Færsluflokkur: Bloggar

Jólasveinninn kemur til Tiset

Kæru bloggvinir

þá er nú farið að kólna í Danaveldi, það var frost hér í nótt. Annars hefur bara verið endalaus rigning í nóvember. Manni finnst nú meira passandi fyrir árstímann að það sé stilla og kalt. En þetta fer nú örugglega að breytast núna. Þeir eru búnir að setja upp jólaljósin í Tiset. Þeir hengja upp í ljósastaurana svona stjörnu með greni og inn í er hjarta sem er með ljósi í. Þetta er mjög smekklegt og lýsir skemmtilega upp skammdegið hérna, sem annars er frekar grátt og leiðilegt.

Í dag kom svo jólasveinninn til Tiset, þá er gengið með jólasveininum í gegnum bæinn og börn sem eru að hætta með snuð, gefa honum snuðin sín og fá eitthvað sniðugt í staðinn. Jólasveinninn var nú frekar þögull og frekar slappur eitthvað. Húsbóndinn er að pæla í að bjóða sig fram í hlutverkið á næsta ári. Þegar við vorum búin að labba gegnum bæinn var svo farið inn í hlöðu og drukkið kaffi og borðaðar eplaskífur. Eins og glöggir lesendur kannski muna, tókum við þátt í þessum viðburði síðasta ár og þá talaði enginn við okkur. Þetta gekk nú eitthvað betur í ár, enda þekkjum við orðið nokkrar hræður. En það er voða mikið þannig hérna að maður verður að vera með í einhverri klíku til að vera ekki bara einn út í horni. VIð erum að verða komin pínulítið inn í íþróttafélagsklíkuna svo við fengum að sitja hjá þeim. Það á alveg örugglega eftir að taka langan tíma að kynnast einhverjum öðrum hérna í bænum. Auður Elín svaf þetta nú eiginlega allt af sér.

Hún er farin að sofa svo vel í vagninum allt í einu að mamma hennar skilur bara ekkert í þessu. Hún þarf heldur ekki lengur að fara út að labba með vagninn til að hún sofni. Nóg að rugga bara aðeins og þá er hún sofnuð. Hún er líka farin að vera duglegri að borða bæði grænmeti og graut. Kannski þess vegna sem hún sefur betur. Þetta breyttist bara allt í einu, ferlega fyndið. En mamman er nú voða fegin. Veit ekki hvort hún á að halda að þetta verði svona áfram eða hvort þetta er bara eitthvað tilfallandi. Hún er orðin rosalega dugleg í sundi og fílar það alveg í botn. Er alveg búin á því á eftir og sefur í 3-4 klukkutíma.

Við þurftum að fá tímabundinn passa fyrir ungfrúnna áður en við komum heim. Það þurfti að keyra um 80 km til að komast á næstu ræðismannaskrifstofu. Það er önnur skrifstofa aðeins nær, en ræðismaðurinn er í veikindafríi. Það hefur sennilega verið svona erfitt að sinna Íslendingunum að hún hefur ekki þolað það. En við fengum passa og þurfum svo bara að sækja um annan þegar við komum heim. Það voru teknar voða fínar passamyndir af henni. Gekk ótrúlega vel. Enda er stúlkan yfirleitt óskaplega meðfærileg.

Við fórum svo á föstudaginn og sóttum kassa sem við höfum haft í geymslu. Það voru um 20 stórir kassar eftir. Við vorum búin að ákveða að taka hressilega til í þeim og henda því sem við ekki notuðum. Frúin hefur nú verið svolítið góð í að geyma allt mögulegt, bóndanum fannst það voða fyndið. En nú voru hendur látnar standa fram úr ermum og ég held að kössunum hafi fækkað um helming allavega. Svo er bara eftir að fara í gegnum kassana upp á lofti og henda úr þeim. Það hefur bara verið þannig síðan við fluttum til DK að maður er alltaf að flytja og ætlar alltaf að taka til í kössunum en þetta safnast bara saman og það verður ekkert úr því að maður hendi neinu.

Okkur hlakkar orðið voða mikð til að koma heim um jólin. Þetta nálgast nú óðfluga. Bóndinn setti inn nokkrar myndir af Auði Elínu sem voru teknar núna þegar hún varð 5 mánaða. Endilega kíkið á þær.

kveðja frá jólabænum Tiset

Ragga, Gummi og Auður Elín

 


Auður Elín 5 mánaða

Kæru bloggvinir

hér hefur rignt eldi og brennisteini undanfarna daga, og verið rok líka. Sem sagt skítaveður. En það er ekki við öðru að búast í nóvember. Þeir eru farnir að setja upp jólaskreytingar í bæjunum, okkur finnst það nú fullsnemmt, en þeir taka nú líka jólaskrautið niður fyrr en við heima á Íslandi, sumir henda jólatrjánum út á jóladag. Við vitum nú ekki hversu mikið við nennum að skreyta, litla fjölskyldan er nefnilega á leiðinni heim til Íslands um jólin. Það á nú eftir að verða spennandi að sjá hvernig Auður Elín bregst við því öllu.

Við fórum með stúlkuna í 5 mánaða skoðun í vikunni, og hún fékk aftur sprautu í bæði lærin. Hún brjálaðist auðvitað, en sofnaði svo bara og svaf í 3 tíma. Hún var svo með einhverja hitavellu um kvöldið og var eitthvað pirruð, en svaf sem betur fer mest alla nóttina. Hún er voða mikið að æfa sig í að gera alls konar hljóð þessa dagana. Stundum veit maður ekki hvort hún er eitthvað leið eða hvort hún er bara eitthvað að rífast við dótið sitt. Hún hefur tekið ástfóstri við einhvern forljótan bangsa sem við fengum gefins í einhverri byggingarvörubúð. Hennar uppáhaldsiðja þessa dagana er að velta sér af bakinu á magann. Málið vandast svo bara þegar hún er búinn að velta sér, því hún nennir ekki að liggja of lengi á maganum og hún er ekki búin að fatta hvernig hún veltir sér til baka. Hún liggur því bara á maganum og vælir og er ferlega pirruð. Við prófuðum að gefa henni að drekka af glasi í vikunni og henni fannst það nú bara fyndið. Finnst foreldrar sínir ábyggilega ótrúlega skrýtnir.

Af framkvæmdum er það að frétta að rafvirkinn er búinn að setja upp alla tengla, en múrarinn hefur ekkert látið sjá sig. Hann á nokkur smáverkefni eftir. Það er spennandi að sjá hvenær hann lætur sjá sig. Það er annars bara svo frábært að geta tekið til og gert hreint hérna inni eftir allan þennan tíma að það er ekkert venjulegt. Frúin tók smá ajaxtörn í dag enda ekki vanþörf á. Það er líka mömmuhópur hér á morgun svo það er eins gott að allt sé hreint og fínt. Þær eru nú flestar að spá í að fá sér hreingerningarkonu þegar þær fara að vinna aftur. Manni finnst þetta nú svolítið skrýtið að ungar konur með eitt barn séu að pæla í þessu. En þetta er mjög almennt hérna. Ég held ég þrífi nú bara minn skít sjálf, þó mér finnist það ömurlega leiðilegt.

Það hefur ekki orðið neitt úr að taka myndir af ungfrúnni. Við verðum að reyna að bæta úr því.

kveðja frá Tiset

Gummi, Ragga og Auður Elín


Flensa

Kæru bloggvinir

þá er flensan komin í hús. Bóndinn hefur legið mest alla vikuna með einhverja flensu, vitum nú ekki hvort þetta er hin alræmda svínaflensa, en hann hefur allavega verið handónýtur. Hann er nú samt eitthvað að lagast. Við mæðgur höfum sloppið hingað til, vonum að við fáum ekki þennan ófögnuð.

Píparinn og bóndinn eru búnir að leggja nýjar hitalagnir í kofann og í fyrsta skipti síðan við fluttum inn er almennilegur hiti hérna inni. Maður kann bara ekki almennilega við þetta. Það er sérstaklega munur í svefnherbergjunum því þar hefur aldrei verið almennilegur hiti. Það kom líka í ljós þegar þeir skiptu um rör og ofn í litla herberginu að rörin voru full af drullu og ryði, svo það er kannski ekkert skrýtið að þetta hafi ekki virkað. Við vonum allavega að nú komi ekki fleiri stórverkefni. Bóndinn hefur svo verið í því að mála ganginn í dag og þá er hægt að setja upp tengla og svoleiðis. Þannig að þetta er nú allt að skríða saman. En nóg eftir samt. Það er allavega æðislegt að sitja við borðstofuborðið og borða og sofa í sínu eigin rúmi. Við skiljum engan veginn hvernig fólk nennir alltaf að borða við stofuborðið. Við erum allavega ekki svoleiðis týpur.

Auður Elín hefur þroskast voða mikið undanfarið. Hún er farin að verða duglegri að borða, bæði spergilkál og graut. Hjúkrunarkonan kom í vikunni og var voða ánægð með hana. Hún er orðin rúm 8 kíló og 69 cm. Mömmunni finnst hún stækka alveg óhuggulega hratt. Föt sem manni fannst hrikalega stór fyrir nokkrum vikum, passa á hana núna. En það er nú strákur í mömmugrúppunni sem er jafn þungur og hún, en bara 2,5 mánaða. En hann er ekki eins langur. Hún er algjörlega á útopnu á morgnana þegar hún vaknar. Blaðrar og blaðrar við sjálfa sig og er öll á iði. Henni finnst orðið voða gaman að liggja á gólfinu og sprikla. Það hefur nú samt verið erfitt að koma því við meðan við höfum staðið í þessu brasi. Hún var rosa dugleg í sundinu í gær, spriklaði alveg á milljón og vildi bara ekkert fara heim. Mamman var orðin alveg uppgefin á að halda á henni. Við reynum nú kannski að smella nokkrum myndum af henni í vikunni því hún verður 5 mánaða á miðvikudaginn. Hún á að fara í sprautu aftur þá, en svo er sem betur fer ekki nein sprauta fyrr en hún verður 1 árs.

 Jæja ætli við látum þetta ekki duga að sinni

kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín


Múrbrot enn og aftur

Kæru bloggvinir

það hefur nú verið heldur rólegt á byggingarsvæðinu hérna síðustu vikuna. Rafvirkinn kom og setti allavega smá ljós á klósettið. Við þurfum svo að kaupa okkur fleiri ljós. Ætlum bara að mixa rússneskar ljósakrónur til bráðabirgða. Bóndinn hefur svo verið á fullu alla helgina, fyrst að veggfóðra út á gangi og svo að brjóta upp gólfið í barnaherberginu. Yndislegt að fá meira ryk og drullu. Hann fann sem betur fer strax rörin sem hann átti að finna í gólfinu, svo hann þurfti ekki að bora allt gólfið upp. Nú þarf svo að mála á ganginum í vikunni svo rafvirkinn geti klárað. Svo vonum við nú að öll þessi stóru verkefni séu búin í bili.

Auður Elín hefur verið voða pirruð í munninum og hefur verið voða léleg að drekka. Hún er búin að finna út að það er rosa gott að troða tánum upp í munninn og naga þær. Við erum búin að prófa ýmsar útfærslur af maísgraut, og bæði búin að prófa að setja epli og perur út í, með misjöfnum árangri. Frúin prófaði svo að búa til graut úr hirsiflögum (veit ekki hvort það er til svoleiðis heima á Íslandi)og setja perumauk út í. Hún hefur viljað það allavega í gær og í dag. Hún hefur verið að vakna kl. 3 á nóttinni, af því hún hefur verið svöng. Síðan hún fékk þennan nýja graut sefur hún allavega til kl. 4:30. Við vonum að hún haldi áfram að vilja það. Hún er annars voða oft þannig að þegar maður prófar eitthvað nýtt, er hún voða hrifin af því í fyrsta skipti en síðan ekki söguna meir. Það er líka oft þannig að hún gerir öfugt við það sem flest börn gera. Til dæmis sofa flest börn í marga klukkutíma eftir ungbarnasund, en ekki Auður Elín, hún sefur í mesta lagi klukkutíma. Hún er orðin pínu meira örugg við að vera í sundi, en þarf samt voða lítið til að hún verði leið. En hún er mun betri en hún var í byrjun. Nýjasta skemmtunin hjá henni er að sitja í skástólnum sínum og horfa á sjónvarpið og leika sér með dótið á skástólnum. Efnilegur sjónvarpsáhorfandí á ferðinni þar.

Við settum inn ný myndbönd af henni inn á youtube.com. Við kunnum ekki að fá þetta í réttri tímaröð, svo ef maður ætlar að sjá nýjustu myndböndin er sennilega best að kíkja eftir dagsetningunni í titlunum. Það eru voða fínar myndir af henni að blaðra við pabba sinn og hlægja. Þau heita Auður Elín part 1 og part 2.

Jæja það er voðalegt andleysi hér á bæ í dag svo þetta verður að duga að sinni.

kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín


Framkvæmdasagan endalausa

Kæru bloggvinir

hér er heldur betur farið að hausta. Laufin eru farin að fjúka af trjánum og það er farið að kólna hressilega. En ekkert við öðru að búast í byrjun nóvember.

Af framkvæmdunum er það að frétta að múrarinn hefur eitthvað verið að gaufast við að klára ýmislegt smálegt. Honum finnst þetta nú frekar þreytandi og er óskaplega geðgóður eða hitt þó heldur. Rafvirkinn hefur ekkert látið sjá sig en við vonum að hann komi á morgun. Píparinn kom hita á húsið í síðustu viku. En þá kom í ljós að hitakerfið er allt í volli og það verður að bæta við hitalögn til að við fáum hita á svefnherbergin hérna niðri. Píparinn er búinn að bjóðast til að hjálpa okkur við að fá þetta í lag fyrir lítinn pening. Hann ætlar að sýna Gumma hvernig á að leggja rörin og svo kemur hann bara og tengir þetta allt saman. Svo það er vonandi að þá fari þetta að virka. Við getum ekki flutt inn í svefnherbergið aftur fyrr en það er kominn hiti á það. Það þarf líka að brjóta upp gólfið í barnaherberginu, og eyðileggja nýja parketið, rosa gaman! :) En það er eiginlega ekkert sem kemur okkur lengur á óvart í þessu húsi. Þegar þetta er komið ættum við líka að vera komin með almennilegt hitakerfi. Það hefur aldrei virkað almennilega. En við ætluðum nú að reyna að láta það duga eitthvað lengur. En við vonum að þetta sé það síðasta sem kemur í ljós. Við erum allavega komin með nýtt klóak og nýtt rafmagn, nýtt eldhús og baðherbergi svo húsið hlýtur að hafa hækkað eitthvað í verði. Frúnni hlakkar eiginlega mest til að losna við að hafa þessa karlahlunka hérna alla daga. Ekki það að við hefðum ekki getað þetta án þeirra en þetta er orðið ágætt. Viljum gjarnan fara að hafa húsið fyrir okkur sjálf.

Frúin hefur verið mjög félagslynd í vikunni. Það var mömmuhópur á mánudaginn og á miðvikudaginn fór hún svo í leikfimi. Þetta er svona mömmuleikfimi. Voða fínt. Frúin hefur nú aldrei verið neitt sérstaklega hrifin af svona glennugangi. En þetta lítur mjög vel út allavega eins og er, svo við prófum að mæta fram að jólum. Við fórum svo í ungbarnasund í gær og Auður var bara rosa spræk svo þetta er nú örugglega allt að koma. Það eru ýmsar tilraunir hérna þessa dagana til að fá hana að borða graut. Við byrjuðum að gefa henni velling í flösku, og það gekk ágætlega fyrst og svo harðneitaði hún að borða það svo nú er verið að prófa að gefa henni þykkari graut með skeið og gulrótamauk. Það hlýtur að enda með því að hún vilji eitthvað af þessu.´

Bóndinn fór út að borða og í keilu í gær með vinnufélögunum. Það var enginn amma til að passa Auði Elínu svo frúin var bara heima. Enda hefur hann ábyggilega verið fegin að sleppa aðeins við okkur. Hann er að setja inn ný myndbönd af ungfrúnni, endilega kíkið á youtube.com. Sláið inn gje1965 í search gluggann.

kveðjur frá Tiset

Gummi, Ragga og Auður Elín


Komin með innanhússklósett

Kæru bloggvinir

Héðan er nú allt gott að frétta. Við erum farin að geta farið á klósettið innandyra. Að vísu er ekki komin hiti á húsið, svo það er ansi kalt að fara á náðhúsið. En betra en að paufast út í garð í svartamyrkri.Við fengum gefins klósett frá vinum okkar, og ætluðum auðvitað að nota það. En þá kom í ljós að það var sprunga í því svo við verðum að kaupa nýtt. Frekar pirrandi, en ekkert við því að gera. Við vonumst eftir að fá hita á húsið á morgun eða hinn. Við erum líka búin að fá voða fína sturtu, svo þetta er allt að skríða saman. Nokkur smáverkefni eftir. Múrarinn okkar geðgóði er ekkert sérstaklega öflugur í slíkum verkefnum, svo það verður spennandi að sjá hversu mikið verður eftir þegar hann telur sig búinn. Rafvirkinn kemur svo á morgun og setur upp einhver ljós. Allavega eitthvað til bráðabirgða. Við verðum að bíða aðeins með að setja upp endanleg ljós, það er svo dýrt. Og þetta er nú orðið mun umfangsmeira og dýrara verkefni en við höfðum reiknað með í upphafi. En það er nú allt í lagi að bíða með eitthvað smotterí. Okkur er farið að hlakka voða mikið til að geta flutt endanlega inn í húsið eftir að hafa búið í þessu hálfkláruðu í heilt ár. Ótrúlegt að við séum búin að búa hér í meira en eitt ár. Við hjónaleysin vorum að tala um það um daginn að við erum nú búin að búa saman í 9 ár á ótrúlega mörgum stöðum og við höfum aldrei haft baðinnréttingu, svo það var nú komin tími á það! :)

Auður Elín hefur nú verið heldur hressari þessa vikuna. Hún er nú samt eitthvað pirruð í munninum ennþá. Hún vaknar ennþá á nóttinni mömmu sinni til mikillar gleði. Hún er farin að fá graut á kvöldin, bara þunnan graut í pelann. Hún er nú ekkert ofurhrifin af því, en lætur sig oftast hafa það. Hún hlýtur að venjast því. Frúin er að fara í mömmuhóp á morgun. Hún er jafnvel að pæla í að þræla sér í leikfimi líka. Við sjáum nú til hvort hún hefur sig í það. Það er boðið upp á einhverja leikfimi fyrir mæður og börn, svo það hljómar nú ekkert vitlaust. Við erum búin að fara 5 sinnum í ungbarnasund og ungfrúin er nú eitthvað að sættast við þetta. Henni er enn voða illa við ef það eru of mikil læti og hún er ekkert hrifin af neinum buslugangi. En við höldum nú hún venjist þessu smátt og smátt. Konurnar sem stjórna sundinu segja að það sé mjög misjafnt hvernig börn taka þessu, svo þær halda líka að hún venjist þessu bara. Það gengur allavega betur ef hún er búin að ná að leggja sig aðeins og borða áður en við förum af stað. Hún er voða mikið að prófa að búa til hljóð með tungunni. Eins og hún sé að reyna að puðra. Henni finnst þetta voða fyndið og skellihlær að vitleysunni í sjálfri sér. Hún er voða lítið fyrir að vera kyrr, vill alltaf vera á iði. Alveg óð í að standa upp, svo foreldrarnir eru orðnir ansi sterkir í upphandleggjunum af að halda við hana.

Við vonumst nú til að geta farið að setja inn fleiri videó af dótturinni þegar við komumst inn í tölvuherbergið aftur. Það er víst mikið auðveldara að setja þau inn í gegnum þá tölvu en fartölvuna. Við vorum svo að breyta klukkunni í nótt svo nú er bara klukkutímamunur á milli landanna.

Bóndinn ætlar að reyna að setja inn nýjar myndir af ungfrúnni í dag. Svo þið sjáið eitthvað annað en bara klósettmyndir alltaf.

Jæja látum þetta nægja í bili

kveðjur frá Tiset

Gummi, Ragga og Auður Elín

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Baðherbergi okt 09

Kæru bloggvinir.

Þá eru komnar nýjar myndir af baðherbergisframkvæmdum.Nú er þetta loksins farið að líta nokkuð vel út.

kveðja Tisetgengið.


Auður Elín 4 mánaða

Kæru bloggvinir

það er ýmist í ökkla eða eyra. Í síðustu viku var allt frekar rólegt, en þessa vikuna hefur heldur betur ýmislegt gerst. Bæði skemmtilegt og leiðilegt. Við átum hrossakjöt og rófu í sunnudagsmatinn og það bragðaðist bara rosa vel. Rófurnar klikka ekki sko. Það getur vel verið að fólki finnist við skrýtin að leggja svona mikið á okkur fyrir rófur, en þegar maður býr í útlöndum breytist margt svona. Hlutir sem maður pælir ekki í þegar maður er heima, fara allt í einu að vera eftirsóknarverðir.

Frúin fór í mömmuhóp á þriðjudaginn og það var bara mjög fínt. Við erum 4 stelpur. Þær eru reyndar töluvert yngri en ég, en þetta lofaði allavega góðu, svo nú sjáum við hvernig þetta þróast. Þær eru allar með yngri börn en ég, ferlega fyndið að sjá svona lítil kríli. Manni finnst svo langt síðan Auður Elín var svona lítil. En sú stutta á 4 mánaða afmæli í dag. Hin krílin í hópnum eru fædd í águst. Hún hefur annars verið ansi rellin og óánægð síðustu vikuna. Hún treður öllu upp í sig og slefar mikið. Foreldrana var farið að gruna að hún væri að fá tennur, en fannst það nú heldur snemmt. Hjúkrunarkonan kom svo á fimmtudaginn og staðfesti að gómarnir væru bólgnir og eitthvað væri í uppsiglingu. En sagði líka að það gæti liðið langur tími þar til tennurnar kæmu upp. Já einmitt það. Hún fór líka að taka upp á því að vakna kl. 3 og 4 á nóttunni. Eitthvað sem hún ekki er vön að gera. Við erum því byrjuð að gefa henni smá þunnan maísgraut á kvöldin og þá sefur hún allavega til kl. 5. Hún hefur sennilega bara verið orðin svöng þarna um miðja nótt. Hún var mæld og vigtuð, er orðin 7550 gr og 65 cm. Bóndinn giskaði aftur á rétta þyngd. Hjúkrunarkonan er farin að halda að við séum að svindla. :) Dóttirin er annars ótrúlega þolinmóð og kippir sér ekki mikið upp við allt rápið á foreldrum sínum. Við erum búin að þvælast endalaust í þessari síðustu viku. Við höfum verið að kaupa hurðir og ýmislegt smálegt fyrir baðherbergið. Bóndinn hefur svo verið að hamast við að veggfóðra og mála á klósettinu og við vonum að við fáum inniklósett fljótlega. Frúin hefur mestar áhyggur af því að hitakerfið virki ekki núna þegar það er búið að breyta því öllu þarna frammi á gangi. En við vonum það besta.

Þegar frúin kom heim frá mömmuhópnum á þriðjudaginn var schæferhundur hér á hlaðinu. Henni fannst þetta nú eitthvað undarlegt. Bóndinn og múrarinn könnuðust ekkert við hann. Hann hafði bara allt í einu birst hérna og gerði sig ansi heimakominn. Hann var ekki með neina ól og voða mjór. En mjög gæfur. Frúin hringdi til löggunnar til að tilkynna hann og það var nú engin smá skriffinska í kringum það. Maður fer að pæla í hvernig þetta er þegar eitthvað fólk týnist! En allavega þetta hafðist og hann var sóttur af svona hundaathvarfi. Frúnni langaði nú bara að hafa hann. En það er ekki hægt að taka að sér svona dýr meðan Auður Elín er svona lítil.

Daginn eftir var svo bankað hérna hjá okkur. Frúin fór til dyra og vissi ekki á hverju hún átti von. Fyrir utan stóð kona, ansi æst. Hún byrjaði nú á að segja að hún væri alveg brjáluð yfir að hundurinn okkar skiti í garðinn hennar. Ég sagði að það væri nú erfitt þar sem hann hefði verið dauður í 2 mánuði. Það kom nú eitthvað á hana en svo fór hún að rífast yfir að við legðum bílunum hérna á gangstéttina fyrir framan. En við höfum gert það núna meðan við erum með iðnaðarmenn í húsinu. Hún ætlaði nú bara að taka myndir af þessu og senda til lögreglunnar þar sem þetta væri kolólöglegt. Jájá og hún sem hafði verið svo almennileg að láta okkur vita þegar kötturinn okkar var keyrður niður. Já það er ekki gott að vera svona óþolandi nágranni. Við vitum reyndar ekki hvar hún býr. Bóndinn verður að reyna að komast að því á næsta íþróttafélagsfundi. Hún hafði fyrst hellt sér yfir múrarann, hélt að hann ætti heima hérna. Honum fannst þetta bara sniðugt. Við ætlum nú að reyna að haga okkur betur svo nágrannarnir séu ekki svona æstir! Við sjáum til hvernig það gengur.

Jæja ætli við látum þetta ekki duga í bili

kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín


Rófuleiðangur

Kæru bloggvinir

Þá er kominn bloggdagur. Síðasta vika hefur nú verið frekar viðburðalítil, bara allt þetta venjulega. Múrarinn hefur verið ansi duglegur þessa vikuna og er búinn að pússa veggina og setja flísar í sturtuhornið. Píparinn er búinn að gera allt klárt til að tengja vask og klósett og handklæðaofn. Hann er svo í fríi næstu viku en kemur vonandi í byrjun þarnæstu viku og tengir þetta fyrir okkur. Það er frí í skólunum þessa vikuna og bóndinn er í fríi. Það á að nota tímann til að leysa ýmis smáverkefni sem setið hafa á hakanum undanfarið. Það er alltaf gott að klára það sem setið hefur á hakanum.

Frúin átti að mæta í mömmuhóp á föstudaginn en því var aflýst af því mamman sem átti að halda það var með veik börn, svo það verður núna á þriðjudaginn í staðinn. Svo kemur hjúkrunarkonan á fimmtudaginn. Við ætlum að fara að prófa að gefa ungfrúnni smá graut eða velling. Hún verður 4 mánaða á sunnudaginn. Þeir fróðu segja að það sé ekki æskilegt að gefa þeim neitt annað en mjólk fyrir þann tíma. Svo við sjáum hvernig hún bregst við því. Annars er hún stillt og prúð og kippir sér ekkert upp við vesenið á foreldrum sínum. Enda sennilega eins gott fyrir hana að venja sig við það strax!

Frúin hitti hinn sálfræðinginn í bænum í einum af göngutúrunum í vikunni. Hann hefur nú aldrei talað við mig, en hann bætti um betur í þetta skiptið. Hann talaði og talaði allavega í hálftíma. Hann flutti til Tiset frá Kaupmannahöfn til að leita uppruna síns. Hann er voða mikið að grúska í ættfræði og sagði mér að hann ætti ættingja á Íslandi. Hann var á Íslandi 1972 hjá Sveinbirni Beinteinssyni allsherjargoða, sem var víst eitthvað skyldur honum líka. Þetta var mjög fróðlegt og skemmtilegt samtal.

Við erum búin að vera að safna að okkur því sem vantar á baðherbergið. Við fórum í dag að kaupa málningu, svo nú vantar bara málningu á ganginn. Það er orðið ansi erfitt að bíða eftir að fá að klára þetta og innrétta baðið. En það sér nú fyrir endann á þessu. Við verðum að henda inn myndum af þessu í vikunni.

Frúin fann reykt folaldakjöt í frystikistunni nýlega, það átti að vera í matinn í dag. Okkur vantaði bara rófur til að hafa með. Það er ekkert auðhlaupið að því að fá rófur hér í Danaveldi, þar sem það er álitið svínafóður. Bóndinn hafði séð rófur til sölu einhvers staðar út í sveit svo við fórum í leiðangur í dag að leita að því. Þetta varð nú eitthvað lengri bíltúr en ætlað var, en svona er þetta nú stundum hjá okkur. Dönunum finnst við ábyggilega verulega biluð að nenna að eltast við þetta. Við enduðum í bæ sem heitir Tønder ca 50 km hér frá. Þetta er mjög fallegt svæði og mjög mörg falleg hús. En þetta er alveg út á hjara veraldar, svo það er ekki mjög heillandi að búa þarna.

Það er búið að vera ansi kalt hérna undanfarið og þar sem við erum ekki með neinn hita á húsinu meðan þeir eru að vinna í baðherberginu þá hefur okkur nú verið ansi kalt. En svo fengum við lánaðan extra ofn, og það er bara allt annað líf.

Kveðjur úr kuldanum

Gummi, Ragga og Auður Elín


Framkvæmdagleði

Kæru bloggvinir

Það hefur verið hundfúlt veður hér um helgina. Það var svo hvasst í nótt að glugginn í svefnherberginu fauk upp, og einn þakglugginn í skúrnum fauk úr. Bóndinn vaknaði við lætin og fór út að safna saman lausamunum. Sólhlífin var flogin af stað og plast og pappi fauk út um allt. Frúin svaf á sínu græna á meðan á þessu gekk. Dagurinn var svo tekinn snemma. Bóndinn fór í að setja einangrun í loftið á baðherberginu og svo þurfti að rífa niður síðustu flísarnar af veggjunum og ýmislegt smálegt. Múrarinn hefur verið ansi iðinn þessa vikuna. Hann er búinn að setja upp veggi, svo þetta er farið að líkjast baðherbergi aftur. Okkur finnst þeir reyndar hafa gert það heldur mjótt, en það er ekkert hægt að breyta því héðan af. Það er nú líka pínu erfitt að átta sig á þessu meðan ekkert er inn í herbergjunum. Við vonum svo bara að þetta haldi áfram að ganga svona vel. Það er allavega ekki gaman að sitja út í skúr að pissa þegar það er svona hvasst. Frúin hélt hún myndi takast á loft í gær í rokinu. Við vorum búin að sjá auglýsta baðinnréttingu á rosa tilboði í bæ hérna 65 km frá. Hún var svo uppseld þegar við komum þangað svo stelpan hringdi út um allt og fann loks innréttingu í Árósum, svo það var ekki annað að gera en renna þangað. Enda þessi innrétting minnsta kosti 5000 dkr ódýrari en aðrar hér í Danaveldi. Svo verður bara að sjá hversu lengi hún endist. Hún lítur allavega mjög vel út og ekkert veiklegri en aðrar innréttingar sem við höfum séð. Við vorum svo búin að kaupa handklæðaofn og áttum klósett svo þetta er allt að koma.

Auður Elín hefur nú tekið öllum þessum látum hér með stóískri ró. Við vorum í ungbarnasundi í gær í þriðja skipti. Hún er nú ennþá pínu smeyk við þetta allt saman. En er nú farin að þora að sprikla meira. Svo þetta er allt í áttina. Það er planið að frúin fari í svona mömmuhóp á föstudaginn. Við eigum að vera 4 í hóp. 3 sem eiga bara eitt barn og svo ein sem var að eiga annað barn. Það verður spennandi að sjá hvernig það verður. Frúin er allavega orðin þreytt á að hanga alltaf heima. Sérstaklega þegar allt er á rú og stúi og ekkert hægt að taka almennilega til.

Við erum búin að fá nýjan nágranna í húsið þar sem við fengum að nota klósettið. Það er víst þýsk kona með einn stálpaðan strák. Við höfum ekki séð hana ennþá, en bara heyrt um hana hjá þeim sem leigja út húsið.

Bóndinn er búinn að setja inn myndir af baðherberginu eins og það lítur út núna. Albúmið heitir baðherbergi sept-okt

kveðja frá vindblásna fólkinu í Tiset.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband