Færsluflokkur: Bloggar
14.6.2009 | 18:24
Ekkert bólar á barninu
Kæru bloggvinir
Þá er einn dagur í settan fæðingardag og ekkert bólar á barninu. Enda er ábyggilega fínt að vera bara inn í bumbunni. Það er búið að vera mikið um veislur um helgina. Í gær fórum við til Kolding í skírnarveislu. Þegar við komum varð okkur ljóst að veislan átti að vera í dag. En þar sem við vorum mætt á svæðið varð ekki aftur snúið. Í dag var svo afmælisveisla í Kollund, Rebekka Rut hélt upp á tveggja ára afmælið sitt. Við fengum að venju góðar veitingar og nutum góða veðursins. Við erum annars búin að vera að setja saman eldhúsinnréttinguna. Þetta vafðist nú eitthvað fyrir okkur á köflum, en með lagni hafðist þetta nú. Við vonumst svo til að fá hjálp til að setja hana upp á morgun eða hinn. Það verður algjör draumur að fá eldhús aftur. Við tökum bara myndir þegar þetta er allt komið.
Við fengum rafvirkja til að leggja nýtt rafmagn í gamla hlutann af húsinu og skipta um rafmagnstöflu. Það var mikill léttir að fá það gert. Aldrei sniðugt að vera með rafmagn sem getur klikkað hvenær sem er. Svo nú ætti þetta allt að vera komið inn í nútímann. Það á eftir að taka smá tíma að venjast því að það séu tenglar út um allt. Það var bara einn tengill í stofunni og einn í eldhúsinu áður. Maður á örugglega ekki heldur eftir að muna að slökkva ljósin! Það er allt í lagi með rafmagnið í nýja hlutanum af húsinu, svo þar þarf ekkert að gera.
Það er búið að setja saman barnarúmið og gera mest allt klárt. Það þarf að ryðja út úr svefnherberginu til að koma því fyrir hér inni. En það hlýtur að leysast. Það verður allavega rosa gott að að losna við sjónvarpið úr svefnherberginu og geta farið að nota stofuna aftur. Okkur vantar gólf- og loftlista, annars er stofan tilbúin. Við þurfum líka að sækja sófana í geymslu. En þetta kemur allt saman með kalda vatninu. Maður vill auðvitað helst að þetta sé bara tilbúið, helst í gær.
Flakkkisan okkar hefur ekki sést í heila viku. Það var kona sem sagði að maðurinn hennar hefði fundið kött sem líktist okkar sem var búið að keyra á. Hann fór með hana út í skóg og gróf hana. Svo sennilega er hún farin á vit feðra sinna.
Jæja það er víst lítið annað að frétta héðan úr sveitinni
kveðja
Ragga, Gummi og Elli litli :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.6.2009 | 17:46
Bæjarhátíð í Tiset
Kæru bloggvinir
jæja þá er best að standa sig í að skrifa á réttum tíma þessa vikuna. Bóndinn hefur haft brjálað að gera. Það hefur verið mikið að gera í vinnunni og svo hefur hann verið á fundum alla vikuna að undirbúa bæjarhátíðina í Tiset. Hún byrjaði svo á fimmtudaginn. Við höfum verið viðloðandi þarna flesta daga að hjálpa smá til. Það hefur verið gert ýmislegt skemmtilegt. Á föstudaginn var fínn matur og mjög vel mætt og svo var hljómsveit sem spilaði fyrir dansi. Á laugardaginn var svo fírað upp í grillum og allir gátu komið og grillað sinn mat. Það var reyndar mjög illa mætt í það. Yfir daginn var svo keppt í fótbolta og ýmsu öðru. Þannig að það hefur ekki verið nein lognmolla í Tiset þessa helgina.
Elli kom á þriðjudaginn, og hefur verið duglegur að hjálpa pabba sínum. Þeir eru búnir að setja veggfóður á alla stofuna og eldhúsið og það er enginn smá munur. Við hendum kannski inn myndum fljótlega. Ef bóndinn finnur tíma til þess. Á morgun vonum við svo að það komi rafvirki og geri tilboð í að leggja nýtt rafmagn. Vonum að það verði ekki eitthvað himinhátt verð. Þannig að þetta skríður nú allt áfram þessa dagana. Það þarf að mála í stofunni þegar veggfóðrið er þornað og svo er þetta bara að verða tilbúið. Við vonum að eldhúsinnréttingin komi á miðvikudaginn, þeir voru allavega búnir að lofa því.
Frúin er að fara til ljósmóðurinnar á morgun, það ætti nú allt að ganga vel. Hún vaknaði með svo mikinn bjúg á höndunum í morgun að það þurfti nánast að klippa trúlofunarhringinn af. En bóndinn náði honum af með hjálp mikillar sápu. En þetta fylgir nú víst bara.
Frúin er búin að eignast óvin hér í Tiset. Hún fer út að labba með hundinn á hverjum degi og var búin að finna fínan hring til að labba. Mátulega langan fyrir bæði hundinn og hana. Eina vandamálið var að við þurftum að labba fram hjá húsi með tveimur geðveikt stórum hundum sem geltu og héngu á girðingunni þegar maður labbaði framhjá. Stundum kom eigandinn út og var eitthvað að reyna að halda í þá, en yfirleitt hlupu þeir bara meðfram girðingunni og geltu eins og geðsjúklingar. Í gær fór frúin svo út að labba, þennan venjulega rúnt. Að vanda komu hundarnir hlaupandi, en nú bar svo við að eigandinn kom á eftir þeim og öskraði á mig hvort ég þyrfti endilega að labba framhjá húsinu hans á hverjum degi. Og hrópaði eitthvað meira sem ég nennti ekki að hlusta á. Við fórum eitthvað að tala um þetta í gærkvöldi yfir matnum og þá eru nú fleiri sem ekki þora að ganga framhjá húsinu. Eigandinn er líka búin að hóta krökkum sem koma og banka upp á að hann sigi hundunum á þau ef þau koma. Hann býr þarna einn með mömmu sinni, sem lítur heldur ekki út fyrir að vera alveg í lagi. Þannig að nú fer frúin bara að finna sér nýja gönguleið. Enginn þörf á að æsa þennan Rambó eitthvað meira upp.
Jæja best að fara að hvíla sig
Liðið í Tiset
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.6.2009 | 09:37
Bongóblíða
Kæru bloggvinir
við biðjumst velvirðingar á því að færslan kom ekki á réttum tíma þessa vikuna. Við vorum svo dösuð eftir hitann í gær, að það var ekki séns að við hefðum orku í að skrifa neitt að viti. Við vorum úti í sólinni í mest allan gærdag með góðum gestum frá Mejrup, sem er lítill bær langt norður á Jótlandi. Frúin sólbrann hressilega, svo það er víst best að halda sig innandyra í dag. Það er brjáluð blíða í dag líka. Á laugardaginn fórum við að skjóta leirdúfur með vinnunni hjá bóndanum. Frúin vildi ekki skjóta en var látin telja stig í staðinn. Bóndinn er orðinn bitinn af skotvopnum og þótti þetta mjög skemmtilegt. Ekki spillti nú fyrir að hann fékk þriðju verðlaun fyrir skotfimi sína. Hann var vel aumur í öxlinni í gær og í dag.
Við höfum lítið getað unnið í húsinu í vikunni. Erum að bíða eftir rafvirkja og manni til að hjálpa okkur við að setja upp veggfóður. VIð getum ekki málað beint á veggina af því þeir eru svo ósléttir, en hann er búinn að lofa að koma á föstudaginn, svo þetta skríður nú allt í rétta átt. Elli Jón er væntanlegur til Danaveldis á morgun að hjálpa pabba sínum. Það verður nú ekki leiðilegt. Hann verður hér í mánuð. Helga kemur svo seinna, hún er að fara að vinna í unglingavinnunni. Enda allt í lagi að það séu ekki allir hér í einu. Við neyddumst til að kaupa nýja sláttuvél í vikunni. Það fylgdi ein með húsinu en hún hékk varla saman, og nú er bensíntankurinn dottinn af, svo það þýðir víst lítið að púkka upp á hana. Það sprettur alveg rosalega hérna núna, svo það var ekki um annað að ræða en að kaupa aðra vél. Bóndinn er að vígja hana á blettinum í dag. Fyrst þurfti nú að setja hana alla saman og ég segi ekki annað en að leiðbeiningarnar frá IKEA eru barnaleikur miðað við þessar. En þetta virðist hafa heppnast, ég heyri allavega að hún gengur.
Frúin fór í skoðun hjá ljósmóðurinni á mánudaginn og var hún bara ánægð með þetta allt saman. Hún skaut á að barnið væri um 3 kíló sem er eðlileg stærð hér í Danmörku allavega. Barnið er búið að snúa sér en ekki búið að skorða sig, svo frúin á að fara í síðasta tékk í þarnæstu viku. Svo nú eru bara tvær vikur til stefnu, það er mjög skrýtið að spá í það. Það er nú búið að skaffa flest það nauðsynlegasta, ef það vantar eitthvað, þá kemur það í ljós. Barnið hefur allavega rúm að sofa í og sæng að sofa með. Frúin er svo hagsýn að hún keypti fullorðinssæng og klippti hana i sundur og saumaði, svo hún fékk 2 ungbarnasængur og eina stærri út úr því. Já maður er seigur þó maður hafi ekki verið i húsmæðraskóla! :)
Við renndum til Horsens í vikunni og keyptum annan bíl. Bóndinn var búin að vera að skoða bíla á netinu í svolítinn tíma og fann svo einn sem við vonum að eigi eftir að endast í allavega tvö ár. Hann er nýskoðaður, Mazda 626 og frá 1993. Gæinn sem við keyptum af tók gamla bílinn okkar upp í. Hann er í einhverju bílabraski. VIð ætluðum annars að keyra hann á haugana. Maður fær nefnilega pening fyrir það. En bílakallinn borgaði jafn mikið og haugarnir, svo þá sluppum við við að keyra hann heim aftur. Það er nú pínu eftirsjá í Audinum. Þó þetta hafi nú verið gamall bíll þá var hann allavega stabíll. Það er ferlega fyndið að keyra bíl aftur með vökvastýri og öllum græjum. En þessi nýji er meira praktískur fyrir barnafjölskyldu. Við vildum heldur ekki eyða pening í að reyna að fá Audiinn skoðaðan aftur. Það hefði ekki borgað sig. Hér eru bílar skoðaðir á 2 ára fresti, svo margir skipta um bíla á tveggja ára fresti. Það er að segja þeir sem eru að kaupa gamla bíla. Nýi bíllinn ætti líka að vera töluvert sparneytnari og keyrir á ódýrara bensíni.
Jæja ætli sé ekki best að fara að athuga hvernig bóndanum gengur með sláttinn. Maður ætti kannski að færa honum kaffi og með því í slægjuna! :)
kveðja úr sólinni
Gummi og Ragga
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.5.2009 | 16:58
IKEA er martröð
Kæru bloggvinir
Jæja þá er komið að skrifum vikunnar sem eflaust margir bíða spenntir eftir! :)
Við erum nú búin að vera ansi framtakssöm í vikunni. Við renndum með alla ónýtu ofnana í endurvinnsluna og þar fær maður pening fyrir herlegheitin. Að vísu fengum við bara 45 aura fyrir kílóið og þetta voru 150 kg. En betra en að henda þessu bara á haugana. Það er svo margt svona sniðugt í Danaveldi. Við erum nú líka búin að fara ófáar ferðir á haugana. Það er ótrúlegt hvað safnast mikið af drasli hérna þegar maður stendur í svona framkvæmdum.
Á föstudaginn var svo haldið í IKEA. Við vorum nú mætt hálftíma eftir opnun, og bjuggumst við að þetta yrði nú ekki lengi gert. En neinei. Þetta er víst einn af verstu dögunum í IKEA og við biðum í 4 tíma eftir að komast að í eldhúsinnréttingaráðgjöf. Það taka sér nefnilega margir frí þennan föstudag eftir uppstigningardag, til að lengja helgina. En allt endaði þetta nú vel og við völdum fína innréttingu. Vantar reyndar nokkra skápa í viðbót, en við verðum að kaupa þetta í fleiri áföngum. Þetta kemur svo til okkar 10 júní. Það er víst brjálað að gera í eldhúsinnréttingunum hjá þeim svo það er lengri biðtími en venjulega. En við hljótum að lifa þetta af. Við gátum tengt eldavélina, svo það er allavega hægt að elda eitthvað smávegis. Svo er bara vaskað upp á klósettinu. Við erum svo sennilega búin að fá nágrannann til að hjálpa okkur með að ganga frá rafmagninu. Svo þetta lítur nú allt betur út. Í gær renndum við svo til Þýskalands eftir málningu. Þar fæst bæði ódýrari og betri málning. Við erum ekki enn búin að ákveða hvort það verður veggfóður undir, en það kemur í ljós fljótlega. Bóndinn er svo búinn að vera að hamast við að pússa veggina í dag. Frúin er hálf ónýt í þessu. Hún er allavega ekki nýtanleg í mikið annað en að rétta verkfæri og hella upp á kaffi. Þetta á nú ekki vel við hana en við þessu er ekkert að gera.
Við renndum líka til Sönderborgar í gær til að kíkja á bíl. Þetta voru íslensk hjón sem vorum að reyna að selja gamlan volvo. Það er svo sem ekki í frásögur færandi nema að konan byrjaði strax að tala um drauga og spyrja okkur undarlegra spurninga. Það var eins og hún þekkti okkur. Hún spurði meðal annars hvort barnið í maganum væri strákur númer 2. Við föttuðum nú ekki alveg hvað hún var að meina, en hún var hörð á því að þetta væri strákur. Frúnni fannst þetta nú fullmikið af því góða. Ef maður vildi vita hvort kynið þetta væri, þá væri maður nú búin að fá að vita það. Hún var líka mjög upptekin af því hvort bóndinn hefði tengsl við Grindavík. Maðurinn hennar afsakaði hana með því að hún væri miðill. Okkur fannst þetta nú meinfyndið. En bíllinn var allavega ekki neitt spennandi svo við höldum áfram að leita. En við sannfærðumst ennþá meira um að það er til mikið af sérstöku fólki.
Á morgun er svo síðasta skoðun hjá ljósmóður, það verður spennandi að vita hvað hún segir. Lækninum fannst barnið virka eitthvað svo stórt, en maður veit ekki alveg hversu mikið er að marka það. Krakkinn tekur rosa syrpur í vömbinni og kúlan er stundum alveg á fleygiferð. Maður gæti haldið að það væri heilt fótboltalið þarna inni stundum.
Jæja best að fara að skola af sér múrrykið
kveðja frá Tiset
Ragga og Gummi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.5.2009 | 08:48
Ofvirki múrarinn
Kæru bloggvinir
þá erum við komin í samband við umheiminn aftur. Vegna óviðráðanlegra orsaka tókst ekki að skrifa blogg á réttum tíma. Vonum að þið hafið ekki farið alveg í kerfi vegna þess.
Múrarinn, sem við fengum til að hjálpa okkur hefur verið algjörlega ofvirkur hér síðustu daga. Hann er búinn að setja nýtt loft í stofuna og eldhúsið og er að verða búin að leggja parket á allt gólfið. Við ætluðum nú að nota gólfið sem var fyrir, en það var svo skakkt að það var ekki vegur að fá þetta til að passa saman. Hann er líka búin að pússa veggina, svo það er ekki eins mikið ryk hérna núna, en það var komið áður, svo þetta er orðið vel ógeðslegt. Hann er búin að gera veggina svo slétta að við þurfum sennilega ekki að veggfóðra, og erum við nú mjög sátt við það. Okkur finnst ekki sérlega fallegt að hafa veggfóður og það er gott að sleppa við að setja það upp. Við erum búin að henda eldhúsinnréttingunni út, svo nú erum við eldavéla- og eldhúslaus. Það sem verra er, er að það er eitthvað rafmagnsvandamál, sem við þurfum að reyna að leysa. En allavega erum við örugglega eldavélalaus næstu 3 vikurnar og spurning hvernig við leysum rafmagnsmálin almennt. Svo við verðum sennilega bara að fara að lifa af örbylgjumat.
Við verðum svo að fara til Árósa á laugardaginn að reyna að fá eldhúsinnréttingu í IKEA. Það er bara ein IKEA búð á öllu Jótlandi, svo það er alltaf brjálað að gera. En það verður gaman að fara og velja innréttingu. Við vorum nú nokkurn veginn búin að ákveða hvernig við vildum hafa þetta, en það var áður en við stækkuðum eldhúsið. Svo nú þurfum við eiginlega að planleggja þetta allt upp á nýtt. En það er nú örugglega hægt að fá einhverja ráðgjöf, svo þetta verði nú almennilegt. Þegar við rifum gömlu innréttinguna út, kom í ljós hellingur af músaskít og ein ekki svo gömul mús, en hún var sem betur fer dauð. En það þarf að reyna að finna út hvernig þær komast inn, svo maður sé ekki með þetta inn undir öllu, nagandi í sundur leiðslur og svona.
Annars gengur lífið sinn vanagang. Sólin sem við erum búin að hafa allan apríl er greinilega farin í pásu og það hefur rignt hér í nótt. Það voru þrumur og eldingar í gær og það var víst maður á Norður-Jótlandi sem varð fyrir eldingu og dó.
Jæja man ekki meira í bili
kveðja frá drullupúkunum í Tiset
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.5.2009 | 16:29
Loksins, loksins
Kæru bloggvinir
þá er loksins komin gangur í innanhússframkvæmdir hér á nýjan leik. Múrarinn var hér miðvikudag og fimmtudag og kemur aftur á morgun. Við héldum nú að hann myndi vinna þetta bara hægt og rólega, enda á tímalaunum, en maðurinn vann þetta bara eins og hann væri í akkorði. Hann er búin að múra upp hurðagötin og viðbótina við vegginn. Við þurftum svo að leggja ný rör til að setja rafmagnskapla í. Hann fyllir svo upp í það á morgun. Þetta er maður sem var bitinn af einhverju skorkvikindi og hann er með einhverja taugaskaða í höndunum, svo hann getur ekki unnið venjulega vinnu. Suma daga er hann víst alveg frá. En við erum ekkert smá fegin að hafa dottið niður á þennan mann. VIð erum svo búin að ákveða að skipta um loftklæðninguna líka. Það á eftir að koma mikið betur út og kostar eflaust ekki meira en að mála allt loftið. Hann er tilbúin að hjálpa við það og að klára gólfið. Svo þetta lítur nú allt mun bjartara út núna en það hefur gert. En drullan og viðbjóðurinn sem fylgir þessu er engu líkur. En við erum nú svo sem orðin vön að búa í drullu. Maður kann örugglega ekkert að þrífa þegar maður þarf að fara að gera það aftur. Það væri auðvitað best að geta bara spúlað þetta eins og í fjósi, en það er nú víst ekki hægt.
Frúin fór til læknis á mánudaginn og þetta leit allt vel út. Læknirinn ætlaði nú aldrei að finna hjartsláttinn og frúin var orðin verulega stressuð, en hún var bara að leita á vitlausum stað. Barnið lá víst eitthvað undarlega. Það er nú sennilega heldur ekkert auðvelt að finna hjartslátt þegar maður sér ekki barnið. Þeir nota bara einhvers konar tæki sem nemur hljóð í gegnum magann. Frekar gamaldags.
Við erum svo búin að vera að berjast við að leggja öll þessi rafmagnsrör um helgina. Þetta er heilmikil handavinna. Svo kemur rafvirkinn og tengir þetta. Karlinn er alveg að drepast í bakinu svo hann getur ekki unnið eins hratt og hann vildi sjálfur. En við því er nú ekkert að gera. Hann er svo slæmur að hann ætlar að fara til læknis á morgun! :)Frúin er auðvitað líka handónýt í allt svona. Hún er farin að finna vel því að vera ólétt. Það þarf ekki mikið til að þreyta hana núna. Það á nú ekki vel við hana að horfa bara á, en það er víst ekki mikið annað í boði.
Bóndinn reiknar með að henda inn nokkrum myndum í vikunni, svo þið getið séð breytingarnar.
kveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.5.2009 | 12:09
Nýjar myndir
halló aftur
þá eru komnar nýjar bumbumyndir af frúnni, 34 vikur og 3 dagar. Svo eru líka einhverjar garðmyndir og myndir af kallinum.
kveðja
Gummi og Ragga
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.5.2009 | 14:00
Þakvinnu lokið
Kæru bloggvinir
fyrst viljum við nú þakka kærlega fyrir hvetjandi skilaboð frá lesendum hér á blogginu. Það er mjög gaman að heyra að þið haldið að þetta verði einhvern tíma íbúðarhæft hérna hjá okkur. Við trúum því ekki alltaf sjálf.
Þetta er annars fyrsta vika frúarinnar hérna heima. Hún hefur nú staðið sig nokkuð vel og haft nóg fyrir stafni. Við höfum verið að hreinsa veggfóður af nokkrum veggjum og það er hálfgerð negravinna. Allavega ekki neitt rosalega spennandi. Það munar voða miklu að karlinn vinnur á svona skiptum vöktum, hann fer í vinnuna kl. 6:30 á morgnana og kemur aftur heim kl. 9 og fer svo aftur um 13:00 leytið. Þetta styttir daginn allavega verulega fyrir frúnni. Svo er hann heima öll kvöld og um helgar. Það er algjör lúksus.
Bumbubúinn er farinn að vera meira ákveðinn og farinn að sparka undir rifbeinin, ekkert rosalega þægilegt sko. Frúin er að fara til læknis á morgun, vonandi verður þetta nú bara allt eins og það á að vera. Það er mjög furðulegt að hugsa til þess að eftir ca. 6 vikur þá erum við ekki lengur bara tvö hérna á heimilinu, heldur þrjú. Það verður líka spennandi að sjá hvernig húsdýrin hér bregðast við. Við héldum að annar kötturinn okkar væri farinn á vit feðra sinna. En rétt eftir að við skrifuðum síðustu færslu kom hún töltandi heim. Hún var svöng, en annars amaði ekkert að henni. Hún var ekki heima á pilludeginum (þær fá pilluna á föstudögum) svo nú bíðum við spennt eftir að sjá hvort einhver fresskötturinn hafi gert hana ólétta. Við vonum ekki. Ekkert grín að vera með kettlinga í þessu róti.
Við vorum að vonast eftir að fá múrara hér í gær, en hann afboðaði einu sinni enn og erum við orðin verulega þreytt á þessu. Bóndinn hafði spurst fyrir í íþróttafélaginu, hvort einhver þekkti múrara og það kom einn slíkur hér í morgun. Hann reiknar með að geta hafist handa í þessari viku, og við vonum bara að það standist. VIð þurfum svo að borga honum eitthvað fyrir, en hinn sem við vorum að bíða eftir, hefði gert þetta nánast frítt. En það hjálpar lítið þegar maðurinn kemur aldrei. Svo er bóndinn kannski líka búinn að finna rafvirkja, sem er komin á eftirlaun, sem kannski getur lagað rafmagnið eitthvað til, fyrir lítinn pening. Við verðum að bíða með að skipta út töflunni, en við getum allavega fengið fleiri tengla og innstungur.
Í gær fórum við á stóran dýra og flóamarkað hérna rétt hjá. Þetta er árlegur viðburður og fullt af fólki. Þarna getur maður keypt allt frá hömstrum upp í hesta og allt þar á milli. Það var fullt af hrikalega sætum hvolpum, en við létum ekki freistast. Enda víst nóg annað framundan.
Nágranninn kom svo í morgun og lokaði þakinu, sem betur fer, því nú á hann að fara að leggjast í rigningu. Og hann var ekki fyrr búinn en það byrjaði að rigna, svo við erum allavega rosalega fegin að þetta er búið.
Bóndinn er kominn með fésbókarsóttina. Hann er kominn með síðu á fésinu og er afar upptekinn af þessu. Hann ætlaði að setja inn mynd af sér, en þá kom í ljós að það eru eiginlega ekki til neinar myndir af honum einum. Flestar myndir eru ýmist með frúnni eða krökkunum, svo það verður að bæta úr því. Aldrei að vita nema við hendum inn myndum af kappanum og kannski bumbumyndum af frúnni núna í vikunni. Það eru líka nokkar myndir úr garðavinnunni, sem sennilega koma á sama tíma.
Jæja þetta var nú helst í fréttum hér úr sveitinni
kveðja
Gummi og Ragga
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.4.2009 | 11:45
Nýjar myndir
Halló aftur
bara að benda á að það er komnar myndir af skorsteinaniðurbroti undir apríl 2.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.4.2009 | 14:19
Garðatiltekt
Kæru bloggvinir
þá erum við komin inn úr blíðunni. Það hefur verið rosa blíða hér um helgina og við hjónaleysin erum bara orðin pínu útitekin.
Bóndinn kom heim úr Íslandsferðinni á mánudaginn. Hann var nú ansi lúinn enda stíft prógramm. Hann hafði því miður ekki tíma til að heimsækja neinn, nema bara nánustu fjölskyldu, svo það verður að bíða betri tíma.
Við vorum svo búin að lokka nágrannann til að fara upp á þak í gær og klára að loka þakinu. Þá kom í ljós að þessar plötur sem áttu að fara á þakið pössuðu ekki. Búðin sem við keyptum þær í er lokuð á laugardögum, svo það er ekkert annað að gera en að bruna þangað í fyrramálið og panta nýjar. Það tekur nokkra daga að fá þær í réttum lit. Liturinn á þakinu hjá okkur er víst ekki í tísku lengur, svo þeir liggja ekki með þetta á lager. En það er ekkert við því að gera. Við vonum bara að það fari ekki að rigna fyrr en það er búið að ganga frá þessu. Þá fer öll stofan á flot. VIð fórum því bara í að rífa meira niður í anddyrinu. Við erum að vonast eftir að það komi maður næstu helgi og hjálpi okkur að múra í stofunni svo við getum haldið áfram þar. Þetta er orðið ansi þreytandi að geta ekki haldið neitt áfram.
Þegar þessu var lokið ákváðum við bara að ráðast í að fjarlægja allar ræturnar í garðinum. Nágranninn kom á risagröfu og reif þetta allt upp. Garðurinn er eins og moldarflag á eftir. Að vísu er eiginlega engin mold í garðinum, þetta er einhvers konar sandur með smá moldarlit. En það er víst alveg eðlilegt segja þeir sem búa hérna. Nú er bara hrúga af rótum hér fyrir framan hús, og við verðum að fara með þetta á haugana í skjóli nætur. Það er nefnilega bannað að koma á haugana með svona mikið magn án þess að borga fyrir það. En við þekkjum mann sem þekkir mann og þess vegna getum við fengið lánaða lyklana að haugunum og keyrt þessu á stórum vagni.
Í dag var bóndinn svo í stuði til að grisja aðeins í bakgarðinum. Við fjarlægðum þó bara nokkrar greinar, ekki heil tré í þetta skiptið. En samt var þetta 3 fullar kerrur af greinum og þetta er ekki búið enn. Við eigum eftir að tala við konuna sem býr hinum megin við okkur og athuga hvort við megum ekki klippa niður eplatrésgreinarnar sem hanga yfir í okkar garð. Við reiknum nú með að það sé sársaukalaust að hennar hálfu en samt borgar sig nú að spyrja. Maður veit aldrei.
Annar kötturinn okkar er horfinn. Hún hefur ekki skilað sér heim í 4-5 daga, svo við reiknum ekki með að sjá hana aftur. En við því er nú ekkert að gera, hún gæti nú ennþá skilað sér heim, en líkurnar eru ekki miklar.
Bóndinn var vakandi meirihluta nætur að fylgjast með kosningunum. Og er hann bara mjög sáttur við úrslitin. Það verður spennandi að fylgjast með hvernig þetta þróast.
Jæja ætli við látum þetta ekki nægja í bili. Við setjum inn nýjar myndir af skorsteinsniðurbrotinu.
kveðja
moldvörpurnar í Tiset
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)