Sumar og sól

Kæru bloggvinir

hér skín sólin og það er mjög fínt veður. Við eigum víst að hafa þetta eitthvað fram í næstu viku. Svo á að fara að rigna. Við erum vongóð um að vorið sé að koma. Það lítur allavega þannig út. Góða veðrið var notað síðustu helgi til að þrífa bíla og í dag var svo ráðist í að þrífa gluggana. Það var nú ekki vanþörf á. Nú þarf svo bara að þrífa þá að innan. Það er alltaf nóg að gera. Það er komin heilmikil spretta í garðinn, svo það þarf að slá 1-2 í viku. Annars er dagurinn planaður fyrir bóndann allavega. Hann ætlar að sitja inni og horfa á fótbolta með Óla félaga sínum. Liðið þeirra er víst að gera það mjög gott þessa dagana og spennan gríðarleg. Frúin tekur þessu nú með ró, en svolítið fyndið að fylgjast með látunum í þeim yfir einhverjum fótbolta.

Ágúst hefur verið ansi pirraður um helgina. Hann hefur verið að fá tennur, svo það er sennilega það sem er að angra hann, á sama tíma er hann líka að þroskast og ég held svei mér þá að hann sé að byrja á tveggja ára frekjunni. Hann er allavega alveg ótrúlega ákveðinn, og verður mjög ósáttur ef við gerum ekki allt sem honum hentar. Systir hans hefur verið ansi hress líka. Hún er á einhverjum mótþróa. Sem betur fer kom vinkona hennar í heimsókn í gær og þær léku sér saman í smá tíma. Hún er voðalega upptekin af því að það sé að koma sumar og hlakkar til að geta verið í sumarfötum. Þau eru bæði þannig að þau vilja sem minnst hafa af fötum. Auður vildi líka fá sundlaug í garðinn í gær. Okkur fannst það nú fullsnemmt. Það má alveg verða heitara áður en það verður fjárfest í svoleiðis. Þau eru búin að vera að safna rusli í leikskólanum og hún hefur verið mjög upptekin af að maður megi ekki henda rusli í náttúrunni. Það er nú fínt að kenna börnunum að ganga vel um. Ekki vanþörf á, fólk pælir ekki mikið í svoleiðis hérna. 

Annars er nú ekki mikið að frétta héðan úr blíðunni. Það eru ansi margir frídagar í þessum mánuði, það er nú alltaf ágætt. Börnin myndu nú sennilega alveg vilja sleppa við það. Þeim finnst best að hafa allt í föstum römmum. Og svo sakna þau líka að leika við einhvern. Auður er nú ekki alltaf jafn hrifin af bróður sínum. Stundum er hún voða góð og vill endilega hugga hann, líka þegar hann er bara með frekju. Hún skilur ekki alveg að stundum á bara að láta hann eiga sig. Hún blés sápukúlur um daginn fyrir hann og það var ótrúlega fyndið að sjá. Hann varð hálf hissa á þessum kúlum sem flugu út um allt. 

Jæja best að fara út í góða veðrið

Kveðja

Tisetgengið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband