Alltaf að pakka

Kæru bloggvinir hér hefur nú lítið borið á sumarveðrinu. Við höfum sennilega bara fengið það allt í síðusta mánuði, en við vonum nú við fáum eitthvað smá meira.

Hér hefur verið nóg að gera að pakka og flytja alla helgina. Þetta er að smáhafast. VIð eigum eftir að flytja það sem við notum svona dagsdaglega. Það verður gert á miðvikudag og fimmtudag, ef allt fer að óskum. Það er ekki ennþá komið vatn á íbúðina, en við vonum það gerist í vikunni. Það var pizzastaður á neðri hæðinni, en fyrri eigendur rústuðu staðnum þegar þeir fóru og eyðilögðu eitthvað í vatninu. Það er vonandi að það komist fljótt í lag. Það þarf líka að skipta um lása á hurðum, þeir eyðilögðu það líka. Þeir voru greinilega eitthvað ósáttir.

Við reynum sennilega að komu hlutunum fyrir í vikunni, svo við getum sofið þarna á fimmtudaginn. VIð þurfum að afhenda húsið á föstudaginn. Það verður eitthvað skrýtið. VIð höfum aldrei búið svona lengi á sama stað. En það verður enginn söknuður af því að halda húsinu við.

 

Það er ótrúlegt hvað maður hefur náð að safna að sér af ýmsu, síðustu árin. Það verður eitthvað vesen að koma þessu öllu fyrir á nýja staðnum, þegar maður er ekki með neina geymslu og engan bílskúr.

Annars er nóg að gera að fylgjast með fótboltanum, allavega fyrir suma á heimilinu.

 

Við erum að passa hund fyrir kunningjakonu okkar. Hún er voða fyndin, alltaf glöð og dillar afturendanum fyrir allan peninginn. Hún er sísvöng, meðan Nonni er ekkert að borða of mikið. Hann er voða góður við hana, sækir bolta fyrir hana og lætur hana hafa. Hún lætur hann alveg vita að hún ræður. Í gærkvöldi hvarf hún svo, en kom eftir rúman klukkutíma. Það hefði nú ekki verið fallegt ef hún hefði verið týnd.

 

Jæja það er lítið annað að frétta hér. Auður Elín er komin í sumarfrí, en við Ágúst þurfum að passa okkar staði í 2 vikur enn.

 

Kveðjur úr Tiset (ekki svo langt þangað til það er ekki lengur hægt að segja það)


Afmælishald

Kæru bloggvinir

hér hefur verið sólarlítið undanfarna viku, en svo sem fínt veður. Það er mjög þurrt, en það hefur eitthvað lítið rignt.

Síðustu vikuna ber hæst afmælishald ungfrúarinnar. Hún var mjög spennt alla vikuna og spurði á hverjum degi hvað væri langt þar til hún ætti afmæli. Ekki bætti nú úr skák að hún fór með skólanum í Legoland á föstudaginn og það var mikil spenna í því samhengi líka. Hún var allan föstudaginn í Legolandi og vel þreytt þegar hún kom heim, en átti mjög góðan dag. Hún fékk svo bekkjarsystur sínar í afmælisveislu í gær. Hún var búin að hlakka svo mikið til að hún bræddi úr sér nokkrum sinnum meðan á veislunni stóð. Henni þótti eitthvað erfitt að deila dótinu með öðrum og svo var eitthvað annað að angra hana. Hún talaði nú samt um að henni hefði þótt þetta allt mjög gott og var sátt með daginn. Hún var alveg hissa á því hvað hún fékk margar gjafir. Svo fékk hún líka pening og ekki var það nú minna spennandi. Hún er ekki vön að eiga pening, svo þetta eru viðbrigði.

Ágúst fór í pössun meðan á afmælinu stóð, og var að koma heim núna rétt áðan. Hann fór bæði á 17. júní hátíð hjá Íslendingum í Sönderborg og í tjaldútilegu. Hann svaf í tjaldvagni í nótt og var mjög sáttur. Það var strákur á hans aldri með í ferðinni og þegar þeir voru hættir að vera feimnir, þá léku þeir sér víst vel saman. Nú eru þau öll að leika saman og Ágústa vinkona Auðar er í heimsókn. Það þykir þeim ekki leiðilegt.

Annars er bara verið að pakka og hamast. Þetta skríður nú allt áfram. Við erum að vona við getum flutt eitthvað næstu helgi. En þetta hlýtur allt að hafast. Við erum búin að losa okkur við mikið af alls konar dóti. En það er nú nóg samt.

Maður er farin að horfa til sumarfrís í hyllingum. Það verður gott þegar þetta er allt saman búið. Við erum að spá í að reyna að fara í sumarbústað einhverja daga, þá getur maður kannski slappað eitthvað af. Það er allavega erfiðara að slaka á þegar maður er heima.

Bóndinn fylgist spenntur með fótboltanum, svo við erum bara í sitt hvoru lagi á kvöldin. Frúin horfir á sjónvarpið inn í svefnherbergi og bóndinn í stofunni.

En þetta kemur nú allt í ljós. Best að fara að reyna að troða í nokkra kassa í viðbót, svona meðan það er friður.

Kveðja

TIsetgengið


Pakkað og pakkað

Kæru bloggvinir

það hefur heldur kólnað hér síðustu dagana, en verið ágætis veður. Það er spáð rigningu alla næstu viku og ekki veitir af. Það er allt að skrælna hérna. Bara við fáum ekki rigningu það sem eftir er sumars.

Það er nóg að gera við að pakka niður. Bóndinn er búinn að vera mjög duglegur við það og frúin hefur gripið í þetta þegar það er ekki allt mögulegt annað sem þarf að vesenast. Þetta þokast allt í rétta átt. Við náðum að selja sláttutraktorinn. Það komu einhverjir litháar og keyptu hann og ætluðu að fara með hann til Litháen. Það getur víst borgað sig. Það var nú svolitið fyndið að þegar var búið að auglýsa hann til sölu á netinu, voru tveir að keppast um að fá hann. Bóndinn var eitthvað að skrifast á við þá og prútta um verðið. Þá kemur allt í einu í ljós að annar þeirra var Dani sem er giftur Særúnu frænku frúarinnar. Hún býr á Fjóni. Hann bauð ekki eins hátt og hinn og tapaði þar með traktornum. En ótrúlegt hvað heimurinn er lítill.

Börnin hafa verið voðalega þreytt upp á síðkastið, Auður er líka voðalega eirðarlaus. Hún á erfitt með allar breytingar og veit ekki alveg hvernig hún á að vera.

Það var íþróttadagur í skólanum hennar á föstudaginn. Það var keppt í reiptogi, pokahlaupi og ýmsu öðru. Þetta var voða skemmtiegt. Það gerðust þau undur um helgina að bæði börn sváfu til kl. 8 báða daga. Þetta hefur nánast aldrei gerst. Þau voru reyndar búin að vakna eitthvað fyrr, en sofnuðu aftur.

Frúin reyndi fyrir sér sem skemmtikraftur um helgina. Hún söng og dansaði á miðaldahátíð í Ribe. Þetta var mjög gaman að taka þátt. Bóndinn hefur víst deilt mynd af herlegheitunum á feisbókinni. Við eigum auðvitað von á að nú fari að detta inn bókanir á hópinn, það hljóta fleiri að vilja fá þessar ótrúlega hæfileikaríku konur á staðinn.

En allavega er sennilega best að fara að hvíla lúin bein. Það er nóg að gera framundan. Afmæli næstu helgi og áframhaldandi niðurpökkun.

Kveðja

Tisetgengið


Sumar og sól

Kæru bloggvinir

það er þvílíkt búið að vera veðurblíða hér síðustu dagana. Maður hefur varla þolað við, hvorki innan dyra né utan. Það er alveg rosalega rakt og mikill þrúgandi hiti. En börnin kvarta allavega ekki og hafa varla komið inn hér síðustu daga. Í gær komu Óli og Guðný í heimsókn og það var sett upp sundlaug hérna úti í garði. Það sló algjörlega í gegn og þau komu ekki inn fyrr en seinnipartinn í gær, og voru þá alveg búin á því. Maður var rosalega dasaður eftir allan hitann. Það er heldur meira skýjað í dag, en samt mjög heitt

Við fórum í 60 ára afmæli hérna á næsta bæ, hjá bóndanum sem selur okkur trépillur. Konan hans varð 60 ára. Hann var nýbúin að innrétta bílskúrinn sem veislusal, svo þetta var voða fínt, en það bergmálaði svo mikið þar inni að það var nánast ekki líft þar inni. Það var að byrja mikil ræðuhöld, svo við drifum okkur heim.

Það er mikið búið að taka til hérna undanfarið. Henda einhverjum ósköpum af drasli og einhverju sem hefur safnast upp síðustu árin. Það virðist vera mjög auðvelt að safna að sér alls konar drasli þegar maður hefur mikið pláss til að geyma það á. En þá er auðvitað mjög gott að losa sig við það sem maður hefur ekki notað lengi. Það er mikið að gerast hjá okkur. Við erum búin að selja húsið og ætlum að byrja á að flytja inn til Gram. Það er nú ekki auðvelt að fá hús, því það er svo mikið af flóttamönnum sem þurfa á húsnæði að halda. Ef allt fer að óskum þá flytjum við um næstu mánaðarmót, svo það er nóg að gera. Það verða viðbrigði að flytja eitthvað annað þegar maður er loksins búin að koma sér sæmilega fyrir hérna. En við fáum allavega meira pláss og það er nú ekki leiðilegt. Þá geta krakkarnir fengið sitt hvort herbergið og verða nú örugglega ánægð með það.

Annars er nú ekki mikið annað að frétta héðan. Það er nóg að gera í allskonar lokahófum í skólanum og leikskólanum og hinu og þessu. Sumarfríið er ekki fyrr en um miðjan júlí. Það verður nú sennilega notað í að slaka á og koma sér fyrir á nýjum stað.

Jæja ætli sé ekki best að fara að sjá til þess að börnin fari sér ekki að voða í sundlauginni.

kveðja frá Tisetgenginu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband