Færsluflokkur: Bloggar
10.8.2009 | 12:01
Hótel Tiset
Kæru bloggvinir
það hefur verið svo mikið að gera á Hótel Tiset síðustu daga að við höfum einfaldlega ekki haft tíma til að skrifa blogg og biðjumst við innilega velvirðingar á þessu. Hildur og Tóti komu á fimmtudagskvöldið og fóru í morgun og Helga Rut fór heim á laugardaginn, svo þetta er alveg eins og á hóteli, einhver bókar sig inn og annar út. En þjónustan er sennilega örlítið betri á hótelum. En það er alltaf frábært að fá gesti að heiman. Við erum búin að fá svo mikið af fötum fyrir litlu dömuna að við þurfum örugglega ekki að kaupa neitt nema eitthvað smáræði. Svo ástarþakkir fyrir það.
Við vorum búin að láta okkur dreyma um að koma heim í lok ágúst og vera við brúðkaupið hans Enoks, og skíra þá dömuna í leiðinni. En við sjáum ekki framá að fjárhagurinn leyfi það, svo við erum búin að panta skírn fyrir hana á sunnudaginn næstkomandi. Ákváðum að drífa bara í þessu meðan tengdó væri hérna. Við erum búin að senda nafnið til sveitafélagsins, þeir þurfa nefnilega að samþykkja nafnið áður en hún er skírð. Okkur skildist að nafnið sjálft væri í lagi, en þeir þurfa eitthvað að væflast með föðurnafnið. Svo nú bíðum við spennt eftir að heyra hvort við getum skírt á sunnudag. Presturinn taldi allavega ekkert því til fyrirstöðu, ef við fengjum grænt ljós á föðurnafnið. Við vitum nú ekki alveg hvað vandamálið er. Hann taldi allavega að það giltu íslensk nafnalög fyrir börn skírð í Danmörku. Við vitum heldur ekki alveg hvaða föðurnafn hún ætti að hafa ef ekki nafnið hans Gumma. En svona er þetta bara. Hún lætur þetta annars ekkert á sig fá og stækkar bara og stækkar. Hún er voða róleg og ljúf og meðfærileg. Mamman heldur auðvitað hún hafi það frá sér! :)
Múrarinn er búinn að vera hér að setja upp eldhússkápa. Nú vantar bara hurð á annan háskápinn. Það kom í ljós þegar þeir voru búnir að setja upp tvo skápa að þetta nýja sem við keyptum í viðbót leit ekki alveg eins út og þetta gamla. Nýju skáparnir eru pínu ljósari, en það var ekki hægt að skila því þegar þeir voru búnir að setja þetta upp. Svo þetta verður að vera pínu litförótt. Það kom líka í ljós að skápurinn fyrir ísskápinn var of mjór, en múrarinn reddaði því. Frúnni hlakkar ofsalega til að geta sett allt eldhúsdótið í skápa og losnað við gamla skápræksnið sem við höfum notast við. Hún er búin að ákveða að henda því sem kemst ekki í skápana. Það getur ekki verið svo merkilegt. Það er orðið verulega pirrandi að vera með allt eldhúsdótið út um hvippinn og hvappinn.
Það er búið að breyta helling í vinnunni hjá Gumma. Hann sækir allt aðra krakka núna, en fyrir frí og hefur öðruvísi vinnudag. Hann þurfti líka að skipta um vinnubíl. Hann var búinn að leggja mikið á sig við að halda hinum hreinum og fínum, en fékk í staðinn einhvern grútdrullugan og ógeðslegan. Hann var nú frekar ósáttur við það. En það þýðir ábyggilega ekki að segja neitt af því sá sem var svona mikill sóði er farinn á eftirlaun. Bara frekar pirrandi.
Í gær fórum við svo í skírnarveislu í Kollund. Litla daman þar var skírð Karlotta Ósk. Þau lentu ekki í neinum vandræðum með að feðra barnið, svo við erum greinilega bara svona skrýtin. Þetta virðist vera mjög mismunandi eftir stöðum hvernig ferlið er þegar börn eru skírð. Það væri auðvitað auðveldara ef það væri samræmi í þessu.
Það er búið að vera svo heitt hérna síðustu daga að maður hefur orðið sveittur af að hugsa. En í dag er sem betur fer aðeins svalara. Það getur nú líka orðið of heitt.
Jæja látum þetta nægja í bili
kveðja
Starfsfólk hótel Tiset
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.8.2009 | 15:35
Fríið búið
Kæru bloggvinir
Þá er komið að því, bóndinn fer að vinna á morgun eftir 5 vikna frí. Þetta verða ansi mikil viðbrigði bæði fyrir hann og okkur hérna heima. Hann vinnur næstu viku í bænum sem hann var að vinna áður en við fluttum hingað. Svo byrjar hann að keyra fötluðu börnin aftur eftir það. Þannig að næstu viku þarf hann að keyra klukkutíma til að komast í vinnuna. Ekkert sérstaklega spennandi. En það verður gaman fyrir hann að hitta gömlu vinnufélagana, ef þeir eru ekki allir hættir.
Dóttirin dafnar vel. Hjúkrunarkonan kom og kíkti á hana í vikunni. Henni leist ofsa vel á hana. Enda daman komin með góða undirhöku og góðar fellingar. Hún er orðin 5250 gr og liggur fyrir ofan meðallag á danskan mælikvarða allavega. Hún er farin að halda höfði meira og meira og spjallar og brosir eins og hún fái borgað fyrir það. Foreldrunum auðvitað til mikillar ánægju. Hún virðist eitthvað vera að róast aftur. Ekki svona óróleg eins og hún var. Við fengum einhverja magadropa handa henni og þeir virðast slá á verstu krampana á kvöldin.
Annars höfum við bara verið að slappa af í vikunni. Bóndinn hefur verið að klára ýmislegt smálegt í eldhúsinu. Við fengum skápana frá IKEA á mánudaginn, en þeir sendu okkur vitlausa skápa, svo bóndinn renndi með þetta til Árósa og fékk rétta skápa í staðinn. Það vantar svo bara eina hurð, sem þeir verða að senda okkur seinna. Það var auðvitað sama geðveikin og vanalega í IKEA, en bóndinn var kominn tímanlega, svo þetta hafðist allt á mettíma. Frúin var heima með þá stuttu, enda ekki hægt að leggja svona ferð á hana aftur.
Í nótt kom svo tengdó í heimsókn og ætlar að vera í 3 vikur, svo það er nóg að gera á hótelinu. Hún kom auðvitað færandi hendi með góðar gjafir.
Við erum að vonast eftir að múrarinn komi og hjálpi okkur að setja upp eldhússkápana. Hann er nú ekkert sérstaklega hrifin af að setja saman IKEA eldhús, en við sjáum til. Hann hlýtur að vilja fá peninga allavega. Hann er búinn að setja nýja útidyrahurð, svo núna líta gluggarnir bara enn verr út. En svona er þetta, maður lagar eitt og eitthvað annað stingur í stúf í staðinn.
Við þurfum svo að fara að taka nýjar myndir af prinsessunni, hún breytist voða mikið þessa dagana.
Nóg í bili
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.7.2009 | 15:04
Þroskastökk dótturinnar
Kæru bloggvinir
Þá er farið að sjást til sólar hér aftur eftir nokkuð rysjótta tíð.
Hér hefur bóndinn verið að ganga frá ýmsu smálegu í eldhúsinu. Það er voða mikill munur að klára þetta. Frúnni finnst nú frekar erfitt að geta ekki hjálpað til eins og áður, en það breytist eins og svo margt annað þegar maður er með lítið barn á heimilinu. En hún er svo mikill gleðigjafi að hitt er bara aukaatriði. Sú stutta hefur annars verið ansi óróleg síðustu vikuna. Ekki viljað sofa og verið svo alveg útkeyrð á kvöldin. Hún hefur samt sofið vel allar nætur. Hún hefur borðað nánast stanslaust og svo hefur hún oft ælt á eftir. Hún hefur verið voða eirðarlaus og átt erfitt með að slaka á. Við höfum rætt við reyndar mæður sem hafa sagt að þetta sé nú líklega þroskastökk. Þegar við spáum í því, þá hefur hún líka þroskast ansi mikið á stuttum tíma. Hún er mikið meira vakandi og athugul. Horfir meira á dót sem hangir fyrir ofan hana og framan. Hún brosir líka orðið allan hringinn oft á dag, svo foreldrarnir eru alveg að bráðna. Hún virðist nú eitthvað vera að jafna sig á þessu núna, er allavega rólegri í dag en hún hefur verið.
Múrarinn mætti á mánudaginn, og setti útidyrahurð í. Hann hefur að eigin sögn haft voða mikið að gera. Það er rosa munur að vera komin með almennilega hurð. Við reiknum með að restin af eldhúsinnréttingunni komi á morgun og við vonum að hann fáist til að hjálpa við að setja hana upp. Við reiknum svo með að geta farið í að rústa baðherberginu í byrjun september. Við verðum að flytja út úr húsinu meðan það er gert, því það verður svo mikið múrryk og viðbjóður. En hér er nú oftast mjög hlýtt fram í október, svo það ætti að vera lítið mál að búa í skúrvagni úti í garði.
Formaðurinn í íþróttafélaginu og konan hans komu við hér eitt kvöldið í vikunni. Hún er dagmamma hér í bænum og við lögðum að sjálfsögðu inn pöntun fyrir litla stýrið. Gott að hafa þetta bara svona í túnfætinum. En það er nú ekki víst hún hafi pláss þegar að því kemur, en sveitafélaginu er skylt að finna pössun fyrir börnin. Svo ef hún er ekki með pláss, þá fáum við eitthvað annað hér í nágrenninu. Þau voru einmitt að hlægja að því að þau eru búin að búa hérna í bænum í 19 ár og eru enn álitin aðflutt. Svo við eigum ansi langt í land með að verða alvöru Tisetingar.
Við erum búin að setja inn nokkur myndbönd af ungfrúnni inn á aðra síðu. Síðan heitir youtube.com og þið sláið inn gje1965 í search gluggann, þá kemur upp listi af þeim myndböndum sem við höfum sett inn. Það væri gaman að fá viðbrögð við þeim hér inn á þessa síðu.
Kveðja úr sveitinni
Ragga, Gummi, Helga og óskírð
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.7.2009 | 13:16
Týndi múrarinn
Kæru bloggvinir
jæja þá er vikan liðin enn einu sinni. Ótrúlegt hvað tíminn flýgur áfram. Litla skvísan orðin 4 vikna. Alveg ótrúlegt. Hún hefur verið pínu óvær á daginn og vill ekki sofa svo mikið. En hún sefur vel á nóttinni svo við getum ekkert kvartað. Hún er farin að liggja á teppi á gólfinu og leika með dót. Það finnst henni mjög skemmtilegt. Hún fór til læknis í 5 vikna skoðun á föstudaginn. Læknirinn var að fara í frí svo hún kíkti á hana þótt hún væri bara 4 vikna. Henni leist bara vel á hana. Læknirinn okkar er reyndar oft svolítið stressuð, svo hún virkar stundum svolítið truntuleg. En hún gerir hlutina mjög vel og er mjög athugul, svo við erum bara nokkuð ánægð með þetta. Litla skvísan var nývöknuð þegar við fórum til læknisins, svo hún var voða róleg. Eiginlega einum of. Hún sýndi ekkert af hæfileikum sínum. Hún heldur til dæmis oft höfði og flytur sig úr stað á skiptiborðinu. Pabbi hennar æfir hana á hverjum degi í svoleiðis leikfimi. Hún er svo búin að fá einhverja sveppasýkingu á tunguna. En við erum búin að fá einhver lyf við því. Hún á pínu erfitt með að drekka, en annars er hún víst ekki mjög þjökuð af því. Þetta er víst mjög algengt hjá smábörnum. Við erum búin að gera nokkrar tilraunir til að gefa henni snuð, en hún vill ekki sjá það. Spýtir því bara út úr sér og setur upp vandlætingarsvip. Svo hún verður sennilega ekkert snuddubarn. Lumar einhver á góðum ráðum til að kenna börnum að nota snuddu? Hún hefur mikla sogþörf svo það væri mjög gott að hún gæti notað snuð til að hughreysta sig.
Múrarinn okkar hefur ekkert sést þessa vikuna. Hann sagðist ætla að koma á mánudag, en kom ekki og lét ekkert vita. Þetta er eitthvað nýtt. Hann hefur alltaf staðið við allt sem hann hefur sagt. VIð höfum grun um að hann sé lagstur í einhverja bleytu. Það er stundum pínu svoleiðis lykt af honum. En hann hringdi svo á miðvikudaginn og kom við í dag. Hann segist ætla að setja hurðina í á morgun, svo nú sjáum við til. Hann fékk borgað helling í dag, svo hann ætti að vera ánægður. Við höfum eiginlega verið stopp í framkvæmdum þar sem hann hefur ekkert komið. En nú vonum við að það komist gangur í þetta aftur.
Við renndum til Árósa í vikunni í IKEA. Við vorum komin nokkuð snemma, en auðvitað var allt fullt út úr dyrum. Enda er IKEA einn vinsælasti skemmtigarður í Danmörku. Við héldum að þetta tæki nú ekki langan tíma, af því við þurfum bara að panta 2 háskápa og tvo lága. En nei. Þetta tók heila eilífð og við vorum send fram og til baka. Við vorum þarna inni í 5 tíma en enduðum allavega á að fá þetta sem okkur vantaði. Eða það verður sent til okkar í næstu viku. Fjölskyldan var orðin vel pirruð, fyrir utan litlu dömuna, hún svaf bara í gegnum þetta. Henni var gefið brjóst á miðjum gangi. Það er mjög viðkvæmt mál í Danmörku að gefa brjóst á almannafæri, svo frúin reyndi nú að skýla sér bak við kallinn, vonum allavega að enginn hafi fengið hjartaáfall.
Nágranni okkar, sem er sonur hjónanna sem við keyptum húsið af er að fara að flytja. Hann hefur aldrei búið annars staðar en hér í götunni, svo þetta verða nú viðbrigði fyrir hann. Við höfum líka fengið góða hjálp frá honum. Svo nú verðum við bara að fara að bjarga okkur sjálf.
Jæja ætli þetta sé ekki orðið nokkuð gott í bili. Ef það eru einhverjir sem lesa þetta blogg, þá væri nú indælt ef þið sæuð ykkur fært að hripa niður eins og eina línu, svo við sjáum hvort einhver lesi þetta.
Kær kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.7.2009 | 17:57
Rigning og skítaveður
Kæru bloggvinir
þá er aldeilis búið að breytast veðrið. Íslendingar búnir að fá góða veðrið og við búin að fá rigningu í staðinn. Og það er engin uppstytta í bráð.
Við höfum annars verið á voða miklu flakki alla vikuna. Það hefur þurft að útrétta ýmislegt. Við þurftum að finna útidyrahurð og enduðum á að kaupa hana í Þýskalandi. Það var helmingi ódýrara en í Danmörku. Við vonum bara að það verði ekki mikið mál að koma henni í. Múrarinn okkar ætlar að gera það. Hann hefur annars verið í fríi eftir að hann hrundi í gegnum hurðina hjá okkur. En hann ætlar að koma á morgun. Það er svolítið fyndið með hann að hann er alveg rosalega pirraður fram undir hádegi, þá þiðnar hann aðeins. Það fæst varla orð upp úr honum fyrir þann tíma. En svo er hann mjög hress. Ungfrúin hefur verið með okkur á þvælingi og hefur haft gaman að. Hún steinsefur alltaf í bílnum, svo það er ekkert mál að hafa hana með. Vonum bara að það haldi áfram.
Hjúkrunarkonan kom aftur á miðvikudaginn og leist mjög vel á litlu skvísuna. Hún hefur þyngst um 500 gr á einni viku og er núna 4300 gr. Svo við getum ekki verið annað en ánægð með það. Hún hefur reyndar verið eitthvað ergileg seinnipartinn þessa vikuna og tekur alltaf smá grátrispur á kvöldin. En svo sefur hún yfirleitt 5 tíma.
Við reiknum nú með að bretta upp ermarnar og halda áfram að vinna í húsinu þessa vikuna. Það hefur verið smá hlé á framkvæmdunum enda bóndinn orðinn þreyttur eftir mikla vinnu undanfarið. Svo hefur hann líka langað að njóta þess að vera með dætrum sínum, meðan hann er í fríi. Helga Rut hefur legið í lestri, hún hefur bráðum ekki meira að lesa. Enda flestar bækurnar okkar í kössum einhvers staðar í geymslu.
Við erum búin að setja inn fleiri myndir af krökkunum og hinu og þessu. Við erum líka búin að taka upp fullt af videomyndum. Bóndinn ætlaði að reyna að koma þeim á internetið. Það hefur ekki orðið úr því ennþá, en stendur til bóta.
Jæja þá er ekki fleira í fréttum hér úr rigningunni
kveðja
Gummi, Ragga, Helga og óskírð
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.7.2009 | 14:22
Elli farinn og Helga komin í staðinn
Kæru bloggvinir
hér er ennþá sól og blíða og maður heldur sig mest innandyra með blásarann á fullu. Elli Jón fer heim í dag og Helga kom í gærkvöldi. Þetta er nú í fyrsta skipti sem þau systkin eru hér í sitthvoru lagi. Enda breytist þetta allt þegar þau eru orðin svona gömul. Sú yngsta dafnar vel. Hjúkrunarkonan kom aftur á miðvikudaginn og þá hafði hún þyngst um rúm 400 gr, svo þetta er allt á réttri leið. Hún er voða ljúf. Var reyndar eitthvað leið í maganum eina nóttina í vikunni, en það hefur verið í lagi síðan, svo við vonum bara að þetta hafi verið eitthvað tilfallandi.
Feðgarnir hafa verið iðnir við tiltektir í vikunni. Þeir hafa tekið til uppi á lofti, svo það er hægt að ganga um þarna uppi núna. Þeir tóku líka til frammi á gangi. Þeir eru búnir að vera fastagestir á haugunum. Það hafa farið ansi margir kerrufarmar þangað undanfarið. En það er meiriháttar að vera búin að þessu. Næsta verkefni er svo að laga baðherbergið. Við erum búin að semja við múrarann sem hefur hjálpað okkur með stofuna og eldhúsið, að hann hjálpi til við baðherbergið líka. Það þarf að brjóta niður tvo veggi og slétta gólfið. Svo það er nóg framundan. Annars slasaðist múrarinn í vikunni. Hann var að vinna eitthvað í loftinu fram á gangi og hrundi niður af tröppunum og út í gegnum útidyrahurðina. Við vorum ekki heima, svo hann keyrði bara sjálfur til læknisins hérna rétt hjá. Hann fékk skurð í síðuna og marðist eitthvað líka. Sem betur fer var það ekki meira en það.
Bóndinn er búinn að setja inn fullt af myndum af þeirri stuttu og svo líka framkvæmdunum. Endilega kíkið á það. Það eru miklar vangaveltur um hverjum sú stutta líkist. Þetta skiptist eiginlega alveg í tvo flokka. Sumum finnst hún alveg eins og mamma sín, en öðrum alveg eins og pabbi sinn. Við látum aðra um að meta það. Okkur finnst hún voða blönduð og svo breytist hún líka mjög hratt.
Jæja þá eru víst fréttabrunnarnir þornaðir í bili
kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2009 | 21:58
Nýjar myndir
Hæhæ kæru bloggvinir þá eru komnar nokkrar nýjar myndir af prinsessunni og svo eru líka síðustu bumbumyndirnar sem voru teknar 15 júni og svo að sjálfsögðu nýjustu myndirnar af framkvæmdunum .
Kveðja frá Tiset.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.6.2009 | 19:14
Sól og blíða
Kæru bloggvinir
þá er litla daman orðin 10 daga gömul og dafnar vel. Hún fær ennþá bæði brjóst og þurrmjólk og er mjög vær þegar hún er södd. Það kom hjúkrunarkona hér heim til okkar í vikunni og leist bara vel á hana. Hún hafði lést pínu eftir við komum heim en ekkert óeðlilega mikið. Hún ætlar svo að koma aftur í næstu viku og kíkja á hana. Annars koma þær ekki svo oft. En mjög fínt að hafa smá stuðning. Stundum efast maður nú um að maður sé að gera þetta allt rétt. Hún á svo að fara í heyrnarpróf á þriðjudaginn. Hún er búin að fara bæði út í búð og út í vagni. Hún grjótsefur í bíl og hefur það líka mjög fínt úti í vagninum. Hún þarf að þyngjast aðeins áður en hún má fara að sofa úti. Það er búið að vera rosa gott veður og við erum búin að setja upp sundlaug í garðinum.
Bóndinn er kominn í 5 vikna frí. Það á eitthvað að reyna að taka meira til hér í húsinu. Um að gera að nýta sér vinnukraftinn. Svo er nú um að gera að nýta sér blíðuna. Það spáir svona góðu veðri áfram. Múrarinn kemur á morgun og klárar að ganga frá í eldhúsinu. Svo vantar okkur bara rafvirkjann til að tengja eldavélina og uppþvottavélina. Við erum búin að fá aðra eldavélahellu, sem vonandi passar við ofninn sem við fengum. Þetta var ægilegt vesen. En hafðist á endanum.
Bóndinn er búinn að taka fullt af myndum og video, en ekki búin að koma því inn á síðuna. Þetta stendur allt til bóta. Hann hlýtur að fá smá tíma aflögu núna þegar hann er kominn í frí. Við erum að velta fyrir okkur nöfnum á yngsta fjölskyldumeðliminn. Við erum líka að pæla í hvort við eigum að nefna hana eða bíða með að segja nafnið þar til hún verður skírð. En allavega þið fáið örugglega að vita meira þegar þetta er komið á hreint.
Jæja þetta er víst allt og sumt þessa vikuna
kveðja frá stórfjölskyldunni í Tiset
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2009 | 20:34
Prinsessan komin heim
Kæru bloggvinir
þá er sú stutta komin heim til Tiset. Við komum heim seinnipartinn í gær. Frúnni fannst alveg eins gott að koma heim eins og að vera á spítalanum. Hér heima er allavega einhver til að hjálpa ef eitthvað er að. Starfsfólkið á sjúkrahúsinu hafði ekki mikinn tíma, svo maður fékk ekki mikla aðstoð. Daman hefur verið pínu óvær, en ástæðan er sennilega að frúin mjólkar ekki nóg ennþá. Við höfum því gefið henni smá þurrmjólk með og við það hefur barnið róast mikið. Þær voru búnar að segja á sjúkrahúsinu að maður ætti alls ekki að gefa henni þurrmjólk. En okkur finnst betra að barnið sé ekki svangt. Svo hún fær bara bæði brjóst og smá þurrmjólk. Hún er voða róleg þegar hún er södd og sefur vel. Allavega ennþá. Við vonum að það haldi bara áfram. Fæðingin gekk vel. Frúin fór í baðkar til að lina hríðarnar. En svo gekk þetta allt svo hratt undir það síðasta að hún náði ekki upp úr karinu. En það er nú örugglega ekkert slæmt fyrir barnið að fæðast í vatni. Það eru komnar einhverjar myndir af dömunni hér inn á bloggið og við verðum að fara að setja myndir af stofunni og eldhúsinu. Bóndinn hefur bara ekki haft tíma. Hann hefur haft nóg að gera við að hjálpa til með þá stuttu. Enda maður með reynslu á ferðinni.
Við höfum svo verið að taka til og raða í herbergin og stofuna. Það er rosalega gaman að geta tekið aðeins til í kringum sig. Það var bara öllu troðið þar sem var pláss þegar við fluttum inn. Nú vantar bara smotterí upp á til að stofan og eldhúsið séu tilbúin. Það er rosa gaman að geta aftur setið í stofunni og horft á sjónvarpið. Maður var búin að gleyma hvað væri gott að sitja uppréttur og horfa á kassann. Enda búin að horfa á sjónvarpið úr rúminu síðan í október.
Bóndinn á rétt á að taka tvær vikur í fæðingarorlof strax eftir fæðingu. Hann ætlar samt að vinna núna næstu viku. Svo er hann kominn í 3 vikna sumarfrí og tekur 2 vikurnar í framhaldi af því. Svo okkur hlakkar bara til að geta verið heima og dundað okkur og notið þess að vera með dömunni. Við erum farin að pæla í nöfnum og eru ýmsar hugmyndir í gangi. En eitt er allavega alveg víst. Það verður eitt íslenskt og eitt nafn sem Danirnir geta sagt.
Formaðurinn í íþróttafélaginu kom í vikunni og setti tréstork í garðinn. Storkurinn heldur á dúkku í bleiu. Þetta er siður í Danmörku að setja stork í garðinn hjá nýbökuðum foreldrum. Voða sniðugt.
Jæja þá er víst komin tími á að koma þeirri stuttu í rúmið. Og foreldrarnir þurfa víst líka að fara að halla sér.
kveðja
Gummi, Ragga, óskírð og Elli
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.6.2009 | 19:24
Óskýrð Guðmundsdóttir
Hæhæ kæru bloggvinir þá er lítil prinsessa fædd á Haderslev sygehus 18 júní kl: 00:27 15 merkur og 52 cm. Frúnni og litlu heilsast bara mjög vel. Það eru komnar nýjar myndir af prinsessuni. Meira síðar.
Kveðja frá Tiset.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)