Færsluflokkur: Bloggar
19.4.2009 | 14:25
Afslöppun
Kæru bloggvinir
þá er komið að hinni frægu bloggfærslu vikunnar! Hér hefur verið bongóblíða undanfarna daga. Samt ekki nema 13-15 stiga hiti í dag. Það hefur verið svolítil gjóla svo það hefur nú ekki verið eins hlýtt og um páskana. En allavega stórgott að sólin skín. Við getum allavega ekki kvartað.
Annars hefur frúin legið í leti um helgina. Bóndinn fór í fermingarafmæli og skemmti sér víst mjög vel. Hann var allavega vel hás þegar það heyrðist í honum áðan. Hann er væntanlegur heim seinnipartinn á morgun.
Við rifum annars niður skorsteininn á mánudaginn með aðstoð nágrannans. Þetta var nú töluvert meiri vinna en við höfðum reiknað með. Hann var ansi traustbyggður efst, en eftir því sem við komum neðar varð hann lausari í sér. Þessu fylgdi auðvitað ótrúlega mikið ryk og drulla, en ekki eins mikið sót og við höfðum búist við. Við reiknum með að niðurrifi sé þá lokið í bili. Við komumst upp á háaloft. Þar hefur verið sparað með einangrun, en lögð gólfteppi yfir í staðinn! Ansi frumlegt. Nú er bara að bíða eftir að við getum fengið múrara til að hjálpa okkur í stofunni. Nágranninn á líka eftir að klára að loka gatinu þar sem skorsteininn var. Sem betur fer hefur verið þurrt veður undanfarið, annars hefði rignt beint niður í stofuna. Vonandi finnur hann bara tíma fljótlega til að klára þetta. Við tókum nokkrar myndir af framkvæmdunum, aldrei að vita nema eitthvað af þeim rati inn hér. Sumar eru reyndar bara alveg hvítar út af rykinu. En við kíkjum á málið.
Bóndinn fór svo á stjórnarfund í íþróttafélaginu í vikunni, það er verið að skipuleggja bæjarhátíðina sem er hér í byrjun júní. Þess má líka geta að íþróttafélagið stendur fyrir happadrætti og frúin vann heilar 50 kr. Geri aðrir betur. Og við erum ekki einu sinni búin að ná að borga fyrir miðana. Svo við vonum bara að þetta númer sé eitthvað happanúmer og við vinnum meira.
Þar með held ég að fréttabrunnar frúarinnar séu orðnir þurrir.
Kveðja
Grasekkjan
Nú á frúin bara eftir að vinna eina viku. Hún er ekki ennþá búin að finna út hvað hún á að gera heima allan daginn. Annars er hún víst bara lúksusdýr, sumar konur fá ekki að fara í barneignarfrí fyrr en 4 vikum fyrir settan dag. En það er líka eins gott fyrir hana að koma með þetta á réttum tíma því bóndinn er búinn að skipuleggja sumarfríið út frá þessu. Þannig að ef barnið kemur á settum tíma þá verður hann heima í 5 vikur eftir fæðingu. Það væri nú ekki verra. Frúin hefur nú efasemdir um að hún geti fundið út úr því að meðhöndla svona barn. En það verður bara að reyna á það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.4.2009 | 18:02
Garðvinna
Kæru bloggvinir
þá er páskafríið að veíða búið. Ótrúlegt hvað tíminn líður alltaf hratt. Við höfum annars haft nóg að gera í garðinum. Við réðumst jú í að slátra öllum trjánum í framgarðinum. Afraksturinn má sjá í nýjasta albúminu hér á síðunni, albúmið heitir apríl. Við fengum nágrannann til að koma með stóra keðjusög og taka niður stærstu trén. Hann fékk svo að hirða drumbana í brenniofninn. Við erum nefnilega farin að kynda með trépillum. Svo okkur fannst fínt að hann fengi að hirða þetta fyrir hjálpina. Konan hans var að vinna svo allur krakkaskarinn var hér líka að hjálpa til. Ekki slæmt að fá svona hjálp! Hann keyrði svo helling af greinum og drasli í brennu sem er verið að safna í fyrir sumarið. Hér í Danmörku halda þeir upp á svokallaðan sankt hans dag. Það hefur eitthvað að gera með að fæla nornir í burtu. Þá er til siðs að kveikja brennu. Svo við erum víst búin að gefa okkar hlut í þá brennu. En allavega þá er rosa munur að vera búin að taka til í garðinum, þó þetta hafi verið algjör negravinna. Við erum búin að sitja þarna og grilla og njóta sólarinnar. Það hefur verið rosa gott veður um páskana svo það hefur verið fínt að við höfum verið stopp í framkvæmdum innandyra.
Á skírdag ákváðum við að taka okkur pásu og keyrðum út til vesturstrandarinnar. Staðurinn heitir Blåvandshuk og er mjög fallegur staður. Við löbbuðum með ströndinni. Við erum bæði heilluð af vatni svo að við notum hvert tækifæri til að komast nálægt því. Það var hellingur af túristum. Mest Þjóðverjum. En þeir sækja mikið til Danmerkur. Hundurinn fékk líka að synda í sjónum, svo allt í allt góð ferð fyrir fjölskylduna.
Í gær var okkur svo boðið í hádegismat hjá vinafólki okkar nálægt Aabenraa. Þau eru ótrúlega dugleg að redda okkur hinum ýmsu hlutum. Þau þekkja mann sem safnar alls konar dóti og við njótum góðs af því. Við erum m.a. búin að fá nánast nýtt klósett, fínan barnavagn, svo fátt eitt sé nefnt. Það er ótrúlega mikils virði að hafa svona sambönd. Við kíktum svo líka í kaffi til nýbakaðra foreldra í Kollund. Nýja stelpan er svo róleg að hún bara sefur og borðar og nýtur lífsins. Algjört draumabarn! :)
Í dag var svo meiningin að rífa niður skorsteininn, en nágranninn gat ekki komið og hjálpað svo það verður að bíða til morguns. Við renndum svo til Árósa og ætlum að gista hjá vini okkar John. Við höfðum þörf fyrir að komast aðeins út úr húsi og sjá eitthvað annað. Það spillir auðvitað ekki fyrir að við gátum farið til arabavina okkar og keypt kjöt. Það vantar sárlega svona araba þarna niður til Suður-Jótands. En það er ekkert við því að gera. Við verðum bara að nota ferðirnar hér til Árósa til að versla hjá þeim.
Svo við vonum að nágranninn komi á morgun og við getum klárað þetta skorsteinsvesen og haldið áfram að vinna í húsinu. Svo tekur við vinna og nestispakkagerð. Eitthvað sem frúin gjörsamlega hatar. Sko nestispakkarnir. Hún á eftir að vinna ca. 2 vikur, spurning hvað hún á að gera heima þar til krílið kemur í heiminn. Allar góðar hugmyndir vel þegnar.
Kær páskakveðja
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.4.2009 | 12:06
Barnapössun
Kæru bloggvinir
við erum nú pínu fúl af því það er bara einn sem hefur kvittað fyrir síðustu færslu. Svo vinsamlegast takið ykkur á! :)
Annars er allt með frið og spekt hérna. Við erum núna að passa Rebekku Rut, dóttur Steina og Sigrúnar hér í Kollund. Móðirin renndi á sjúkrahús í morgun og eignaðist aðra dóttur. Þetta gekk allt vel og þau eru væntanleg heim seinnipartinn. Vanir menn á ferðinni þarna. Það gengur væntanlega ekki alveg svona fljótt fyrir sig þegar frúin eignast sitt kríli. Annars gleymdi frúin að skrifa í síðustu færslu að hún fór til ljósmóður um daginn. Þetta leit allt eðlilega út og barnið er eðlilega stórt. Svo fer hún ekkert skoðun fyrr en í 35 viku og þá hjá lækninum. Þeir eru búnir að skera niður einhverjar heimsóknir til ljósmóður. Það er alltaf verið að spara. En ef maður er eitthvað áhyggjufullur getur maður haft samband við ljósmóðurina.
Bóndinn fór að taka til með íþróttafélaginu í gær. Þetta tók auðvitað eilífðartíma, enda þurfti að taka margar pásur. Síðan tók hann rispu í garðinum og nú er nánast búið að fella öll trén fyrir framan húsið. Við erum búin að fá lánaðan traktor og risa kerru hjá nágrannanum til að koma þessu frá okkur. Þetta verður mikill munur þegar við erum búin að koma þessu í burtu. Garðurinn hefur stækkað um helming. Nágrannakonan heilsaði upp á okkur í fyrsta skipti í gær. VIð héldum að hún ætlaði að skamma okkur eitthvað, en henni leist bara vel á þetta. Enda hefur birt helling í garðinum.
Við hjónaleysin erum svo í fríi núna fram yfir páska og hefur það ekki gerst í mörg ár að við séum saman í fríi yfir hátíðar. En þetta er nú kosturinn við nýja starfið hjá kallinum. Það er stefnt á meiri garðvinnu og kannski reynum við eitthvað að gera í húsinu. Fasteignasalinn kom við í vikunni og ætlaði að reyna að finna einhverja lausn á peningaleysinu. Við reiknum nú ekkert með að það gerist kraftaverk, þar sem það er brjálað að gera hjá honum. En hann er nokkuð lunkinn við að leysa svona mál svo við vonum það besta. Okkur er allavega farið að langa til að geta hent okkur í sófann. Ekki haft sófa í 6 mánuði.
Það hefur verið bongóblíða hér undanfarið og spáin er svipuð næstu daga, svo það er um að gera að nýta það til útivinnu. Æðislegt að fá smá sól og hita eftir gráan og leiðilegan vetur.
Jæja það getur verið að bóndinn hendi inn myndum af garðaframkvæmdum á næstu dögum.
Kveðja úr sólinni
Tisetgengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.3.2009 | 17:22
Mótorsagarævintýrið
Kæru bloggvinir
Þá erum við komin á sumartíma, sem þýðir að það er tveggja tíma munur á klukkunni. Við höfum því átt stuttan sunnudag!
Annars er það helst að frétta héðan að bóndinn reis úr flensunni á miðvikudaginn og var í vinnunni fimmtudag og föstudag. Hann hóstar nú ennþá, en er allavega hitalaus.
Við erum enn stopp í framkvæmdum. Nágranninn vill ekki fara upp á þak og rífa niður skorsteininn fyrr en það fer að hlýna meira, það veit enginn hvenær það verður. Við erum enn að bíða eftir að fasteignasalan leysi út meiri peninga, svo við getum haldið áfram að vinna í húsinu. Það er eitthvað voða erfitt að fá pening núna í fjárhagskrísunni. En við verðum bara að vona það besta. Í ljósið af þessu, drifum við okkur í garðinn í gær. Það var rosa gott veður og bóndinn dreif fram mótorsögina, það er ennþá ótrúlega mikið af trjágróðri hér á bak við. Nágrannakona okkar, sem við höfum aldrei séð, hefur örugglega fengið áfall þegar hún leit um gluggann. Nú getur maður séð á milli húsanna. Við vonum að hún verði ekki óánægð með breytingarnar. Það var víst einhver rígur milli hennar og mannsins sem átti okkar hús áður.
Í dag ákváðum við svo að koma okkur út úr húsi, fyrst við gátum ekkert gert innandyra. Við keyrðum á flóamarkað hér svolítið frá. Við höfum ekki verið á markaði í langan tíma. Þetta var á tímabili okkar helsta skemmtun. Svo það var fínt að rifja upp gamla stemningu. Við renndum svo í kaffi til vina okkar í Kollund. Þau eru alltaf góð heim að sækja. Síðan er nú bara stefnt á afslöppun í kvöld.
Bóndinn ætlar svo að skella sér á klakann eina helgi í apríl, frá 17-20 apríl. Ástæðan er að árgangurinn hans á 30 ára fermingarafmæli og þessu má hann ekki missa af. Frúin verður heima að passa hús og dýr. Hann er auðvitað svaka spenntur yfir þessu. Enda ekki á hverjum degi sem maður hittir gamla skólafélaga.
Jæja best að láta þetta nægja í bili
kveðja
Ragga og Gummi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.3.2009 | 15:39
Afslöppun
Kæru bloggvinir
Hér er aldrei þessu vant afslöppun. Það kemur nú ekki til af góðu, bóndinn er lagstur í flensu. Hann hefur verið drullukvefaður síðan um síðustu helgi og svo í gærkvöldi fékk hann hita og liggur flatur núna.
Bóndinn var annars ansi afkastamikill í vikunni. Hann fékk lánaða sleggju hjá nágrannanum og braut niður vegginn milli stofunnar og eldhússins. Hann dreif í þessu í einni morgunpásunni. Þegar frúin kom heim seinnipartinn lá svo haugur af múrsteinum í garðinum. Það er af þessum ástæðum endalaust ryk frammi. En gott að veggurinn er kominn niður. Þetta verður rosa munur sérstaklega þegar strompurinn er líka farinn. Við erum annars stopp í framkvæmdum þar til fasteignasalan hefur fundið út hversu mikla peninga við getum leyst út fyrir herbergin sem við erum búin með. En það er nú samt ágætt að geta slappað aðeins af. Það er víst þörf á því líka. Bóndinn tók nokkrar myndir af framkvæmdunum í stofunni og setti inn hér á síðuna, undir mars. Ekki vera feimin við að kíkja á þetta og segja hvað ykkur finnst. Þegar við erum búin að fá pening verður svo ráðist í að koma upp eldhúsinu. Það verður að gera þetta allt eftir einhverjum settum reglum.
Frúin var svo lokkuð til að sýna bumbuna fyrir framan myndavélina, árangurinn er hægt að sjá í myndaalbúminu. Barnið er lítið fyrir að hreyfa sig þegar pabbinn er að reyna að finna hreyfingarnar. Sennilega hefur hann svona róandi áhrif. Við vonum að hann hafi það áfram þegar barnið er komið í heiminn. Blóðsykurprófið kom vel út, það var auðvitað léttir að vita. Frúin er farin að safna að sér barnadóti. Það er hægt að fá hitt og þetta fyrir lítinn pening, ef maður hefur augu og eyru opin. Vinir okkar eru líka duglegir að finna það sem vantar. Við erum búin að fá slatta af fötum, og svo er verið að vinna í að finna barnavagn og skiptiborð. Við reiknum með að kaupa barnarúm í IKEA. Þeir hafa fín rúm. Frúin hættir að vinna núna seinast í apríl. Hún á rétt á að hætta tveimur mánuðum fyrir settan dag, en það verður sennilega ekki nema einn og hálfur mánuður. Það verður mjög skrýtið ekki að fara í vinnuna á hverjum degi. En maður er nú farinn að finna vel fyrir því að maður er ekki fullur af orku eins og maður er þegar maður er ekki óléttur! :) Þetta verður sennilega mjög fljótt að líða og maður nær ekki að gera allt sem maður ætlar sér áður en krílið kemur.´
Hér hefur verið hífandi rok í allan dag. Það hefur verið rosa fínt veður hérna undanfarið, allt upp í 10 stiga hiti á daginn, en næturfrost. Það á svo eitthvað að kólna meira núna í næstu viku. Við sem héldum að vorið væri komið.
Jæja látum þetta gott heita í bili
Ragga og Gummi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.3.2009 | 17:50
Ryk og drulla
Kæru bloggvinir
hér er allt á kafi í ryki og drullu. Ástæðan er að í gær byrjuðum við að vinna í stofunni og eldhúsinu og brjóta niður gamalt múrverk. Nágranninn var búin að lofa að hjálpa til við að koma fyrir burðarbita, svo við getum brotið niður vegginn milli eldhúss og stofu. Hann talaði um að koma eftir kl. 12. Við biðum og biðum og loksins kl. rétt fyrir 4 mætti hann. Hann er nú ekkert að æsa sig of mikið. Þetta gekk nú mjög vel og þeir komu bitanum fyrir. Þetta var nú ekkert létt verk að lyfta 100 kg bita upp í loft. En þar sem þetta eru nú mikil heljarmenni, þá heppnaðist þetta nú hjá þeim. Við þurfum svo að fara að brjóta niður vegginn. Og seinna skorsteininn, svo rykið er víst komið til að vera.
Við brunuðum í gærmorgun með sófana og slatta af kössum í geymslu. Svona svo þetta verði nú ekki alveg þakið í skít. Það er mjög auðvelt að leigja geymslur hérna í Danmörku. Mjög þægilegt kerfi. En af því við búum út í sveit þarf maður auðvitað að keyra langt til að komast í svona. Eftir mikð vesen komum við sófunum fyrir. Við erum búin að komast að því að við eigum allt of stór húsgögn. Svo þegar þetta verður endurnýjað, verður keypt eitthvað minna og léttara.
Frúin fékk niðurstöðuna úr blóðsykurprófinu í vikunni. Þetta leit allt fínt út, svo það er auðvitað mjög gott. Krílið er farið að hreyfa sig meira og hreyfingarnar orðnar greinilegri. Það er líka farið að vera læti hérna á nóttinni, við vonum nú að þetta verði ekki einhver nátthrafn. Frúin á að fara til ljósmóður næsta mánudag. Það verður spennandi að sjá hvað hún segir. Bóndinn hefur náð myndum af bumbunni, hann hendir þeim inn fljótlega.
Við réðumst í að rífa niður loftið í eldhúsinu í vikunni. Við héldum auðvitað að það væri bara eitt loft. En við urðum klókari. Það eru þrjú loft! En engin einangrun, svo það verður bætt úr því núna þegar við setjum upp nýtt loft. Það kom heill haugur af músaskít niður af loftinu, svo þær hafa verið víðar en í svefnherberginu. Eftir allt þetta niðurrif erum við orðin drullukvefuð og sitjum hér með stíflað nef og kverkaskít.
Eftir mikla mæðu tókst að koma smartsímanum í gagnið. Hefur hann virkað vel hingað til. Ef einhver nennir að hringja í okkur, kostar það sama og hringja innanlands á Íslandi. Númerið er 496 1665. Ekki vera feimin við að prófa! Muna samt að hringja ekki eftir kl. 21 á íslenskum tíma. Það verður bráðum tveggja tíma munur á klukkunni. Og af því við vöknum kl. hálf sex alla morgna, þá förum við snemma að sofa.
kveðja frá rykpúkunum
Ragga og Gummi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.3.2009 | 14:34
Íþróttaálfurinn orðinn varaformaður
Kæru bloggvinir
Hér hefur ýmislegt borið til tíðinda síðustu vikuna. Fyrst ber að nefna að bóndinn fór á fund hjá íþróttafélaginu og var kjörinn varaformaður. Hann er nú þegar kominn með ýmsar skyldur. Honum líst nú bara nokkuð vel á þetta. Aðalviðburðurinn verður svo í byrjun júní þegar það verður haldinn bæjarhátíð. Hátíðin varir víst í heila 4 daga. En þar sem frúin á að eiga um miðjan júní, þá verðum við nú bara að sjá til, hversu mikið hann getur tekið þátt í þessu. Maður gæti nú átt von á að eiga eitthvað fyrir tímann.
Í vikunni barst svo líka hið fræga smartbox frá Íslandi og það var ekkert mál að tengja það. Bóndinn hringdi til 'Islands og var heldur en ekki glaður. En þá kom í ljós að símanúmerið sem við höfðum fengið með símanum, var alls ekki númerið sem kom á númerabirtirinn heima. Hringdi hann því í Tal til að athuga þetta og vorum við þá skráð með tvö símanúmer. En pilturinn sem varð fyrir svörum lofaði nú að kippa þessu í lag. Það verður fróðlegt að sjá hvort honum tekst það. Við höldum ekkert niður í okkur andanum sko.
Frúin fór í blóðsykurmælingu á föstudaginn. Hún átti að drekka eitthvað dísætt vatn og sitja svo á sínum flata í 2 tíma. Niðurstaðan kemur svo um miðja næstu viku. Svo þangað til er bara að hakka í sig sykur! :) Nei smá grín.
Í gær var svo mikið um að vera hér. Nágranninn kom að tengja nýja ofninn og trépillukarlarnir komu og tengdu trépilluhitarann. Svo nú er bara næstum of heitt hérna inni. Það á eftir að taka smá tíma að læra á þetta allt og venjast því að það sé heitt í húsinu allan sólarhringinn. Við höfum svo aðeins verið að bardúsa við að þétta glugga og svoleiðis í dag.
Í gærkvöldi fóru svo hjónaleysin út á lífið. Vinnufélagar bóndans fóru út að borða og á eins konar revíu. Það var mjög fínt. Við höfum nú ekki farið út á lífið í háa herrans tíð, svo þetta var nú fín tilbreyting.
Bóndinn henti inn nokkrum myndum af barnaherberginu. Það er eftir að laga gardínurnar, saumadótið er í einhverjum kassa. Við erum svo bara smátt og smátt að undirbúa stofuna og eldhúsið. Það kom hér kona frá fasteignasölunni í vikunni til að kíkja á herbergin sem við erum búin með, til að meta hversu mikið verð hússins hefur stigið við að laga þetta sem við erum búin með. Þetta hentar nú ekki vel óþolinmóðu fólki eins og okkur. En við verðum bara að bíta í það súra epli.
Kveðjur frá Tiset
Ragga, Gummi og gengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.3.2009 | 18:36
Flísaferðin
Kæru bloggvinir
þá er komið að færslu vikunnar. Hér hefur lífið nú gengið sinn vanagang, án stórra tíðinda. Við fengum þó loksins bréf frá símafyrirtækinu sem á að leggja símann hér inn. Þeir gátu tjáð okkur það að við fengjum tengdan heimasíma 23 mars. Já þetta er þá ekki búið að taka nema 5 mánuði að flytja símann. Spurning hvort maður fær einhvern rosa reikning fyrir þessa mánuði. Manni kemur ekki mikið á óvart meira. Við vorum svo búin að panta svokallað smartbox frá Íslandi, sem á að gera að verkum að maður geti hringt í heimasíma á Íslandi fyrir 1600 kr íslenskar á mánuði. Og þeir sem hringja í okkur hringja á innanlandstaxta. Leið og beið og aldrei kom boxið. Við fengum hin ýmsu svör, bæði að þeir hefðu sent boxið og það týnst í pósti. Síðan fengum við að vita að þeir hefðu ekki sent nein box af því þeir hefðu ekki átt nein á lager. Þetta endaði með að við sendum Ella til að ná í box hjá þeim, og senda okkur í pósti. Daginn eftir kom svo póstkrafa frá Tal. Þá var greinilega annað box komið í leitirnar. Þetta þykir okkur ekki minni sápa en hér í Danmörku. Það mætti halda að fólk talaði ekki saman innan fyrirtækisins. Nú er bara að vona að boxið dúkki upp og þetta virki allt saman. Við vonum það besta.
Við erum búin að setja upp gardínustangir og henda upp gardínum. Það á eftir að laga þær til. Allt saumadótið liggur i kassa, svo þetta verða að vera svona bráðabirgðagardínur. Við erum búin að kaupa nýjan ofn til að setja í stofuna, en við eigum eftir að setja hann upp. Það hefur nú verið heldur hlýrra hér undanfarið, svo maður hefur ekki verið svo frosinn.
Við höfðum svo frétt af flísaútsölu í Aabenraa, þar sem við bjuggum áður. Við renndum því þangað í gær og keyptum flísar á gangana og baðið, svona ca. 40 fermetrar af flísum fyrir 2000 kr danskar. Við urðum að keyra tvær ferðir, þetta var svo mikið. En mjög fínar flísar, svo er bara eftir að finna út hvort við getum lagt þetta. Við erum nú heldur ekki útlærðir flísalagningarmenn.
Í dag komu svo loksins vinir frúarinnar, sem ætla að hjálpa til við að brjóta vegginn í stofunni og múra upp. Það lítur því út fyrir að við getum haldið eitthvað áfram í framkvæmdunum. Allavega svona í nánustu framtíð.
Við látum þetta nægja í bili
kveðja frá Tisetbúum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.2.2009 | 15:21
Bóndinn orðinn íþróttaálfur
Kæru bloggvinir
þá er komið að færslu vikunnar sem margir eflaust bíða spenntir eftir, allavega miðað við hversu margir kvitta fyrir innlitið! hmmmmm
Hér hefur lífið gengið sinn vanagang í vikunni. Frúin fór í læknisskoðun og var skoðuð á alla kanta. Hún þarf að fara í eitthvað extra tékk út af blóðsykrinum. Eitthvað sem þeir gera víst til að vera vissir um að maður sé ekki með meðgöngusykursýki. Hún á að fara í þetta tékk núna eftir 2 vikur, og við vonum bara það besta. Annars verður maður bara að hætta að éta allan sykur og passa mataræðið.
Á fimmtudaginn var svo haldinn hinn frægi aðalfundur í íþróttafélaginu. Bóndinn átti að mæta kl. 19:00 en almenningur kl. 19:30. Frúin rölti því á staðinn og var komin á góðum tíma, en ákvað að bíða þar til fleiri kæmu. Leið og beið og enginn kom. Það endaði með að bóndinn kom út og náði í konuna, þar sem hún var eini óbreytti fundargesturinn. Það er víst ekkert óvanalegt við það. Þeir kipptu sér allavega ekkert upp við það. Sögðu að fólk kæmi ekki á svona fundi nema það hefði eitthvað að kvarta yfir. Þar sem frúin var eini óbreytti borgarinn var hún auðvitað valinn fundarstjóri. Bóndinn er nú orðinn meðlimur í stjórninni með öllu því sem fylgir. Okkur heyrðist nú að það væri nokkuð gert af því að gera sér glaðan dag með áfengi. En félagið heldur bæjarhátíð hér á sumrin og sér um einhverjar fleiri smá samkomur. Í stjórninni situr íslensk kona, já ótrúlegt en satt. Hún býr reyndar í Gram, næsta stóra bæ við Tiset. En samt, hverjar eru líkurnar. Hún hefur búið hér nánast alla ævi. Á íslenska foreldra sem búa ekki langt hér frá, en hefur ekki búið nema ca. 1 ár á Íslandi og talar því frekar bjagaða íslensku.
Við höfum svo verið að dunda við að leggja lokahönd á barnaherbergið. Nú vantar bara að setja upp gardínustangir og hengja eitthvað fyrir gluggana. Það tekur alltaf langan tíma að klára þetta smotterí.
Já þetta er svona sirka það sem fréttvænt er þessa vikuna.
kveðja
Gummi, Ragga og liðið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.2.2009 | 12:44
Barnaherbergið tilbúið
Kæru bloggvinir
þá erum við næstum búin með barnaherbergið. Það á bara eftir að bletta veggina, þar sem ofnadrullan spíttist út og finna lista við þröskuldinn. Þetta lítur nú bara nokkuð vel út. Manni líður alltaf voða vel þegar eitthvað er tilbúið. Næsta verkefni verður svo stofan og eldhúsið. Við erum enn að bíða eftir að kunningjar frúarinnar komi og hjálpi til. Það verður að fara að reka á eftir því. Þegar maður er búinn með eitt verkefni getur maður ekki beðið eftir að komast í gang með það næsta. Karlinn hendir kannski inn einhverjum myndum. Barnaherbergið verður svo notað sem geymsla fyrir dótið í stofunni til að byrja með.
Hér hefur annars verið óvenju mikið frost á nóttinni. Allt niður í 12 gráður. Það er nú frekar óvenjulegt. Það hefur hins vegar verið mjög fallegt veður hér á daginn. Snjór á jörðu og sól. Ekki amalegt það. Þessu hefur þó fylgt nokkur hálka, sem er alltaf stórmál hér. Eins og Danir hafi aldrei keyrt í snjó eða hálku. En þar sem það er sjaldan snjór og hálka hérna, þá er fólk fljótt að gleyma.
Bumbubúinn er farinn að taka meira pláss og spriklar orðið meira. Annars er þetta nú rólyndisbarn. Frúin er að fara í læknisskoðun á morgun. Hún þarf að pissa í glas og ætli verði ekki athugað með blóðþrýsting og svona. Á ekki von á því stóra. Við höfum verið mjög heppin með lækni eftir við fluttum. Hún er mjög áhugasöm og virðist vita hvað hún er að gera. Eftir að hafa verið með lækni sem var algjörlega óhæfur, þá finnst manni algjör lúksus að hafa lækni sem hægt er að tala við.
Við ætlum svo að renna til Haderslev núna seinnipartinn, okkur er boðið í kaffi og mat hjá fyrrverandi vinnufélaga frúarinnar. Það er sjaldan sparað þegar maður kemur þangað.
Enn bólar ekkert á heimasímanum, en sjónvarpið á að tengjast á morgun, við sjáum nú til hvort það gengur eftir. Við höldum ekkert niður í okkur andanum sko.
Í næstu viku fer bóndinn svo á aðalfund hjá íþróttafélaginu, það verður nú spennandi. Við segjum frá því í næstu færslu.
Jæja það er víst ekki mikið meira að frétta héðan úr Danaveldi
kveðja
Gummi, Ragga og gengið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)