Færsluflokkur: Bloggar

Afslöppun

Kæru bloggvinir

þá er enn ein vikan liðin. Maður bara áttar sig ekki á því hvað tíminn flýgur áfram. Frúin hjálpaði bóndanum að moka restinni út úr baðherberginu á mánudaginn. Múrarinn ætlaði svo að koma á þriðjudag. En svo þegar við töluðum við hann á mánudaginn, þá var það allt í einu breytt og hann var búinn að lofa sér í annað. Svo hann er núna búinn að lofa að koma á morgun. Við vonum að það standist. Við vorum nú frekar súr þar sem bóndinn var algjörlega búinn að ofgera sér við að klára þetta. En múrarinn er búinn að lofa að þetta gangi hratt þegar hann kemst í gang og við vonum það besta. Hann hefur allavega verið fljótur hingað til. Það þarf að leggja nýtt rör inn í húsið fyrir neysluvatnið. Það er allt ryðgað og ónýtt. Svo þetta ætti allt að verða nýtt og flott þegar upp er staðið. Nágranninn er búinn að leigja út húsið sitt frá og með 1. okt, svo við verðum að fara að finna okkur aðra klósettaðstöðu. Við endum sennilega bara með að leigja klósettskúr hérna út í garð. Við hringdum í meindýraeiði til að kíkja á rottuungana okkar. Konan sem varð fyrir svörum sagði að það væri ekkert við þessu að gera. Það væru rottur í klóökum í Danmörku og það væri ekkert annað að gera en að þétta klóakið og loka vel. Já einmitt það. Bara að þær komi ekki upp í klósettið og narti í mann.

Hjúkrunarkonan kom í vikunni að kíkja á Auði Elínu. Henni leist voða vel á hana. Það var svolítið fyndið að hún spyr yfirleitt í gamni hvað við höldum að hún sé þung, svona áður en hún vigtar hana. Gummi sagði strax 7150 gr og viti menn, stúlkan var nákvæmlega 7150 gr. Hjúkrunarkonan hélt hann hefði svindlað, en svo var ekki. Hún er orðin 64 cm, svo hún stækkar bara og stækkar, sem betur fer. Hún er alveg óð í að standa í lappirnar, og er orðin ansi styrk. Hún er líka búin að taka nokkrar hláturrokur í vikunni og eitthvað af því náðist meira að segja á video. Það verður sett inn við tækifæri. Foreldrunum finnst þessi hláturköst auðvitað alveg óborganleg, eins og sennilega öllum foreldrum.

Annars hefur nú allt verið með ró og spekt hér þessa vikuna. Það verður spennandi að fylgjast með þegar það verður farið að vinna í baðherberginu. Við reynum að setja inn myndir jafnóðum.

Jæja það er best að halda áfram í afslöppuninni

Tisetgengið  


Nýjar myndir

Kæru bloggvinir

þá eru komnar myndir af baðherbergisframkvæmdunum. Ef þið viljið sjá hvernig þetta leit út áður en allt var mölvað þá eru þær í albúmi sem heitir september 2009.

 

kveðja

klósettlausa fjölskyldan


Baðherbergismartröð

Kæru bloggvinir

við erum ekki búin að gleyma ykkur, ónei. En ástæðan fyrir því að færslan kemur fyrst núna er að bóndinn og Steini vinur okkar voru að brjóta út úr baðherberginu um helgina og þurftu að grafa 40 cm niður í grunninn. Við það slitu þeir rafmagnsleiðslu, svo tölvukerfið fór allt í vitleysu. En bóndinn er búinn að redda þessu í bili. Þeir eru langt komnir með að moka út úr grunninum, en það er smá stykki eftir. Við héldum að veggirnir væru svo þunnir að þeir þyrftu bara rétt að anda á þá. En neinei það kom í ljós útveggur inn í miðju baðherbergi og gólfið var steypt í mörgum lögum. Ekki nóg með þetta. Þeir fundu líka 2 rottuhreiður og helling af rottuungum. Enda kom í ljós að klóakið var opið og öll vatnsrör undir gólfinu voru ryðguð og hefðu ekki haldið mikið lengur. Svo það var fínt að við fórum í að brjóta bæði baðherbergi og ganginn upp. VIð vonum að píparinn geti lagað þessi rör fljótlega svo við fáum heitt vatn.  Múrarinn geðgóði kom svo í gær, ekki mjög hress með að við værum ekki búin. Hann glopraði því út úr sér að við yrðum að vera búin á morgun, annars þyrftum við að bíða í minnst hálfan mánuð með að komast í gang. Þannig að það verður bara að vinna í akkorði þar til þetta er búið. Maður getur ekki verið klósettlaus í svo langan tíma. Frúnni finnst þetta allavega frekar þreytandi ekki að geta farið á klósettið í eigin húsi.  Hún hefur oft óskað þess að geta pissað standandi, en aldrei eins heitt og núna. Þá gæti maður bara hlaupið út í garð. Nágranninn er svo búinn að leigja út húsið sitt frá 1. okt, svo við þurfum þá að leigja einhvern klósettvagn. Þetta er nú allt í lagi meðan það er enn svona tiltölulega hlýtt miðað við árstíma. Verður verra þegar það verður komið næturfrost.

Auður Elín fór í þriggja mánaða bólusetningu í vikunni. Nóttina eftir var hún voða óróleg og svaf lítið. Þetta er nú eiginlega bara í fyrsta skipti frá því hún fæddist sem hún sefur ekki á nóttinni. Hún hefur svo verið hálf lítil í sér. En það er nú víst mjög eðlilegt. Hjúkrunarkonan kemur svo á morgun og erum við mjög spennt að heyra hvað hún hefur stækkað mikið síðan síðast. Sveppasýkingin í munninum er að verða betri svo henni gengur betur að borða. Sem betur fer.  

Þetta er nú það sem við munum eftir að sinni.

kveðja frá klósettlausa húsinu

Gummi, Ragga og Auður Elín


Nýjar myndir

Kæru bloggvinir

þá er bóndinn búinn að setja inn nýjar myndir. Myndir af húsinu undir albúmi sem heitir september 2009 og myndir af Auði Elínu undir albúmi sem heitir Auður Elín september 2009.

kveðja frá Tiset


Sumarið komið aftur

Kæru bloggvinir

sumarið hefur komið aðeins aftur hérna í síðustu viku. Það er auðvitað bara fínt, kvörtum ekki yfir því.

Annars hefur vikan verið heldur viðburðalítil. Við gátum reddað peningamálunum svo baðherbergisniðurrif eru aftur komin á dagskrá. Múrarinn og félagi hans komu því aftur og skipulögðu verkið. Við stefnum á að rífa allt út næstu viku og helgi og svo geti þeir byrjað eftir næstu helgi. Þá taka þeir bæði klósett og gang í einu og setja gólfhita. Þannig að það verður spennandi. Við erum búin að ákveða að flytja bara rúmin inn í stofu og sofa þar. Það er svo kalt að sofa út í garði og líka vesen að sofa upp á lofti. Nágranni okkar sem er fluttur var svo hér í gær og bóndinn fékk lánaðan aðgang að klósetti og baði hjá honum. Það verður nú skrýtið að geta ekki farið á klósettið í sínu eigin húsi. Þýðir allavega ekki að bíða þar til maður er alveg í spreng! Bóndinn er líka búinn að redda stórum vagni til að flytja múrsteinana og ruslið. Hann er búinn að semja við karlinn á ruslahaugunum um að fá að henda þessu öllu á haugana án þess að borga fyrir það. Það eru auðvitað reglur um að ef maður er með meira en x kíló rusl, þá þarf maður að borga fyrir það á haugunum. Bóndinn er búinn að taka nokkrar myndir af stofunni og eldhúsinu, hann hendir þeim inn fljótlega. Hann tók líka nokkrar myndir af ungfrúnni á heimilinu. Frúin stefnir að því að sauma gardínur fyrir gluggana þegar við erum búin með baðherbergið og það allt. Það voru bara keyptar bráðabirgðarúllugardínur núna, af því við eigum eftir að skipta um glugga. Þegar baðherbergið er búið er kannski hægt að flytja inn hérna svona almennilega. Og hætta að flytja allt fram og aftur.

Auður Elín hefur verið eitthvað treg að borða undanfarið, en við höldum að þetta sé allt að koma núna. Hún hefur sofið í burðarrúminu sínu ofan í rimlarúminu frá því við komum heim af spítalanum. En svo var hún orðin of stór í burðarrúmið svo það varð að breyta því. Vandamálið er bara að nú sparkar hún sænginni alltaf ofan af sér og vaknar hálffrosin. En frúin dó ekki ráðalaus og klæddi barnið í íslenskan ullarbol og lagði ullarteppi undir hana og hefur það breytt heilmiklu. En hún er samt pínu kvefuð, hún lætur það þó ekki mikið á sig fá. Við vorum einmitt að pæla í því fyrir stuttu að hún grætur eiginlega aldrei, nema þegar hún er svöng. Svo ef hún grætur, og er ekki svöng, þá verðum við bara alveg hissa og vitum ekkert hvað við eigum að gera! :)Hún lá á gólfinu að leika sér um daginn og svo allt í einu þá skellti hún upp úr. Hún var búin að færa sig á teppinu og var komin í sjálfheldu. Hún hló svo aftur hjá pabba sínum í morgun. Ferlega fyndið að heyra í henni. Við fórum aftur í ungbarnasund í gær og hún var heldur rólegri, svo þetta hlýtur allt að koma.

Kveðja frá Tiset

Familien


Haustveður

Kæru bloggvinir

hér hefur verið hálfgert skítaveður undanfarið, rignt eldi og brennisteini og verið rok og skítakuldi. En það er víst bara komið haust. Frúin hefur nú verið treg að viðurkenna að hún þurfi að fara að vera í sokkum, en það er víst ekki hægt að komast hjá því mikið lengur.

Við höfum verið að gera ýmislegt smálegt í eldhúsinu og stofunni, það vantaði að setja upp ljós og gardínur og það er búið að því núna. Allt annað líf. Við fórum og keyptum ljós í eldhús og stofu. Frúin hefur nú aldrei keypt ný ljós á öllum þeim stöðum sem hún hefur búið, svo þetta var ansi stórt skref í lífi hennar:) Nú er bara eitthvað smotterí eftir og þá er stofan og eldhúsið tilbúið. Við erum enn að vinna í að fá pening til að laga baðherbergið, við vonum að það heppnist svo við getum drifið í þessu. En þetta kemur í ljós mjög fljótlega. Við þurftum líka að klæða loftið í herberginu þar sem brenniofninn er. Það verður að hafa gifsplötir í loftinu, eitthvað út af eldvörnum. Svo þurfum við að setja stiga upp á þakið svo skorsteinsfægjarinn komist til að hreinsa skorsteininn. Áður fyrr sáu þeir um það sjálfir að koma með stiga, en svo var ákveðið að það væri allt of erfitt og slítandi fyrir þá að bera stiga, svo nú þurfa húseigendur að skaffa stiga upp á þakið. Okkur finnst þetta nú pínu fyndið. En ennþá fyndnara að í vikunni var bréf á ruslatunnunni okkar. Þar stóð að framvegis yrðum við að snúa ruslatunnunum öðruvísi, svo það væri auðveldara fyrir ruslamennina að taka þær. Það væri nú ekki mikið vandamál ef þeir gengju frá tunnunum þegar þeir væru búnir að tæma þær. Þeir skilja tunnurnar alltaf eftir mitt í innkeyrslunni, svo bóndinn þarf að færa þær, svo hann geti keyrt inn í innkeyrsluna. En skítt með það við verðum bara að gera eins og okkur er sagt.

Frúín fór með Auði Elínu til læknis í vikunni þar sem hún var ennþá eitthvað pirruð í munninum. Hún vildi meina að hún væri enn með sveppasýkingu í munninum, svo hún fékk lyf með heim og þetta er nú eitthvað að lagast, sem betur fer. Hún fór með foreldrum sínum í ungbarnasund í gær. Hún var nú hálf skelkuð yfir öllu þessu fólki og nýju umhverfi. En við vorum nú ekki lengi. Auður svaf svo mest allan daginn. Þær sem stjórna þessu segja að það sé mjög eðlilegt að börnin séu uppgefin eftir sundið. En það verður spennandi að sjá hvernig þetta þróast. Þetta er á hverjum laugardegi í klukkutíma. Sundlaugin er extra heit og öll aðstaða mjög góð.

látum þetta gott heita í bili

kveðja

Gummi, Ragga og Auður Elín


Andleysi

Kæru bloggvinir

hér hefur ríkt ótrúlegt andleysi síðustu vikuna. Við höfum bókstaflega ekki nennt neinu. En þetta gæti nú líka verið spennufall eftir sumarið. Það hefur verið ansi haustlegt hér undanfarið, svo sumarið er sennilega búið. Það er samt ennþá ca. 16 gráðu hiti á daginn. Það er bara svo mikil viðbrigði af því það hefur verið svo heitt undanfarið. En við hljótum að venjast þessu.

Múrarinn er búinn að gera tilboð í baðherbergið og það er allt of dýrt svo við verðum að reyna að finna út hvað við getum skorið niður. Við getum ekki byrjað og svo ekki klárað af því við erum bara með eitt baðherbergi. Frekar leiðilegt að pissa í garðinn þegar það er kominn vetur! En við sjáum hvað setur. Hann ætlaði að koma við einhvern daginn svo við verðum að reyna að semja við hann. Þannig að það er allt í biðstöðu núna.

Hjúkrunarkonan kom á mánudaginn og leist voða vel á Auði Elínu. Hún er orðin 6450 gr og 61 cm. Það er víst mjög gott fyrir 10 vikna dömu. Hún hefur annars verið eitthvað óhress þessa vikuna. Hún varð alveg brjáluð þegar hún átti að drekka pelann. Bara rétt í byrjun, en svo allt í lagi. Fyrst var það bara á morgnana en svo var það alltaf þegar hún átti að drekka. Við ætluðum að fara með hana til læknis, en svo í gær var hún alveg eðlileg aftur. Furðulegt, við vitum ekkert hvað hefur verið að angra hana, en erum allavega voða fegin að hún er farin að borða eðlilega aftur. Við erum búin að vera í smá basli við að fá nafnið hennar skrifað rétt á sjúkrasamlagsskirteinið hennar. Þeir eru búnir að senda okkur tvö, hvorugt skrifað með íslenskum stöfum. Ég hringdi í sveitafélagið og konan sem ég talaði við hélt að það væri bara ekkert hægt að skrifa íslenska stafi. En ég benti henni nú á að bæði ég og bóndinn erum með okkar nöfn skrifuð rétt. Svo nú held ég við förum bara niður á skrifstofuna sem sér um þetta og reynum að fá þetta á hreint.

Frúin er búin að fá réttindi til að starfa sem sjálfstæður sálfræðingur. Þetta er nú búið að taka töluvert lengri tíma en hún ætlaði og verið óttalegt vesen með pappíra fram og tilbaka. En svo kom þetta loksins í vikunni. En frúin reiknar nú ekki með að verða sjálfstæð strax. Það er ansi dýrt að opna stofu og ótryggar tekjur til að byrja með. En aldrei að segja aldrei.

Jæja látum þetta nægja í bili

kveðja

Tisetgengið


Hótelvertíðinni lokið

Kæru bloggvinir

þá er hótelvertíðinni lokið hér í Tiset, allavega í bili. Tengdó fór heim í nótt, svo það er ansi tómlegt hérna núna. Við höfum ekki verið ein hérna síðan í byrjun júní, svo það eru töluverð viðbrigði. Við eigum nú sennilega eftir að finna út úr þessu. En erum voðalega andlaus í dag allavega.

Annars er allt voða rólegt hérna á bænum. Við erum að bíða eftir að fá tilboð í baðherbergið frá pípulagningarmanni. Við vonum að það fari eitthvað að gerast í því. Hann kom við hérna á föstudaginn og kíkti á þetta. Svo ætlar múrarinn að hjálpa til líka. Vonandi að hann verði minna geðvondur yfir því en eldhúsinu.

Auður Elín stækkar og stækkar. Hún er farin að vera meira vakandi og talar meira og meira. Við erum alltaf að reyna að ná því á video þegar hún er að tala, en hún steinhættir alltaf þegar við setjum vélina í gang, hún er sennilega haldin myndavélafælni eins og mamma sín. Hjúkrunarkonan kemur á morgun og erum við voða spennt að heyra hvað hún hefur þyngst og stækkað mikið. Á þriðjudaginn ætlar frúin svo að fara með dömuna á einhvern fyrirlestur um ungabörn og tónlist. Það verður spennandi að sjá. Hún er allavega voða músikölsk. Hún hefur horft alveg dolfallin á ömmu sína þegar hún hefur verið að raula fyrir hana. Við fengum líka geisladisk með barnalögum um daginn, og hún steinsofnar þegar hún hlustar á það.

Það var grillpartý í Tiset hér á föstudaginn og við mættum að sjálfsögðu. Auður Elín vakti gríðarlega athygli. Fæstir treystu sér nú til að segja Auðar nafnið. En þeir geta nú alveg sagt Elín. Þeir halda bara að af því hún er íslensk þá heiti hún einhverju undarlegu nafni sem þeir geti alls ekki sagt. Jótarnir eru ekki mikið fyrir að prófa nýja hluti, svo við tökum þessu bara með bros á vör. Þeir þora líka frekar að prófa að segja Auður eftir nokkra bjóra. Svo sennilega eru þeir bara svona spéhræddir. Sálfræðingurinn mætti í bláum hippabuxum og grillaði sér bjúga. Það er flutt nýtt fólk í bæinn. Þetta er ungt þýskt par sem gengur um í svörtum síðum fötum og málar sig svart í kringum augun. Þannig að við erum ekki lengur undarlegasta fólkið í bænum.

Jæja látum þetta nægja að sinni

kveðja

Tisetgengið


Nýjar myndir

Kæru bloggvinir

þá er bóndinn búin að skella inn nokkrum myndum úr skírninni. Endilega kíkið á þær

kveðja

Tisetfjölskyldan


Þá fékk litla skutlan loksins nafn

Kæru bloggvinir

Hér hefur verið mikið að gera síðustu viku við að undirbúa skírn ungfrúarinnar. Presturinn kom hér á mánudaginn og við ákváðum hvaða sálma ætti að syngja og svoleiðis. Hann var voða almennilegur. Er víst voða vel liðinn hér í sveitinni. Við áttum von á að þetta væri einhver gamall karl, en þetta er nú bara maður á besta aldri. Skírnin fór svo fram í kirkjunni í Gram, sem er næsti stóri bær við okkur, (þar sem Gram frystikisturnar voru einu sinni framleiddar). Þetta var gert í miðri sunnudagsmessu og full kirkja af fólki. Það er víst oft 50-60 manns í kirkju hér á sunnudögum. Svolítið betri kirkjusókn en heima á Íslandi. Stúlkan var algjörlega til fyrirmyndar og svaf allan tímann í kirkjunni. Líka meðan presturinn aus vatni á hana. Það er voða mikið mál hér í Danaveldi að fá að taka myndir í kirkjum. Það er eiginlega alveg bannað. En við vorum búin að spyrja prestinn og hann sagði það væri í lagi. Hann var svo eitthvað að draga það í land í dag og var eitthvað voða hræddur við að einhver myndi klaga ef við tækjum video. En Gummi lét ekki segjast og fékk að taka upp sjálfa skírnina. En það er enginn sem getur sagt hvers vegna maður má ekki taka myndir, það er bara bannað. Alveg ótrúlega hallærislegt. En daman fékk nafnið Auður Elín. Auðar nafnið var nú ákveðið fyrir löngu, enda nærtækt fyrir frúnna og ekki dónalegir íslenskir skörungar sem hafa borið þetta nafn. Við vorum svo að velta fyrir okkur hvort hún ætti að heita Elín eða Anna að millinafni, en enduðum á Elínu, okkur finnst það passa betur við hana. Það er voða skrýtið að mega segja nafnið upphátt. Við erum búin að vera tilbúin með nafnið síðan á fæðingardeildinni, en vildum ekki opinbera það fyrr en í kirkjunni. Það verður spennandi að heyra danina spreyta sig á Auðar nafninu. Við erum nú búin að sanna að þeir geta alveg sagt það, en þurfa að æfa sig svolítið. Þeir eru heldur ekki alveg að fatta að Elín er millinafn, ekki eftirnafn. En þetta hlýtur allt að hafast. Við héldum svo smá kaffiboð heima í Tiset eftir messuna. Við áttum frábæran dag með góðu fólki. Veðrið var frábært. Þeir voru búnir að spá svaka rigningu og eldingum, en sólin skein og það var fínt veður. Það eru ansi lúnir en ánægðir foreldrar sem fara í bólið í kvöld.

Við vorum svo bjartsýn að við fórum ekki að gá að kjól á dömuna fyrr en í gær. Héldum að það gæti nú ekki verið erfitt að fá sparikjól á svona skvísu. En þar skjátlaðist okkur. Það er nefnilega ekki rétti tíminn til að kaupa sparikjóla núna, bara sumarkjóla. En við fundum mjög sætan bleikan kjól og Auður var bara mjög fín.

Við eigum von á síðustu hurðinni á eldhúsinnréttinguna á morgun, vonum að það standist, svo það sé hægt að klára þetta. Eldhúsið er orðið voða fínt og maður skilur ekki hvernig við gátum lifað með þetta eins og þetta var.

Það er hálf tómlegt hérna núna, við urðum að láta lóga hundinum á föstudaginn. Bæði var hann orðinn gamall og svo var hann komin með hjartavandamál og blöðruhálsvandamál. Svo það var lítið annað að gera en að láta hann fara. Það er voða skrýtið að hafa engan hund, enda búin að hafa hann í rúm 7 ár.

kveðja frá Tiset

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband