Færsluflokkur: Bloggar
8.2.2009 | 15:57
Dugnaðarforkar
Kæru bloggvinir
þá er kominn sunnudagur, og það er best að reyna að vera á réttum tíma með færsluna þessa vikuna. Hér kastaði éli í morgun, en það er nú mest allt farið aftur. Þeir eru að spá einhverri snjókomu þessa vikuna. Það á líka að kólna allhressilega. Það er mjög fjölbreytt veður hérna þessa dagana. Næstu viku er frí í skólunum hér. Bóndinn fer því og keyrir í Sønderborg, þar sem hann var áður.
Við gleymdum að segja að þegar herramennirnir voru að vesenast í ofnunum síðustu helgi, þá var svo mikill þrýstingur á kerfinu að það spíttist svört drulla á nýmálaða veggina í barnaherberginu. Það þarf því að renna yfir einn vegginn aftur. Það er vonlaust að þrífa þetta af. Bóndinn var svo að tappa af lofti af ofninum í svefnherberginu okkar í vikunni og lenti í rosa ævintýri. Hann losaði tappann aðeins of mikið og tappinn spíttist úr ofninum og það frussaðist svört drulla út um allt. Hann var einn heima, með aðra hendina í ofninum og hina að reyna að ná tappanum. Honum heppnaðist nú sem betur fer að koma tappanum í áður en mikill skaði varð. En við verðum að mála yfir aftur í kringum ofninn í því herbergi. Já, við erum ekkert seinheppin! :) 'Við ætlum ekkert að mála yfir þetta fyrr en það er búið að breyta brenniofninum. Því að það er von á að það komi meira loft inn á ofnana þegar við förum í það. Svo þá er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig.
Í gær kláraði bóndinn svo að mála gluggann í barnaherberginu og í dag drifum við okkur í að leggja parket á gólfið. Við vorum nú alveg á nálum hvort þetta myndi duga á herbergið. En með mikilli útsjónarsemi hafðist þetta. Það var hálf parketspýta eftir! Við vorum reynslunni ríkari frá því að við lögðum á svefnherbergið. Við vorum því heldur röskari við þetta núna. Það verður samt eitthvað vesen með að finna gólflista. Veggirnir eru svo rosalega skakkir að við verðum að sjá til hvernig við leysum það. Annars verðum við bara að gera eins og í hinu herberginu og setja tvöfalda lista. Allavega er mikill léttir að vera búin að koma gólfinu á.
Í gær renndum við til Gunnþóru og Mogens og skoðuðum litlu pæjuna hana Mæju Elísabet í Kolding. Við höfðum ekki séð litlu skvísuna síðan hún var alveg glæný. Hún er nú næstum 5 mánaða og er algjör dúlla. Við gæddum okkur á íslenskum lambahrygg, sem var bara algjör snilld. Við höfum ekki smakkað svoleiðis síðan síðasta sumar. Svo þetta var bara algjört æði.
Í síðustu viku kom hér maður sem var að leita að meðlimum í stjórn íþróttafélagsins í Tiset. Já það er í 200 manna samfélagi bæði borgarasamtök og íþróttafélag. Borgarasamtökin vilja ekki sameinast íþróttafélaginu, svo þess vegna er þetta svona. Nú en þar sem bóndinn er svo einstaklega félagslyndur ákvað hann að slá til og ganga til liðs við íþróttafélagið. Sem hefur reyndar ekkert að með íþróttir að gera . Þeir sjá um hátíðarhöld í bænum og eitthvað fleira. Það er aðalfundur núna um miðjan mánuð og þá fáum við nú eitthvað meira að vita. Þetta hljómaði allavega mjög vel. Svo kallinn er á hraðri leið í borgarstjórastólinn hér í Tiset.
Í síðustu viku lenti kötturinn okkar líka í hremmingum aftur. Hún fékk risa sár á bakið um daginn. Það var nýgróið þegar það kom einhver villiköttur og réðist á hana hérna inn í garði. Hún veinaði og veinaði þar til bóndinn rak köttinn á flótta. Okkar köttur var svo skelkaður að hún hvarf og kom ekki heim fyrr en eftir marga klukkutíma. Hún hafði þá orðið svo hrædd að hún hafði skitið langt upp á bak. En var nú ekki sködduð að öðru leyti. Hún er bara í áfalli ennþá. Svo það er ekkert grín að vera köttur hér í Tiset.
Bóndinn lenti líka í svaka ævintýri í vinnunni í vikunni. Einn guttinn, svona 11 ára bað hann að stoppa af því hann þurfti að pissa. Svo það var stoppað út í kanti. Skipti engum togum að drengurinn girti allt niðrum sig, dró jakkann og peysuna upp að brjósti og sprændi svo út í guðs grænni náttúrunni. Það þótti víst engum í rútunni þetta neitt athugavert nema auðvitað bóndanum.
Jæja þá eru fréttabrunnarnir orðnir þurrir í bili.
kveðja
Gummi, Ragga og gengið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.2.2009 | 18:03
Komin með alvöru netsamband
Kæru bloggvinir
Frúin var svo þreytt í gær að hún nennti nú ekki að blogga. Svo var hún líka að tékka hvort það kæmu einhver viðbrögð við að færsluna vantaði. Við erum komin í alvöru netsamband. Rosalegur munur. Núna vantar okkur bara eitthvað apparat til að geta verið með þráðlaust internet. Þangað til verður maður að sitja krókloppinn hér í stofunni.
Við fengum annars nágranna okkar hér á laugardaginn til að hjálpa okkur með að setja upp ofninn, sem kom gat á. Hann skipti líka um hitastilla og einhver rör á tveimur ofnum. Svo þetta verður allt voða gott þegar við verðum svo líka komin með trépillusystem á brenniofninn. Þá verður loksins heitt hér allan sólarhringinn. Við getum ekki beðið. Vonum allavega að þetta virki þegar til kemur. Frúin hringdi nú í internetfyrirtækið í síðustu viku til að heyra hvernig símatenglinum liði. Þá kom í ljós að við þurfum að fá sér box fyrir símann og sér box fyrir internetið og enn eitt fyrir sjónvarpið. Herbergið fer að líkjast meira geimstöð en barnaherbergi.
Við fengum brenni í vikunni, svo við ættum að eiga nóg í allavega mánuð. Við vonum að karlanir sem ætla að reyna að mixa brenniofninn geti gert það eftir svona mánuð. Þá ætti nú líka að vera farið að hlýna hérna. Það hefur verið hífandi rok hérna í nokkra daga og það er alveg hrikalega kalt, þó það sé ekki frost.
Það hefur verið talað um nýju íslensku ríkisstjórnina í fréttunum hérna. Þeir hafa sérstaklega fengið mikið út úr því að Jóhanna sé lesbía. Okkur varð nú nokkuð um fréttirnar, þar sem við höfðum ekki hugmynd um að hún væri lesbía. Ekki það að það skipti okkur miklu máli. En þetta þykir mjög merkilegt hér.
Bóndanum gengur bara vel í nýju vinnunni. Hann þurfti að skipta um túr hér í morgun. Og taka 13 krakka með ofvirkni í staðinn fyrir 9 með einhverfu. Þau voru heldur háværari. En vonandi gengur þetta nú alltaf vel. En þessir krakkar eiga nú voða erfitt með að höndla breytingar.
Jæja ætli þetta sé ekki orðið gott í bili
kveðja að sunnan
Gummi og Ragga
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.1.2009 | 15:36
Farsímaævintýri
Kæru bloggvinir
Þá kemur færslan á réttum degi að þessu sinni. Netið hangir enn inni, og erum við mjög þakklát fyrir það. Annars ákvað frúin að hringja í internetfyrirtækið í vikunni, bara svona til að heyra hvort þetta færi að koma. Fyrir svörum varð óvenju almennileg kona, sem skildi nú bara ekkert í því að við værum ekki komin í netsamband og ætlaði að láta einhvern tæknimann kíkja á þetta. Það er bara spurning hvort það verður fyrir páska.
Við ætluðum að setja gólf á barnaherbergið um helgina, en þá kom í ljós að ofninn í herberginu lekur, svo við erum búin að semja við nágrannann, sem hefur vit á pípulögnum, að hann kíki á þetta fyrir okkur. En við kláruðum allavega að setja lista í loftið og nú er bara gólfið og ein umferð eftir á gluggana. Þau sem ætluðu að koma og kíkja á stofuna, urðu veik, svo ekkert varð úr því , en vonandi hressast þau nú fljótt. Það eru voða margir veikir þessa dagana, bæði með kvef og upp og niðurpest. Við höfum nú sloppið vel hingað til.
Frúnni þykir voða pirrandi að geta ekki gert allt sjálf og þurfa að bíða eftir að aðrir komi og hjálpi. En svona er þetta nú víst. Maður verður bara að æfa sig í að bíða. Það er sérstaklega óþægilegt þegar einhver er búinn að bjóðast til að hjálpa og maður þarf svo að reka á eftir því. En við vonum að allavega nágranninn láti sjá sig fljótlega, svo við getum klárað herbergið. Við erum líka búin að láta gera við stóra ofninn í stofunni og hann ætlar að hjálpa okkur við að setja hann upp.
Við erum farin að hallast að því að það sé einhver dýraníðingur í Tiset. Annar kötturinn kom heim um daginn, rófubrotinn. Það er nú allt gróið. Hin kom svo heim einn daginn og gat hvorki gengið né hoppað. Hún húkti bara úti í horni og var hin undarlegasta. Við sáum svo að hún var með stærðar sár á bakinu. Það er nú allt að gróa núna. En það þýðir ekkert að fara með þessar skvísur til dýralæknis, þær fríka algjörlega út ef þær þurfa að keyra eitthvað. En við vonum nú að þetta sé bara einhver óheppni. Ég trúi ekki að það sé einhver að leika sér að þessu.
Við renndum til Ribe í gær (við elskum Ribe). Það var búið að auglýsa hurðir á góðu verði. En auðvitað var bara ein eftir þegar við komum. En þeir sögðu að þeir fengju fleiri í vikunni, svo það er ekki annað að gera en að renna þangað aftur. Við renndum svo til Kollund og fengum góðar veitingar að vanda. Frúin var að láta kaupa fyrir sig nýjan gsm síma. Bóndinn var orðinn frekar þreyttur á að ná aldrei í hana. Gamli síminn er ekki nema 7 ára og hefur nú þjónað vel. En er farin að verða batteríslaus í tíma og ótíma og stundum heyrist bara ekkert í honum. Svo frúin varð að gefa eftir og endurnýja. Maður er nú pínu vanafastur og vill ekki breyta hlutunum of mikið. En það er náttúrlega ekkert sniðugt að vera með síma sem maður getur ekki treyst á að virki. Það kom sér allavega vel að hafa síma á föstudagsmorgun þegar frúin hélt til vinnu. Á miðri leið fór bíllinn að ganga mjög undarlega og keyrði mest á 60 km hraða, og bílaröðin fyrir aftan var orðin all hressileg. Enda bíll við bíl í báðar áttir á þessum tíma dags. Frúnni leist ekki á blikuna svo hún hringdi í bóndann (keyrði að sjálfsögðu fyrst út í kant!). Fékk þau skilaboð að sprauta wd40 á kertaþræðina og eftir það gekk þetta nú stórslysalaust. Já það gerast mörg ævintýri í sveitinni.
Næsta vika bíður örugglega ekki upp á færri ævintýri, en það er nú allt í lagi ef þau enda vel!
Vonum að allir heima á klakanum hafi það gott þrátt fyrir ástandið.
kveðja
Ragga, Gummi og gengið
P.s. Það verður einhver bið á bumbumyndum. Fyrir það fyrsta er bumban nú ekki orðin neitt rosalega stór og svo er frúnni líka meinilla við að það séu teknar myndir af henni, svo þið verðið bara að ímynda ykkur hvernig þetta lítur út! :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.1.2009 | 18:47
Kominn í netsamband aftur
Kæru bloggvinir
þá er komið netsamband aftur í Tiset. Það er reyndar ekkert sérstaklega stabílt eða hraðvirkt, en allt er betra en ekki að hafa neina nettengingu. Annars gerðust undur og stórmerki hér í síðustu viku. Hér kom maður frá internetfyrirtækinu og lagði kapalinn inn í húsið. En eins og fyrri daginn eru hlutirnir nú ekki einfaldir hér í Danmörku. Nú þurfum við að bíða eftir að fá tilkynningu frá fyrirtækinu um að við getum tengst við netið. Síminn og sjónvarpið kemur líka eitthvað seinna. Já þetta er nú alveg með eindæmum. En eftir 8 ár í Danmörku er fátt sem kemur manni á óvart lengur! :)
Við erum komin með hita í húsið. En þar með er sagan ekki öll sögð. Við erum búin að vera að leita að stað til að kaupa eldivið síðustu vikurnar. Nágranni okkar vildi nú ekki láta mikið uppi en benti okkur á tvo staði sem hægt væri að kaupa eitthvað. Við fórum því í leiðangur eftir að hafa hringt á fyrsta staðinn. Þeir sögðust eiga nóg af eldivið, eða myndu allavega geta skaffað það. Þegar við svo mættum á svæðið með kerruna, var ekkert til og minnst 2 mánaða bið eftir að fá bara eina kerrufylli. Okkur fannst þetta nú heldur léleg þjónusta, en við gáfumst nú ekki upp. Við reyndum næsta stað sem hann hafði bent okkur á, á einhverjum bóndabæ. Bóndinn var mjög dularfullur en taldi sig ekki eiga neitt, og benti okkur á að lesa staðarblöðin og sjá hvort ekki væri eitthvað þar. Sem við og gerðum og hringdum á tvo staði, og á öðrum staðnum var til brenni og við vonum að við fáum þetta fljótlega. Við áttum alls ekki von á að það væri neitt mál að fá brenni, þar sem svo margir Danir hita með tré. En við erum búin að læra af reynslunni. Við erum líka búin að læra að greiðasemi er ekki eitthvað sem vex á trjánum hérna. Í vkunni komu svo líka tveir spekingar að kíkja á brenniofninn okkar. Þeir ætla að reyna að mixa eitthvað saman svo við getum kynt allan sólarhringinn án þess að þurfa að fara á tveggja tíma fresti og fylla á hann. Það verður spennandi að sjá hvað þeir finna út.
Í næstu viku á frúin að fara í seinni sónarinn. Það er boðið upp á tvær sónarskoðanir á meðgöngunni hérna. Og svo auðvitað ef það er eitthvað að. Það verður spennandi að sjá krílið aftur.
Við settum upp loftið í barnaherberginu síðustu helgi. Það þurfti að mála eina umferð yfir allt loftið, af því það var svo mislitt. En þetta kemur nokkuð vel út. Við máluðum líka eina umferð yfir veggina. Nú vantar bara að klára að mála gluggann og leggja parketið. Við vonum að við verðum eitthvað betri í því núna en síðast, hehehe. Það er fínt að þetta skríður eitthvað áfram. Við eigum von á að vinkona frúarinnar og hennar maður komi næstu helgi og kíki á stofuna. Hann er múrari og við ætlum að reyna að plata hann til að hjálpa okkur að brjóta niður vegginn og múra upp. En við sjáum til hvað hann segir.
Jæja ætli þetta sé ekki orðið gott í bili
kveðja
Ragga, Gummi og restin af genginu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.1.2009 | 11:57
Internetid dottid út
Kæru bloggvinir
Thad verdur einhver bid á nýrri færslu. Internetid er dottid út heima og thid nennid ekki ad lesa heila færslu skrifad á dønsku lyklabordi. Og hana nú.
Gódu fréttirnar eru thær ad vid erum komin med hita í húsid, thad er rosa munur.
Svo nú er bara ad vopna sig med tholinmædi og bída og sjá hvort netid kemur inn aftur. Jei :)
kvedja
thau heitfengu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.1.2009 | 13:20
Hitalausa vikan
Kæru bloggvinir
þá er aftur kominn sunnudagur. Manni þótti nú ekkert sérstaklega spennandi að fara að vinna aftur eftir að hafa verið í fríi yfir jól og áramót. En allt gekk þetta nú nokkuð eðlilega fyrir sig. Eins og venjulega.
Annars er það helst að frétta að það hefur gengið voðalega illa að fá hita í kofann síðustu vikuna. Alltaf þegar maður hefur kveikt upp, hefur byrjað að sjóða á brenniofninum eftir smástund. Það þýðir að það fer loft inn á alla ofnana sem þarf að tappa af. Mjög skemmtilegt. Við hringdum í pípulagningarmann til að kíkja á draslið. Hér mætti svo miður gáfaður strákhvolpur, sem ekki gat séð að það væri neitt að. Nema kannski að við kynnum bara ekkert að kveikja upp í ofninum. Sem okkur þótti nokkuð skrýtið þar sem við höfum ekki átt í neinum erfiðleikum með það hingað til. En allavega. Þetta gekk svo fínt í tvo daga. En á föstudaginn byrjaði sama vesenið aftur. Við vorum því hitalaus föstudag og laugardag. Í morgun fór bóndinn svo og hreinsaði allan brenniofninn. Kveikti svo upp aftur og þetta hefur verið til friðs síðan. En hversu lengi það verður, er erfitt að segja. Allavega gott að geta komist aðeins út úr svefnherberginu. Það er eina herbergið sem heldur hita. Við erum með lítinn rafmagnsofn sem við getum sett í samband þar. það verður ekki gaman að fá rafmagnsreikninginn!:) Einn vinur okkar er kannski búinn að redda okkur svona trépillumatara. Sem maður getur tengt við brenniofninn og heldur hita í húsinu allan sólarhringinn. En við eigum eftir að sjá hvort það passar. Það væri auðvitað rosa munur. Svo við vonum það besta. Maður verður bara svona heldur vonlaus þegar hlutirnir ganga svona á afturlöppunum. Sem betur fer hefur verið heldur hlýrra í veðri hérna síðustu viku en vikuna áður, svo þetta hefur ekki verið alveg eins slæmt. En Íslendingar eiga nú örugglega mjög erfitt með að ímynda sér ekki að hafa nógan hita.
Helgin hefur því farið í mest lítið annað en eitthvað vesen. Við erum eiginlega alveg stopp í framkvæmdum eins og er. Vantar málningu í litla herbergið og guð má vita hvenær hún kemur og vantar múrara í stofuna. Við þurfum að velta niður einum burðarvegg og viljum nú ekki gera það nema einhver múrari sé til að aðstoða. Það er á svona tímum sem maður vildi hafa meiri þolinmæði. En við erum nú pínu pressuð af því að við þurfum að vera búin með stærstu framkvæmdirnar fyrir október. Við fengum lán til að gera við húsið og þeir setja þá skilmála að maður sé búinn innan árs. Þess vegna er nú enn meira pirrandi ekki að geta haldið áfram.
Bóndinn byrjaði í nýju vinnunni í vikunni. Þetta hefur allt gengið stórslysalaust og honum líst bara nokkuð vel á þetta allavega ennþá. Krakkarnir eru mörg voða dugleg að hjálpa honum ef hann ratar ekki. Það eru bara ekki allir krakkarnir sem hægt er að treysta að segi alveg rétt frá. Svo það þarf að vita það. En þetta lærist allt. Það er alltaf pínu stressandi að byrja í nýrri vinnu.
Við erum að verða alveg geðveik á tölvu- og símamálum hérna. Þessi internettenging sem við erum með er algjört drasl og ekki alltaf sem maður kemst á netið, nema með einhverjum harmkvælum. En við búumst nú ekket við að hin tengingin komi fyrr en í febrúar.
Þeir sem kíkja hérna inn mega alveg vera duglegri að kvitta fyrir sig! :) Annars höldum við bara að enginn nenni að lesa þetta lengur.
kveðja
Gummi og Ragga
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.1.2009 | 19:58
Nýtt ár gengið í garð
Kæru bloggvinir
Gleðilegt ár og takk fyrir allt það gamla. Við vonum að allir hafi átt góð áramót. Við áttum fín og róleg áramót. Það var mjög skrýtið ekki að hafa krakkana neitt um jól eða áramót. En svona er þetta. Við reiknum ekki með að næstu jól verði alveg svo róleg.
Frúin átti að fara í svokallaða hnakkaþykktarmælingu í síðustu viku. Bóndinn fékk frí í nokkra tíma til að koma með. Þegar við mættum á svæðið kom í ljós að frúin var komin of langt á leið til að hægt væri að gera þessa mælingu. Þetta voru einhver mistök hjá læknunum. En við fengum að skoða barnið í sónar. Og það var mjög fínt. Það var ekki hægt að sjá nein einkenni down syndrom.
Síðustu helgi fluttum við niður í svefnherbergið. Það er rosa munur. Nú er allavega hægt að halda góðum hita í einu herbergi. Við eigum eftir að velja lit á gólflistana og skipta um hurð. Svo þarf að skipta út rofunum einhvern tíma. En það besta er að sofa í hita.
Um helgina sat bóndinn í tölvunni inn í stofunni, þegar hann heyrði eitthvað hvisshljóð. Það kom í ljós að það var komið gat á ofninn, og vatnið frussaðist út. Við börðumst við þetta í svolitla stund, en enduðum með að leita náða hjá nágranna okkar. Hann var ekki heima, en kom eftir svolitla stund. Hann gat lokað fyrir vatnið og reddað okkur, svo það færi ekki allt á flot. Svo nú þurfum við fara á stúfana og leita að nýjum ofni. Þeir eru nú ekki alveg gefins.
Bóndinn byrjaði í nýju vinnunni í dag. Hann á að keyra fötluð börn í skóla. Þetta eru börn með einhverfu, ofvirkni og svo eru einhverjir vandræðagemsar líka. Þetta er auðvitað allt annað en hann hefur prófað áður, svo það verður að koma í ljós, hvort þetta er eitthvað fyrir hann. Það var brunagaddur hér í morgun mínus 8 gráður. Svo þegar bóndinn kom heim og fór hann að reyna að fá hita í brenniofninn, þetta gekk nú heldur brösuglega. Það endaði með að við leituðum á náðir nágrannans. Hann benti okkur á nokkra staði sem þyrfti að tappa lofti af. Þegar bóndinn var búin að því gekk þetta nú eitthvað betur. Þetta er voðalega viðkvæmt kerfi, og það má ekki vera neitt loft á ofnunum. Við erum nú stundum alveg að verða gráhærð á þessu veseni, en það þýðir víst ekkert að væla yfir því.
Við hendum nokkrum myndum inn af nýja herberginu fljótlega
kveðja
Gummi og Ragga
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.12.2008 | 14:23
Jólin búin
Kæru bloggvinir
Þá eru jólin liðin einu sinni enn. Og maður er búin að borða ýmsar íslenskar kræsingar hér í útlandinu. Við fundum íslenskan hamborgarahrygg í frystinum, frá því í fyrra, og hann bragðaðist bara alveg prýðilega. Við fengum svo hangikjöt, heima hjá Steina og Sigrúnu á jóladag. Þannig að þetta er nú bara búið að vera mjög gott. Við erum bæði orðin þannig að við getum ekki troðið í okkur mat endalaust, svo það kemur sér nú vel á svona hátíðum.
Frúna langaði mikið í jólatré og á þorláksmessu var drifið sig í að leita að slíku. Það er ekki sjálfgefið mál að fá jólatré svona stuttu fyrir jól. Enda komumst við að því að það var alls ekki auðvelt. Við fundum þó á endanum eitt sem komst hérna upp á loft hjá okkur. Svo jólunum var bjargað. Til að toppa þetta allt saman fengum við fullt af góðri íslenskri jólatónlist hjá Steina vini okkar og það reddaði þessu alveg. Það er greinilega ekki hefð fyrir því hjá Dönum að hlusta á jólatónlist. Þeir spila sömu lögin milljón sinnum og þeir virðast ekki eiga nein svona hátíðleg jólalög. En við erum nú búin að reka okkur á þetta áður, svo við eigum nú slatta af jólatónlist, hún er bara öll ofan í kassa núna!
Við erum næstum búin með svefnherbergið niðri. Okkur vantar bara að setja gólflista á. Við eigum eftir að kaupa þá. Við héldum að það yrði nú barnaleikur að leggja parketið, en nei. Eftir mikið blóð, blót, svita og tár, náðum við þó að leggja þetta niður. En það var langt frá því að vera létt. Bóndinn var búinn að sjá á einhverjum heimasíðum á netinu að þetta væri svo auðvelt að jafnvel gamalmenni gætu þetta án vandræða. Einmitt! :) Að vísu eru gólfin og veggirnir í herberginu mjög skakkir og við engir útlærðir parketlagningarmenn. En allavega er það komið á gólfið í stærra svefnherberginu og lítur bara alveg viðunandi út. Við verðum svo aðeins að bíða með hitt herbergið niðri af því það vantar málningu í loftið. Það getur tekið einhverjar vikur að fá það. Svo það lítur út fyrir að bóndinn fái að slappa aðeins af seinnipartinn í dag! :)
Á annan í jólum má segja að næstum öll fjölskyldan hafi farið í göngutúr. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema af því að hundurinn var að sjálfsögðu með og annar kötturinn tölti á eftir okkur. Hún hefur aldrei gert þetta áður, svo okkur fannst þetta nú dálítið merkilegt. Hún vill nú helst ekki vera mikið nálægt okkur svona almennt, svo kannski var þetta bara andi jólanna sem var yfir henni.
Á morgun er frúin að fara í fyrsta skipti til ljósmóður. Þetta verður nú sennilega bara svona létt spjall um hvernig maður á að hegða sér á meðgöngunni. Hún verður örugglega mjög hissa á því að maður hvorki reyki né drekki, því það er ekki óalgengt að konur hér geri það, þó þær séu óléttar. Og ég held að það þyki ekkert svo skaðlegt, allavega ekki hér úti á landi. Þær standa allavega oft fyrir utan fæðingadeildina og púa. Afsakið reykingafólk, en mér finnst þetta ógeðslegt. Á þriðjudaginn er hún svo að fara í svokallaða hnakkaþykktarmælingu, sem á að segja eitthvað til um áhættuna á að fóstrið sé með downs syndrom. Svo þá fær maður allavega að sjá krílið aftur á skanna. Bóndinn kemst reyndar ekki með í þessa skoðun, en kannski fær maður mynd með heim. Við sáum krílið fyrst þegar það var bara 8 vikna og þá líktist það nú einna mest stórri rækju! :) Ég man nú ekki hversu oft maður fer í skoðun á meðgöngunni, en ætli það sé ekki eitthvað svipað og heima.
Eftir áramót byrjar bóndinn svo í annarri vinnu, en hjá sama fyrirtæki. Hann á að keyra fötluð börn til og frá skóla. Þetta verður voða munur. Hann þarf ekki að keyra eins langt í vinnuna og fær að hafa fyrirtækisbílinn með heim. Svo frúin sleppur við að vera háð almenningssamgöngum. En þær eru vægast sagt lélegar hér í sveitinni. Það styttir líka töluvert daginn hjá manni. Áður hefur maður notað svona 3 tíma á dag í að komast í og úr vinnu. 'A eigin bíl ætti maður að komast af með helminginn. Allavega meðan bíllinn lifir. Hann er nú farinn að kenna sér ýmissa meina, enda með mörg ár á bakinu. Við viljum helst ekki eyða miklum pening í að gera við hann nema það sé nokkuð tryggt að hann fari í gegnum skoðun í vor. En við sjáum til hvað setur.
Við vorum búin að fá mann sem hreinsar skorsteina til að meta hvað kostaði að gera við skorsteininn hjá okkur, en hann er mjög óþéttur. Hann taldi að það kostaði ca. 200.000 ísk að gera við hann. Við spurðum því fasteignasalann hvort fyrri eigendur ættu ekki að borga það, af því það var ekki hægt að sjá neitt á skorsteininum þegar við keyptum húsið. Hann athugaði málið, en þau vildu ekkert taka þátt í þeim kostnaði, svo nú þurfum við að finna út hvað er sniðugast að gera. Við getum fjarlægt skorsteininn alveg, eða notað bara efsta hlutann af honum. Eða látið hann vera eins og hann er, ef við skildum vilja fá brenniofn í stofuna seinna. Við verðum bara að fá múrara til að kíkja á þetta svo við getum betur áttað okkur á hvað hægt er að gera. En allavega kostar þetta meira vesen en við höfðum reiknað með. En það er víst alltaf þannig.
Jæja best að fara að hætta þessu núna
Vonum að allir eigi góð áramót og óskum ykkur öllum gleðilegs nýs árs
kveðja
Gummi og Ragga og ferfætlingarnir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.12.2008 | 17:32
3 dagar til jóla
Kæru bloggvinir
þá eru jólin að skella á. Hér á bæ hefur nú ekki verið nein gríðarleg jólastemning. En frúin dreif sig í að henda upp smá jólaskrauti, svo það hjálpaði nú aðeins. Það er stundum erfitt að sjá að þessar framkvæmdir hjá okkur eigi eftir að taka enda einhvern tíma og við getum klárað að pakka upp úr kössunum. En við skiljum vel ef fólk sem kíkir á myndirnar finnist þetta líta frekar vonlaust út. Okkur finnst það líka stundum. En takk fyrir allar athugasemdirnar. Þið megið alveg segja ef ykkur finnst þetta hræðilegt! :) Annars réðist bóndinn í framkvæmdir í fríinu sínu. Hann ætlaði að mála gluggakarmana hvíta. Það er einhvers konar brúnn krossviður í þeim. Hann var búinn að basla við þetta heilan dag og fara margar umferðir og þóttist nokkuð ánægður með útkomuna. En nei svo flagnaði allt draslið og datt bara af. Svo hann fór í málningabúðina og fékk eitthvað efni sem átti að leysa vandamálið. Hann er svo búin að prófa aftur í dag og þetta virðist ætla að ganga. En minn maður var ekki ánægður með að vera búin að hamast heilan dag og sjá engan árangur. Við getum ekki sett í loftið í barnaherberginu af því að plöturnar sem við keyptum eru allar flekkóttar og við þurfum að bíða eftir einhverri málningu til að klína á þær. Svo sumt gengur prýðilega meðan annað gengur frekar brösuglega. En svona er þetta víst bara. Það mikilvægasta er að þessu vindur eitthvað áfram. Okkur finnst sjálfum að þetta komi vel út.
Bóndinn lagðist svo í flensu síðast í vikunni. En er nú eitthvað að hressast aftur. Það hefur verið óvenju hlýtt hérna undanfarið. En ýmist rigning eða rok, svo maður veit ekki hvort maður vildi ekki bara frekar fá smá kulda og snjó. En það verður bara að taka þessu eins og það kemur.
Frúin er komin í jólafrí, en bóndinn þarf að vinna næstu þrjá daga og á svo frí í nokkra daga. Hann þarf líka að vinna á gamlársdag, en hefur frí um kvöldið. Þetta er nú sennilega í fyrsta skipti í mörg ár sem hann er að vinna á jólunum. Hann hefur yfirleitt reddað sér fríi til að vera með krökkunum. En hjúin verða bara ein í kotinu þessi jólin. Börnin eru jú orðin svo fullorðin. Við reynum bara að gera þetta huggulegt. VIð ætlum að borða með vinum okkar í Kollund á jóladag og gamlársdag svo alveg ein verðum við nú ekki. Frúin hefur heimtað að fá jólatré, engin jól án þess. Bóndinn hefur verið eitthvað tregur. En frúin stakk nú bara upp á að við grisjuðum aðeins í garðinum, en þau jólatré eru víst full stór. Við reiknum með að enn séu til jólatré einhvers staðar í nágrenninu.
Nágrannakötturinn hefur verið að gera sig heimkominn í garðinum okkar, okkar köttum til mikillar hrellingar. Þær eru svoddan kjúklingar. 'I dag brunaði hann á eftir öðrum kettinum, svo hún hljóp hæst upp í tré. Nágrannakötturinn sat svo neðst í trénu og beið rólegur. Hann gafst svo upp á endanum og tölti heim. Kötturinn okkar komst sem betur fer sjálfur niður, svo við þurftum nú ekki að kalla á slökkviliðið.
Jæja það er víst ekki mikið meira í fréttum hér frá Tiset
Bestu jólakveðjur
Gummi, Ragga og ferfætlingarnir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.12.2008 | 18:48
Storkurinn kemur til Tiset
Kæru bloggvinir
Við biðjumst velvirðingar á að ekki kom nein færsla síðasta sunnudag. En af óviðráðanlegum orsökum féll hún niður. VIð vonum að enn sé einhver sem les þetta og haldi ekki bara að við séum hætt að blogga. Það er voða gaman að sjá hverjir kíkja hér við og kvitta fyrir.
Annars er aðalfréttin að storkurinn hefur boðað komu sína hér til okkar í júni 2009. Og erum við auðvitað mjög spennt yfir því. Frúin er nú ekki orðin neitt sérstaklega framstæð en er voðalega þreytt. Hún hefur nú ekkert fundið fyrir ógleði fyrr en bara núna. Sennilega hefur það nú eitthvað með þreytu að gera. Við erum farin að spá aðeins í nöfn. Við ætlum ekki að fá að vita kynið svo við erum nú ansi opin ennþá. Þó erum við nú ekki alveg sammála, svo þetta verður eitthvað skrautlegt. Við ættum kannski að setja í gang kosningu hér á blogginu, svo fólk geti sagt hvað því finnst um hinar mismunandi tillögur. Bóndinn er búin að stinga upp á Anna Borg, en frúin Ísbjörg ef þetta er stelpa. Ef þetta er strákur þá hefur bóndinn stungið upp á Elimar en frúin Daníel. VIð erum sammála um að gefa barninu tvö nöfn og að annað nafnið sé þjált fyrir útlendinga að segja. Svo við hljótum nú að geta fundið einhverja lausn á þessu. Ef í harðbakkan slær má alltaf kíkja í símaskránna og fá góðar hugmyndir. En allar tillögur eru vel þegnar.
Framkvæmdir
Við höfum verið ansi framkvæmdaglöð í dag. Búin að mála alveg svefnherbergið og næstum búin með barnaherbergið. Við erum svo líka byrjuð að setja í loftið í svefnherberginu. Þið fáið nýjar myndir þegar við erum lengra komin. Við höfum lent í ægilegu veseni með málninguna. Fyrst keyptum við einhverja málningu sem átti að vera voða góð. Hún var algjört vatnssull og dugði ekkert. Síðan keyptum við öðruvísi málningu sem er mikið betri, en eigum ekki nóg til að klára niðri, svo bóndinn verður að fara til Þýskalands aftur á morgun og kaupa meira. Þetta er búið að vera ansi þreytandi, en þetta skríður nú hægt og rólega áfram. Bóndinn er í fríi næstu vikuna, svo hann ætlar nú að reyna að mála eitthvað. Við erum að vonast til að geta flutt fljótlega niður. VIð keyptum annars mjög góðan rafmagnsofn í gær, sem hitar bara mjög vel upp. Við áttum annan sem var bara algjört drasl. Svo við vöknuðum í morgun næstum því sveitt. Það var mjög undarlegt. En óneitanlega þægilegra en að vera að krókna úr kulda. Svo þetta er nú allt í áttina.
Við erum enn að bíða eftir internetinu og heimasímanum. Frúin var orðin ansi langeygð eftir þessu, svo hún hringdi í fyrirtækið. Þá kemur í ljós að þetta kemur ekki fyrr en í januar eða febrúar. Og við sóttum um í október. Hún ætlaði að æsa sig einhver ósköp, en maðurinn sem varð fyrir svörum var svo einstaklega ókurteis og þurr á manninn, að hún missti eiginlega bara móðinn. Hann baðst ekki einu sinni afsökunar. En þetta er nú bara alveg týpískt svo það þýðir ekkert að vera að æsa sig of mikið.
Jæja ætli sé ekki best að fara að henda sér í rúmið og kíkja á kassann.
kveðja
Ragga og Gummi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)