Jólakökubakstur

Kæru bloggvinir

hér hefur að venju verið nóg að gera. Það hefur verið heldur hlýrra undanfarna daga, en í staðinn fyrir frost, þá hefur verið meiri rigning. það er voða drungalegt flesta daga. En við höfum ekki snjó og ófærð, svo við kvörtum ekkert mikið.

Hér er nóg að gera í jólaundirbúningi. Við renndum til Haderslev í gær að leysa nokkur jólamál. Það var ekkert mjög jólalegt, kannski gerist eitthvað meira þegar nær dregur jólum. Maður hefði búist við meiri jólalegheitum. Við ætlum að fara með liðið í klippingu til Þýskalands næstu helgi og þá er hægt að koma við í Tønder, þar er reynt að gera eitthvað meira úr þessu.

Í dag var ráðist í að baka smákökur. Nágrannabörnin komu við hérna í morgun og voru í marga tíma. Það gengur nú venjulega mjög vel. Ágúst var nú eitthvað ósáttur í dag. VIð höldum kannski að allt þetta húllumhæ í kringum að jólasveinninn kemur í nótt, sé eitthvað að stressa hann. Auður er farin að skilja að ef maður er óþekkur þá fær maður kartöflu í skóinn. Hún hefur af þessu nokkrar áhyggjur. Ágúst er ekki alveg að fatta það. Frúin fór með 4 börn að versla í morgun. Frekar mikil bjartsýni. Þau voru náttúrlega ansi lífleg í búðinni, en þetta hafðist allt saman.

Börnin fengu að skreyta herbergin sín í gær, það þótti þeim mjög spennandi. Það er búið að safna smá skrauti saman sem þau mega skreyta með inni hjá sér. Svo má hlusta á jólalög og lesa jólasögur. Það hlýtur að verða léttir að mega gera allt annað en eitthvað tengt jólunum, þegar þau eru búin.

AUður er orðin mjög spennt að fá systir sína og frænku í heimsókn eftir rúma viku. Spenningurinn er alveg að fara með hana. Það er gaman að sjá hversu gaman henni finnst allt þetta jólaamstur. Hún og pabbi hennar eru mikil jólabörn og Ágúst verður það örugglega líka. Kannski verður frúin það líka á endanum.

ANnars er allt í föstum skorðum fram að jólum. Auður fær frí þriðjudaginn fyrir jól, svo hún hefur nokkra daga til að hafa það huggulegt með systir sinni. Við Ágúst fáum frí á fimmtudaginn fyrir jól. Frúin ætlar ekki að vinna á þorláksmessu. Það er alltaf nóg sem er eftir að gera, þó maður sé að reyna að dreifa þessu yfir mánuðinn.

Jæja best að reyna að slaka aðeins á, áður en maður þarf að fara í bælið.

Kveðja

Gramgengið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband