Tiltekt

Kæru bloggvinir

það lítur út fyrir að sumarið sé eitthvað að láta sjá sig meira. Það hafa verið fínir dagar undanfarið, en í dag þó frekar skýjað. Við erum búin að vera að taka til bæði uppi á lofti og í geymslunum. Það er ótrúlegt hvað maður safnar að sér miklu drasli, þó maður sé alltaf að reyna að henda. VIð erum allavega mjög tiðir gestir á ruslahaugunum. Gott maður þarf ekki að borga fyrir að henda rusli hérna, eins og heima á Íslandi.

Við erum búin að grilla í gær og ætlum að grilla í kvöld. Í gærkvöldi borðuðum við úti í fyrsta skipti og það er alltaf mjög huggulegt. Krökkunum finnst það rosalega skemmtilegt. Þau eru búin að vera úti í mest allan gærdag og líka í dag. Þau sofna líka mjög fljótt á kvöldin. Þau eru mikið úti í skóla og leikskóla líka. AUður fór á landbúnaðarsýningu á föstudaginn, með skólanum. Það var víst mjög skemmtilegt. Svo var opið hús hjá skátunum á föstudagskvöldið og það var grillaður kjúklingur og grænmeti. Það er óskaplega lítil stjórn á þessum skátum og þeir sem eiga að stjórna eiga eitthvað mjög erfitt með það. Það virðist vera mjög oft þannig í sjálfboðastarfi hérna í Danmörku. Það má sennilega ekki skamma blessuð börnin og láta þau hlýða.

Annars er her allt komið í fasta ramma eftir fríið á Íslandi. Það tekur alltaf smá tíma að komast í samt far aftur, en allt hefst þetta nú að lokum. Auður fær ekki sumarfrí í skólanum fyrr en eftir mánuð, en það er víst ekki svo alvarlegt það sem þau gera þessa dagana.

Bóndanum og okkur var boðið í afmæli, bóndinn hélt það væri í dag, svo við ætluðum bara að rölta þangað. Okkur leist ekki á blikuna þegar við sáum ekki fánann dreginn að húni, það var enginn heima, en við komumst svo að því að afmælið er ekki fyrr en næsta sunnudag. Bóndinn hafði bara misskilið málið. Við eigum þá bara afmælisveislu til góða.

Jæja það er víst ekki svo mikið annað að frétta núna.

Kveðja frá Tisetgenginu


Aftur í gamla horfið

Kæru bloggvinir

við tókum frí frá skriftum hér inni meðan við vorum á Íslandi, enda nóg annað að gera en að blogga. Tíminn líður alltaf alltof hratt meðan maður er heima og áður en við er litið, er kominn tími á að fara heim aftur. Heimferðin gekk ótrúlega vel, þrátt fyrir að lestinni sem við áttum að fara með hafi verið aflýst og við vorum hrædd um að við kæmumst ekki frá Kaupmannahöfn. Það eru ekkert allt of margar ferðir svo seint á kvöldin, svo þetta var nú ekkert rosalega skemmtilegt. En allt hafðist þetta. Inn og út af lestum og öðrum faratækjum með töskur og börn. Við vorum ekki komin heim fyrr en kl. 3 um nóttina. Fólk hefur því verið með töluverða timburmenn hér síðustu viku og líka núna um helgina. Það bætti nú heldur ekki úr að maður færði klukkuna aftur þegar við komum hingað út.

Börnin voru voða fegin að komast aftur í skóla og leikskóla. Í gær vorum við á leiksvæði með bekknum hennar Auðar. Það var mjög fínt og börnin skemmtu sér rosalega vel. Veðrið var allt í lagi, en engin sól. Það er mjög óstöðugt veður hérna. Ekki beint vorveður, en ekki samt slæmt veður. Áður en við fórum til Íslands var gróðurinn aðeins farinn að taka við sér, en eftir við komum heim var allt komið á kaf, svo við fórum í það í dag að reyna að ráða bót á því. Rabarbarinn var orðinn rosa mikill um sig, svo það var grisjað aðeins úr honum. Jarðarberin hafa líka tekið mikinn kipp, svo kannski verður rosa uppskera í sumar. 

Frúin er búin að lofa að taka þátt í að syngja með einhverju nokkrum öðrum konum á miðaldahátíð í Ribe. Fyrsta æfing var meðan frúin var á Íslandi, svo það er mæting í næstu viku. Spurning, hvort það sé hægt að nota svona týpu eins og mig. Það kemur í ljós. Það er sennilega aðalmálið að maður haldi lagi.

Annars erum við bara að reyna að komast í gír, maður verður víst að vinna alla daga núna, þar til það kemur sumarfrí. Það ætti nú að hafast.

Jæja best að fara út i góða veðrið aftur og slaka á.

Kveðja

Tisetgengið


Sól og blíða

Kæru bloggvinir

Hér hefur verið rosa blíða í dag. Svo nú vonum við að góða veðrið sé að koma. Það væri auðvitað týpískt að það yrði svaka blíða hérna meðan við erum á Íslandi. Það er allavega vonandi að það fari að verða meira stöðugt veður.

Börnin hafa verið úti í næstum allan dag. Við erum búin að hjálpa Evu gömlu að setja net yfir jarðarberin, svo fuglarnir borði nú ekki öll berin. Gróðurinn ætti að fara að taka við sér þegar það hlýnar. En það er ennþá frost á nóttinni.

Annars er allt við það sama hér. Við fórum í 75 ára afmæli á föstudaginn. Það var mjög fínt. Mest allur bærinn, þar sem Auður er í skóla var á staðnum. Maðurinn sem átti afmæli býr í þeim bæ og það þekkja allir alla í þessum litla bæ.

Það er verið að grafa í sundur allar götur í bænum, það er frekar ógirnilegt að hafa allt í bleytu og drullu hér fyrir utan. En kosturinn er að það er engin umferð um götuna hérna.

Auður fór með skólanum í heimsókn hjá skátunum í vikunni og vildi endilega prófa að vera með. Frúin fór því með henni á föstudagskvöldið og stóð úti í skítakulda og blés sápukúlur og söng bálsöngva. Auður vill endilega prófa að vera með, svo ætli maður verði ekki að reyna að leyfa henni það. Sundið er búið, svo hún hefur ekki svo mikið við að vera eftir skóla. Svo er nú mjög gott fyrir börnin að vera úti og leika sér. Annars eru okkar börn nú mjög dugleg við það. Ágúst er sérstaklega duglegur að dunda sér úti, líka þegar hann er bara einn.

Í gær fórum við til Haderslev og Auður fékk að heimsækja Ágústu, bestu vinkonu sína, sem er flutt þangað. Við fórum á meðan og versluðum smávegis. Það voru hermenn úti að labba með allan útbúnað og byssur líka. Ágústi stóð ekki á sama, en fékkst til að láta taka mynd af sér með einum þeirra og halda á stórri byssu.

Svo er bara að fara að pakka niður fyrir Íslandsferðina, það er nú ekki langt í hana. Þetta líður svo hratt að við verðum komin og farin aftur, áður en við er litið.

Jæja best að fara að leggja börnin í bleyti og þrífa af þeim skítinn.

Kveðja

Tisetgengið


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband