Vika 8

KÆru bloggvinir

Hér hefur verið lofað snjó, en eitthvað orðið lítið úr honum. Af myndum að heiman að dæma hafið þið fengið okkar skammt. Það hefur verið slydda hér, en ekkert sem hefur fest á jörðinni.

Frúin fór til læknis á fimmtudaginn. Það var sá sem gerði aðgerðina. Honum leist mjög vel á handverkið sitt og fannst þetta líta óvenjulega vel út. Ekki leiðilegt að fá svoleiðis fréttir. Svo er aftur skoðun eftir 6 vikur og þá þarf að taka afstöðu til, hvenær þeir taka úr skrúfuna sem heldur þessu öllu saman. Vonandi næst að gera það áður en maður flytur heim. Annars er þetta víst bara lítil aðgerð. Kannski maður geti bara reddað þessu sjálfur. Sennilega er best að láta fagmennina um þetta. Frúin hefur ekki ráðið sér fyrir kæti og þrammar út um allt. Það er nú sennilega skynsamlegt ekki að ofgera sér, en það er erfitt að sitja kyrr þegar maður hefur ekki gert annað í 8 vikur. Þetta er aumt ennþá og fóturinn bólgnar fljótt við notkun. En það er allt eðlilegt.

Á föstudaginn fór Auður og gisti með skátunum í skátaheimilinu. Það var rosa fjör. Við fórum svo í gærmorgun og sóttum hana og svo var öskudagsskemmtun. Hún fór að hágráta í gærkvöldi þegar hún átti að fara að sofa og vildi sofa hjá skátunum. En hún lagðist nú samt út af og sofnaði á sömu sekúndunni og hún lagðist upp í.

Í morgun var svo ráðist í að baka vatnsdeigsbollur í tilefni dagsins. Það er öskudagur hér í dag. Krakkarnir fengu að labba ein á leikskólaleiksvæðið. Það er í fyrsta skipti sem þau fá að labba svona ein eitthvað að ráði. Auður fékk það verkefni að fylgjast með Ágústi og vini hans. Hún tók það mjög alvarlega. Ágúst er svo komin heim, en Auður er ennþá hjá nágrannanum. Það er nú eitthvað erfitt að fá á hreint hvað þau gerðu meðan þau voru úti. Það verður kannski meiri möguleiki á að fá einhver svör þegar Auður kemur heim.

ANnars er ekki mikið annað á dagskránni í dag. Kannski kemur einhver í bollukaffi. Það er aldrei að vita. Annars borðar maður bara extra skammt á morgun. Við vorum að prófa nýja uppskrift og vorum smeyk um að hún myndi ekki heppnast. þess vegna gerðum við aukabollur.

Frúin fer í samtal í vinnunni í þarnæstu viku. Þá á að ákveða hvenær hún snýr til baka til starfa. Læknirinn mælti með að næstu 4 vikurnar yrðu eitthvað rólegar, en það er ekki víst að vinnuveitandinn sætti sig við það. Það er ekki nógu góð afsökun að vera í veikindaleyfi, ef maður er fótbrotinn. Við sjáum hvað setur. Samstarfskona frúarinnar er að hætta í næsta mánuði, svo það má búast við að það verði pressað á að ég komi tilbaka. Það er örugglega komin góður biðlisti eftir samtölum.

Jæja best að fara að skoða bollurnar.

Kveðjur úr grámyglulandi

 

 

 


Vetrarfrí

Kæru bloggvinir

þá er vika 7 liðin. VOnandi á frúin bara eftir að vera í spelku í eina viku í viðbót. Hún fer til læknis á fimmtudaginn og vonast eftir að fá leyfi til að fara að tylla eitthvað í fótinn. Það myndi verða töluverður léttir. Það er orðið verulega þreytandi að hoppa um allt á einni löpp. Maður er búinn að fá innsýn í hvernig er að vera í hjólastól og hversu erfitt er að komast um. Það virðist ekki oft vera spáð í hvernig fatlað fólk eigi að komast inn í búðir og svoleiðis. Klósett sem eru merkt með fatlaðamerki eru nú heldur ekki alltaf þau bestu. Kannski maður fari að berjast fyrir betra aðgengi.

Ágúst var í leikskólanum frá mánudegi til miðvikudags. Hann fór í annan leikskóla en hann er vanur og fannst alveg rosalega gaman. Hann var eiginlega bara fúll yfir því að fá ekki að fara á fimmtudeginum líka. Þau áttu að gera pizzu. Það eru færri börn þegar það eru frí í skólanum og sennilega hægt að gera aðra hluti en þegar það er bara venjulegir dagar. Arndís fékk að heimsækja Auði og gista í tvær nætur. Þær skemmtu sér mjög vel og voru rosalega duglegar að leika saman. Auður var voða leið yfir að hún fór og grét hástöfum. En það jafnaði sig nú sem betur fer fljótt. Þau feðgin fóru svo í sund á föstudeginum og Ágúst fékk einn vin sinn frá leikskólanum í heimsókn. Í gær var svo brugðið undir sig fæti og keyrt til KOlding. Það var ákveðið að bjóða börnunum út að borða. Ágúst hefur eiginlega aldrei prófað svoleiðis, svo hann var mjög upptekinn af því sem var að gerast í kringum hann og mátti eiginlega ekki vera að því að borða. þeim fannst þetta gríðarleg upplifun. Foreldrunum líka, þar til þau fengu reikninginn. Drykkjarvörurnar kostuðu næstum meira en maturinn. Það er á svona dögum sem maður ætti að drekka áfengi. Það er mikið ódýrara en gos. Það er gott maður fer ekki svo oft út að borða.

Þegar heim var komið horfðum við á bíómynd og borðuðum popp og nammi. Það kostar hálfan handlegg að fara í bíó, svo það var ákveðið að taka bara heimabíó í staðinn. Held að þeim hafi bara fundist það mjög gott.

Í dag var svo ráðist í að taka til í herbergjunum þeirra. Það var hent töluvert af rusli og svo þarf að tékka hvort við getum selt eitthvað smá dót. Þau eiga nú ekki mikið, en það sem þau eiga, er alltaf út um allt. Þeim finnst rosalega gaman þegar maður er búinn að taka til og hafa verið inni í herbergi að leika sér, síðan við tókum til. Það er svo annað mál, hvort þeim tekst að halda því í lagi. Það er mjög ólíklegt. Þau taka stundum góða spretti og leika saman, en stundum ofbýður Ágústi stjórnsemi systur sinnar og gefst upp.

Frúin er að vonast eftir að geta farið að vinna eitthvað eftir svona 2 vikur. Þetta er orðið alveg ágætt, en það tekur tíma að komast í gang aftur. Yfirmaðurinn (sem er kona) er víst alveg að ná því að maður jafnar sig ekki alveg á núll komma fimm. Það er orðið svo stíf veikindapólitík í vinnunni, maður þarf nánast að vera dauður til að fá að vera heima. Þeir reka fólk í vinnu, ef það er bara með brotinn fót eða handlegg. Þetta er alveg rosalega manneskjulegt eða þannig og þeir eiga ekkert eftir að fá þetta í bakið.

Það er verið að vinna á fullu í að finna íbúð. Það skýrist vonandi fljótlega hvort okkur verður eitthvað ágengt í þeim málum. Það er lítið annað hægt að gera, fyrr en maður er kominn með þak yfir höfuðið.

Jæja best að fara að taka smá sunnudagsafslöppun

kveðja

Gramgengið


Vika 6

Kæru bloggvinir

þá er vonandi að fara að sjá fyrir endann á þessu fótaveseni á frúnni. Hún er orðin verulega þreytt á að hoppa um og allt er eitthvað svo snúið. Það er búið að boða hana í skoðun eftir 1 og hálfa viku og þá er vonandi að maður fái grænt ljós á að fara að nota löppina eitthvað meira. Yfirmaðurinn í vinnunni er farinn að vera mjög óþolinmóð að fá frúnna til baka. Hún var tilbúin að borga leigubíl frá lestarstöðinni í vinnuna. En svo kom í ljós að sveitarfélagið var búin að spara svo mikið að þeir geta ekki borgað fyrir svoleiðis. Það má segja að það borgi sig ekki alltaf að spara.

Annars hefur vikan verið heldur í viðburðarríkari kantinum. Frúin sótti um nokkur störf á Íslandi og fékk eitt af þeim. Hún var búin að fá tvö bréf um að hún hefði ekki verið valin og svo kom það síðasta sem hún fékk, og það sem hana langaði mest að fá. Það er ´vist ekki hægt annað en að vera ánægður með það. Það þurfti aldeilis að fara á stúfana og reyna að fara að undirbúa þetta allt saman. Það sem virðist verða stærsti höfuðverkurinn er að finna húsnæði á Suðurnesjum. Það er greinilega ekki auðhlaupið að því. Við vorum svo grunlaus að við héldum það yrði nú minnsta málið.

VIð erum ekki enn búin að segja krökkunum frá þessu. Auður á eftir að verða svo spennt að hún á ekki eftir að geta beðið. Hún á líka eftir að sakna skólans mikið. Það er vikufrí núna og hún var voða leið í gær yfir að hún sæi ekki kennarann sinn í heila viku. En það vegur á móti að hún fær að flytja í nágrenni við systur sína, sem hún saknar óskaplega mikið. Við erum mjög spennt, en þetta er auðvitað líka frekar stressandi.

Við fórum í vinakvöldverð á föstudaginn. Þar stóð upp kolbikasvartur maður frá Kongó, sem hefur verið í Danmörku í 7 ár, en flúði einn frá Kongó fyrir 7 árum. Han á konu og 6 börn. Eða átti. Fyrir 5 árum síðan komst hann loks í samband við konuna, sem hann skildi eftir. En 4 af börnunum hans eru horfin. Einhver af þeim hafa hugsanlega verið tekin og gerð að barnahermönnum. Hann stóð þarna og sagði frá þessu öllu, en gat samt sem áður séð ýmislegt jákvætt í lífinu. Hann er mjög trúaður og það er sennilega það sem hefur haldið honum gangandi. Hann fékk líka samband við danska fjölskyldu, sem hefur greinilega hjálpað honum mikið. Það var mjög skrýtið að heyra hann segja að þegar hann kom, vissi hann til dæmis ekkert hvernig ætti að elda á eldavél, eða hita upp húsið. Í Kongó er dimmt á nóttinni og bjart á daginn, svo maður þarf ekki úr. Hér er dimmt á daginn og bjart á nóttinni. Þetta var náttúrlega alveg fáránlegt. Hann kunni ekki á klukku. Þurfti ekki á því að halda í Kongó. Manni finnst svo margt alveg sjálfsagt sem er alveg framandi fyrir þetta fólk.

Það er ennþá sama grámygluveðrið og kuldi. Þeir eru eitthvað að lofa hlýjari vindum næstu dagana. Vonandi að það gangi eftir.

Jæja best að fara að reyna að stjórna mannskapnum.

kveðja

Gramgengið 


Vika 5

Kæru bloggvinir

þá er vika 5 að renna sitt skeið. Vonandi að þær verði ekki fleiri en 8. Það er ekki víst að þolinmæði frúarinnar og geðheilsatil  bóndans haldi þetta út mikið lengur.

Hér er skítakuldi, en ekki frost, bara þessi ógeðslegi raki kuldi. Þeir eru að spá einhverjum vetri í næstu viku. Við sjáum til hvað verður mikið úr því.

Annars hefur allt verið með kyrrum kjörum hér þessa vikuna. Allt í föstum skorðum. Í gær keyrðum við í boltaland með börnin. Frúin er orðin ótrúlega spræk að fara upp og niður tröppurnar. Það krefst nú töluverðrar orku, svo hún hleypur nú ekkert svona að óþörfu.

Í morgun var svo vaknað snemma til að fara í eina búð sem var með tilboð á fötum fyrir krakkana. Þau eru nú annars orðin betri að sofa lengur um helgar. En það var ekki í boði í morgun. Ef maður ætlar að kaupa eitthvað á svona tilboðum, þá er um að gera að vera snemma á fótum. Það er ótrúlega fyndið, hvað voru komnir margir í búðina kl. 8;30 á sunnudagsmorgni. Það hefur örugglega verið komið fólk þegar búðin opnaði kl. 8. En við þurftum að keyra smá eftir þessu, svo við vorum ekki alveg komin á snerilinn svona snemma.

Það er von á Óla og Guðný og börnum. VIð höfum ekkert séð þau síðan fyrir jól. Auður getur varla beðið eftir að hitta Arndísi vinkonu sína. Það var meiningin að heimsækja þau milli jóla og nýárs, en fótbrot frúarinnar kom í veg fyrir það.

Við tókum okkur til og framkölluðum helling af myndum af krökkunum. Það er engin smá vinna að sortera þetta allt. En þetta er ágætlega á veg komið. Við erum komin ársins 2013.Þetta eru um 1200 myndir. Við erum bara búin að framkalla helminginn af þeim. Hitt er í vinnslu. Það er ágætt að fá þetta í smá skömmtum. Það er bara miklu skemmtilegra að hafa þetta í albúmi og Auði þykir rosalega gaman að skoða þetta.

Auður fékk að skipta um hest í reiðskólanum og síðast þorði hún að láta hana brokka. Það hefur hún ekki fengist til meðan hún var á hinum hestinum. Það er vonandi að þetta eigi eftir að hjálpa henni. Henni finnst þetta mjög gaman.

Svo er bara ein vika eftir í skóla núna og svo er vetrarfrí. Auður verður í fríi ala vikuna en Ágúst fer í leikskólann í nokkra daga. Hann er svo mikill félagsmálapúki að það þýðir ekkert að halda honum heima í heila viku, ef það er ekkert sérstakt prógramm. Við erum ekki að fara að gera neitt sérstakt. Etir tvær vikur fer frúin svo í skoðun á spítalanaum og vonandi lítur þetta vel út, svo hún megi fara að styðja eitthvað smávegis á fótinn og komast í vinnuna. Hún getur nú ekki keyrt til að byrja með, en það verður að finna einhverja lausn á því. Þeir eru orðnir þreyttir á að vanta manneskju í vinnunni.

Jæja ætli sé ekki best að fara að gera klárt fyrir gesti.

Kveðja

Gramgengið


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband