert um það þegar allt gekk vel. Þó maður sé nú orðinn vanur þessu þá getur þetta nú stundum farið í taugarnar á manni.
Það eru komnar inn nýjar myndir, endilega kíkið á þær.
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.1.2010 | 13:25
Og enn snjóar
Kæru bloggvinir
þetta veðurfar er nú alveg hætt að vera fyndið. Hér snjóar ennþá og á að gera næstu dagana. Manni finnst þetta nú alveg orðið gott. Ég held þetta sé fyrsti veturinn okkar hér sem við kaupum ekki vetrardekk undir bílinn og þá snjóar bara og snjóar. Alveg ótrúlegt. Danirnir eru alveg að fara yfirum á þessu. Enda alls ekki vanir svona veðurfari. En við hljótum bara að fá gott sumar í staðinn.
Bóndinn og vinur okkar skelltu eldvarnarhurðinni í í morgun. Svo nú þarf bara að múra í holur og klára eitthvað smávegis. Þá getur tryggingarmaðurinn komið aftur og við vonum að hann samþykki þetta þá. Allavega gott að vera búinn að koma hurðinni í. Þá er það ekki eftir. Við renndum til vina okkar í Kollund á föstudaginn og keyptum af þeim notaðan ofn. Okkur vantar nefnilega ofn uppi. Þeir sprungu báðir í fyrra. Svo nú ætlum við að fá píparann til að leggja rör upp á loft og gera klárt til að tengja við ofna þar uppi. Hann þarf líka að líta á brenniofninn og reyna að fá hann í gang aftur. Við höfum kynt með gasi síðustu mánuði og það er ekkert sérstaklega ódýrt. Við töluðum um það um daginn að ef það hefði verið svona kalt síðasta vetur, þá hefðum við orðið að flytja í annað hús. Það hefði örugglega verið frost hérna inni. Við erum allavega búin að komast að því að gluggarnir í stofunni eru alveg hrikalega óþéttir, svo það þyrfti nú helst að skipta þeim út fyrir næsta vetur. Það hefur líka verið svo mikið rok hér í vetur að maður hefur tekið vel eftir hversu óþéttir þeir eru.
Frúin er farin að svipast um eftir vinnu. Vinnan sem hún var í, var bara 2ja ára verkefni og það kláraðist núna um áramótin, svo nú þarf eitthvað að fara að skoða það. Hún þarf nú samt ekki að fara að vinna fyrr en í maí. Annars datt okkur í hug um daginn að opna bara svona heilsumiðstöð í kránni hérna í Tiset. Við gætum haft líkamsræktarstöð og sálfræðinga og eitthvað fleira. Við sálfræðingarnir 2 í bænum hefðum þá vinnuna alveg í hlaðvarpanum. Hinn sálfræðingurinn býr við hliðina á kránni. Svo þetta gæti nú ekki verið auðveldara! :) Dagmamman í bænum gæti jafnvel fengið pláss þarna líka. Annars er hún nú í smá vandræðum. Það eru ekki svo mörg börn í bænum að hún er ekki viss um að hún geti haldið áfram að hafa opið. Hún er með 5 börn og 3 af þeim byrja á leikskóla í haust. En vonandi flytja einhverjar barnafjölskyldur í bæinn áður en það verður. Við vonum bara það besta. Frúin komst nú annars í smá aukavinnu í vikunni. Systir vinkonu okkar bað um að fá smá aðstoð og frúin tók hana í samtal. Það getur orðið eitthvað meira en er ekki víst.
Frúin fór svo í mömmubíó í vikunni. Það er rosalega sniðugt. Þá geta heimavinnandi mæður mætt í bíó með krílin. Þetta er fyrir hádegi og voða afslappað bara. Auði Elínu líkaði þetta bara mjög vel og hegðaði sér auðvitað eins og engill. Hún hefur nú annars verið voða pirruð og lítil í sér undanfarið. Er farin að vakna á nóttinni aftur og er eitthvað að rella. Það er samt alveg ótrúlegt hvað hún grætur lítið. Hún rellar bara. Hún er líka orðin ansi ákveðin. Ef hlutirnir ganga ekki alveg eftir hennar höfði þá verður hún bara ferlega pirruð.
Bóndinn komst í hann krappann í vikunni. Það var fljúgandi hálka og rosalega hvasst svo hann fauk hreinlega bara út af veginum á vinnubílnum. Hann var með tvo stráka í bílnum en sem betur fer slasaðist enginn. Bóndinn er bara allur lurkum laminn eftir þetta og bíllinn er mikið skemmdur. Það sem kom kannski mest á óvart var að það stoppaði einn maður og hjálpaði þeim út úr bílnum, en skildi þá svo bara eftir í brunagaddi og roki. Svo kom annar og stoppaði, en hann mátti ekki vera að því að hjálpa, spurði bara hvort þeim vantaði síma til að hringja úr. Bóndinn reyndi svo að stoppa næstu bíla, en það keyrðu minnst 15 bílar bara framhjá. Það kom loksins gömul kona á pínulitlum bíl, sem tróð þeim inn í bílinn og keyrði heim til sonar síns sem átti heima rétt hjá. Síðan var karlinn keyrður á sjúkrahús af því honum var svo illt í hnakkanum og bakinu. Þeir sáu ekkert, svo hann var sendur heim með verkjatöflur. Hann er svo kominn á annan bíl og mætti í vinnuna á föstudaginn. Vonandi sleppur hann sæmilega út úr þessu. Sonur konunnar sem hjálpaði bóndanum sagði að það færi minnst einn bíll út af veginum á hverjum vetri, þar sem bóndinn fór út af. Það skefur svo fljótt í skafla og verður alveg flughált undir.
En ætli við látum þetta ekki nægja í bili
Snjókveðjur
Ragga,Gummi og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.1.2010 | 16:07
Snjór og aftur snjór
Kæru bloggvinir
hér er allt á kafi í snjó. Þó er eitthvað aðeins farið að hlána hérna hjá okkur, en hér fyrir norðan okkur er þetta ekkert að lagast. Við höfum aldrei upplifað svona mikinn snjó í okkar tæp 9 ár hér í Danaveldi. Við þurftum að fara til Kolding í morgun, sem er ca 70 km héðan. Við vorum að sækja eldvarnarhurð sem var búið að redda fyrir okkur fyrir lítinn pening. Við reiknuðum nú ekki með að það væri neitt vandamál. En þetta var nú hálfgerður barningur því þeir ryðja helst ekki neitt. Þeir eiga ekki pening í það. Saltbirgðirnar voru uppurnar í miðri síðustu viku og af því þeir voru svo seinir að panta nýjan skammt, þá hefur verið saltað algjörlega í lágmarki síðustu vikuna. Þetta hefur verið allt í lagi fyrir bóndann því vinnubíllinn er á góðum dekkjum. En víða hefur allt verið stopp. Og inn í Kolding var allt kolófært. Við fórum í kaffi til Gunnþóru vinkonu og við ætluðum ekki að komast upp brekkurnar fyrir snjó og hálku. Það hefur ekki verið sótt rusl hjá þeim síðan fyrir jól. Maður skilur náttúrlega ekki alveg hvernig fólk lætur bjóða sér þetta. Það kemur ekki svona mikill snjór hér í Danmörku nema á 15 ára fresti, svo maður skyldi ætla að þeir ættu pening til að ryðja. En þeir hafa greinilega notað peninginn í eitthvað annað. Við getum ekki annað en hrist hausinn yfir þessari vitleysu. Svo var verið að tala um í fréttunum í vikunni að Danir eiga þrjá ísbrjóta sem eiga að halda sjónum opnum. Það kostar 20 milljónir danskar krónur, á ári að halda þessum döllum í standi og þeir hafa ekki verið úti að sigla í 15 ár. Samt eru 12 manns fastráðnir til að halda bátnum klárum. Manni fyndist nú nær að nota peninginn í að halda vegunum opnum. En vonandi fer þetta nú eitthvað að lagast. Það er hvergi orðið hægt að kaupa snjóskóflur eða snjóþotur. VIð hlógum nú að því í nóvember þegar þeir voru að reyna að selja þotur og skóflur. Held við kaupum bara þær næstu sem við sjáum. Þó svo það komi ekki snjór næstu 15 árin!
Annars hefur vikan nú farið í að komast aftur í hversdagsgírinn. Það tekur nú alltaf smá tíma að komast í gang aftur eftir frí. Auður Elín hefur verið frekar pirruð og er örugglega bara illt í munninum. Hún er komin með tvær tennur. Hjúkrunarkonan kom á föstudaginn og leist bara mjög vel á hana. Hún þyngist hægar núna, enda hreyfir hún sig mikið meira. Hún er alveg skæð í að ná í allar leiðslur svo við verðum að fara að gera eitthvað róttækt í að fjarlægja svoleiðis. Það er líka smám saman verið að fjarlægja dót sem hún getur náð í. Hún er farin að rúlla sér um allt gólf og nær ótrúlegustu hlutum. Við vorum að hlægja að því um daginn að hún myndi kannski ekki skríða heldur bara velta sér. Hún er farin að prófa að borða ýmsan mat. Henni finnst það´mjög spennandi, en finnst nú hafragrauturinn ennþá bestur.
Múrarinn geðgóði hefur ekkert verið hér síðan fyrir jól þvi pabbi hans er mikið veikur og hann er mikið hjá honum. Svo við vitum ekkert hvenær hann kemur að klára það sem hann á eftir. Það hefur verið svo mikið frost hérna að dæla sem var úti við brenniofninn sprakk, svo við þurfum að finna nýja dælu. Það þarf hvort sem er að laga einhverja ventla sem eru hjá ofninum. Þeir þoldu ekki þrýstinginn þegar við lögðum nýjar hitalagnir í húsið. Svo það er alltaf eitthvað að dunda sér við.
Næstu helgi á svo að reyna að koma eldvarnarhurðinni í. Vinur okkar ætlaði að hjálpa okkur með það. Það þarf eitthvað að stækka gatið og svoleiðis.
Við tókun nú ekki margar myndir á Íslandi en eitthvað þó. Bóndinn reynir kannski að henda þeim inn við tækifæri.
snjókveðjur
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.1.2010 | 15:32
Mætt á svæðið aftur
Kæru bloggvinir
Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla. Við þökkum sérstaklega dyggum lesendum okkar fyrir samfylgina á liðnu ári, bæði þeim sem kvitta hér inni og þeim sem ekki gera það! :) Þá erum við komin í Danaveldi aftur eftir velheppnaða Íslandsferð. Það var mjög gaman að hitta ykkur öll, og þeir sem við náðum ekki að hitta, sorry. Þetta gekk allt saman stórslysalaust. Auður Elín svaf af sér flugið báðar leiðir, en var aðeins vakandi í lestinni. Hún heillaði auðvitað alla á Íslandi upp úr skónum. Var merkilega róleg yfir öllu þessu nýja fólki. Hún er að taka tennur og fékk sína fyrstu tönn á jóladag. Þrátt fyrir þetta var hún nú ótrúlega brosmild og sátt við lífið. Hún hefur hins vegar verið voða pirruð eftir að við komum heim. En sefur samt á nóttinni, svo við getum ekki kvartað mikið.
Það er ansi kalt hérna en stillt og fallegt veður. Snjórinn er ekki alveg farinn, en voða lítið eftir. Nú tekur bara við grár hversdagsleikinn. Það er svo sem ágætt þegar hlutirnir falla í eðlilegar skorður aftur. Frúin tók heimkomuna með trompi og fékk bæði upp- og niðurgang. Gríðarlega spennandi. Hún er nú eitthvað að hjarna við. Eins gott að vera komin í lag áður en karlinn fer að vinna.
Ætli við förum ekki ífljótlega að klára ýmislegt smálegt í húsinu. Það er alltaf leiðilegt að klára þetta smotterí.
Héðan er mest lítið annað að frétta. Vonum að næsta vika verði meira viðburðarík.
kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.12.2009 | 18:12
Ísland á morgun
Kæru bloggvinir
þá er þetta að skella á. Ísland á morgun. Við erum nú með smá áhyggjur af því hvort við komumst á flugvöllinn. Það er nefnilega töluverður snjór hérna ennþá og það þýðir að lestarferðirnar eru mjög óreglulegar. Við vorum búin að kaupa miða en sjáum fram á að verða að kaupa nýja miða svo við getum lagt fyrr af stað. Það er betra að hanga á Kastrup einhverja tíma en koma of seint. Það hefur verið mjög fallegt veður hér í dag, svo við vonum það haldist á morgun.
Við verðum á Hvolsvelli fyrstu dagana og verðum svo í Keflavík seinustu dagana. Við ætlum ekkert að þvælast út um allt í heimsóknir, en ef einhver nennir að kíkja á okkur á öðrum hvorum staðnum, þá væri það auðvitað mjög gaman.
Við skrifum ekki hér inni fyrr en eftir áramót. Svo gleðileg jól og takk fyrir allt gamalt og gott. Það hefur verið mjög gaman að heyra að fólk hefur gaman að að heyra um svaðilfarir okkar hér í Danmörku. Það verður nú líka gaman seinna að lesa um allt sem á hefur gengið.
jólakveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2009 | 12:31
Afslöppun
Kæru bloggvinir
þá er hann búinn að skipta yfir í frost aftur. Það var hrím á jörðinni hér í morgun. Það er pínu jólalegra en þegar við höfum rigninguna.
Vikan hefur nú farið í margvíslegar útréttingar. Vorum að redda síðustu jólagjöfunum og svona. Þetta er allt að koma hjá okkur. Við höfum ekkert heyrt í múraranum í heilan mánuð. Hann hringdi svo allt í einu. Pabbi hans er víst alvarlega veikur, svo hann hefur verið hjá honum. Hann á ennþá eftir að klára ýmislegt smálegt. Spurning hvort hann komi nokkuð í það fyrr en eftir áramót.
Auður Elín prófaði aðeins að fara í pössun í vikunni. Það gekk nú bara nokkuð vel. Við hjónaleysin fórum svo á jólahlaðborð í gær með vinnunni hjá bóndanum. Maturinn var rosa fínn og huggulegt að komast aðeins út úr húsi. Það var nú voða skrýtið að hafa Auði Elínu ekki með, en þetta gekk nú allt saman vel og hún hagaði sér víst voða vel. Við vorum nú ekkert lengi því hún hefur verið kvefuð og með smá hitavellu. Hún er því voða rellin og lítil í sér. En við erum allavega búin að komast að því að það er ekkert mál að láta passa hana.
Við drifum okkur loksins með trúlofunarhringinn hans Gumma í minnkun. Hann hefur verið með hann um hálsinn síðan hann fór í magaaðgerðina, því hann var allt of stór og alltaf að detta af. Það er ferlega fyndið að sjá hann með hring á fingrinum aftur eftir 3 ár. Hringurinn hans er svo pússaður og fínn að hringur konunnar lítur bara slitinn út við hliðina á. Hann getur líka haldið upp á að það eru þrjú ár síðan hann hætti að reykja. Hann er seigur strákurinn.
Það er nú orðinn töluverður spenningur fyrir Íslandsferð, enda er þetta alveg að skella á. Bara vika þar til við komum. Vonum bara að ungfrúin verði orðin hress þegar við förum. Annars verður þetta nú ansi erfitt.
Jæja það er aldrei þessu vant afslöppun hér á Skovvejen í dag. Það hefur ekki gerst lengi. Svo það er um að gera að njóta þess.
kveðja
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.12.2009 | 16:37
Tiltekt
Kæru bloggvinir
Þá er aftur komið grámygluveður eftir nokkra daga með frosti og heiðskíru veðri. Þeir halda að við fáum eitthvað svipað veður næstu dagana. En það er nú ekkert nýtt hér í Danmörku. Ekki skrýtið að Danir loki sig inni á veturna og sjáist ekki utandyra.
Auður Elín er farin að vera voða dugleg i sundi. Konurnar sem stjórna þessu spurðu hvort við hefðum skipt um barn því hún hefur breyst svo mikið. En það er auðvitað bara mjög fínt. Við erum farin að halda að hún sé bara svona týpa sem þarf góðan aðlögunartíma áður en hún sættist við hlutina. Þetta er kannski eins og með að sofa í vagninum. Hún fór bara allt í einu að gera það án vandræða. En það er allt í lagi, foreldrarnir eru nú báðir svo þrjóskir að við gefumst ekkert upp fyrr en í fulla hnefana. Henni finnst voða fyndið þessa dagana að vera með einhverja píkuskræki. Og svo að sjúga á sér tunguna og neðri vörina. Það er líka alveg ógurlega mikið sport. Við erum nú oft að reyna að ná þessum æfingum á video, en það er helst að kveikja á henni þegar hún heyrir ekki til og ekki segja neitt. Hún er farin að grípa út eftir öllu, sem þýðir að það maður getur ekki skilið hlutina eftir á glámbekk, hún nær í þá. Gleraugu og skartgripir eru líka í stórhættu. Við fórum með hana í smá partý í mömmuhópnum á föstudaginn. Þær vildu endilega hittast með mökum og börnum. Þetta var nú alveg ágætt en frekar fyndið samt. Fólkið hérna á Suður-Jótlandi er nú frekar svona lokað og er voða hrætt við að kynnast einhverju nýju og framandi. Enda er það auðvitað stórhættulegt! :)
Frúin fór í það í vikunni að taka til í kössunum uppi á lofti. Það hvarf nú eitthvað á haugana, en ekkert í líkingu við það sem var látið hverfa um daginn. Síðan var ráðist í að taka til á ganginum hérna á bak við. Þar höfðu staðið flísar og margskonar byggingarefni. Það hefur ekkert verið hægt að taka til þarna meðan iðnaðarmennirnir hafa verið hérna. Frúin var orðin verulega þreytt á því að þurfa að skáskjóta sér til að komast í frystikistuna, svo það var drifið í að ryðja út drasli og raða þessu betur upp. Þetta er allt annað líf núna.
Jæja látum þetta nægja í bili
kveðja úr grámyglunni
Gummi, Ragga og Auður Elín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)