Vika 4

Kæru bloggvinir

Þá er vika 4 að renna sitt skeið. Frúin telur niður í vikum. Þetta er eins og fangarnir sem eru að afplána í fangelsunum. Núna má frúin fara að gera smá æfingar, svo fóturinn verði fljótari að jafna sig. En það má ekki stíga í hann fyrr en eftir 8 vikur.

Ágúst er orðinn betri af kvefinu, en í gær varð Auður lasin. Hún er með hita og kvef. Blessað barnið hefur ekki verið kvefað í mörg ár, svo hún kann ekki á þetta. Finnst hún þurfa að gubba þegar hún þarf að hósta. Það er örugglega ekki mjög algengt að börn séu svona sjaldan veik eins og okkar. Við erum ótrúlega heppin. En viðbrigðin eru líka töluverð, þegar þau svo eru veik. Þetta þýðir auðvitað að bóndinn þarf að keppast við að hugsa um alla lasarusana. Ætli hann fari ekki bara í sjúkraliðaskólann eftir þetta allt saman. Verst að hann er sjálfur hálf slappur þessa dagana. Rakinn fer ekki vel í lungun á honum. Frúin hlýtur að fara að fá þetta kvef líka bráðum. Best að ljúka því bara af.

Við drifum okkur aðeins út að leika í gær. Frúin var að verða geðveik á að hanga alltaf inni. Henni var bara ýtt um í hjólastól og börnin léku sér. Þau skilja ekki alveg ennþá að mamma getur ekki ýtt þeim í rólunum, eða vegað salt með þeim. Þau eru vön því að hún sé á fullu alla daga. Þau rífast óspart um hver megi sitja hjá henni í sófanum. Kannski maður fari bara að gera skema.

Annars hefur nú lítið gerst hér í vikunni. Frúin tók sig til og sendi fullt af myndum af börnunum í framköllun. Svo er bara eftir að raða þeim í albúm. Þær koma vonandi fljótlega. Það er töluvert púsluspil að raða þeim í rétta tímaröð. Auði finnst mjög gaman að skoða myndir af sér frá því hún var lítil og frúnni finnst mjög leiðilegt að skoða myndir í tölvunni, svo þess vegna var ráðist í að framkalla myndir á gamla mátann. Svona er að vera gamaldags. Það er til eitt albúm af Auði, en ekkert af Ágústi og finnst honum það frekar leiðilegt.

Það er frekar erfitt að skemmta börnunum heila helgi þegar maður getur ekki komist svo mikið um, en þau læra kannski þá að slaka bara á. Þau eru allavega orðin betri að sofa á morgnana. Í morgun vöknuðu þau ekki fyrr en kl. rúmlega 9. Það er enginn smá lúxus. Svo eru þau heldur ekki eins pirruð, ef þau ná að sofa lengur. Vonandi halda þau þessu bara áfram.

Í gær var smá frost og mjög fallegt veður, annars hefur verið mjög breytilegt veður. Suma daga frost og fallegt, en flesta daga smá hiti og grámyglulegt veður. það er ekki neitt sérstaklega upplífgandi, en sem betur fer er dagana farið að lengja og það hjálpar mikið.

Jæja best að halda áfram að slaka á ! :)

kveðja

Gramgengið


Afslöppun

Kæru bloggvinir

þá er vika þrjú í gifsi að renna sitt skeið. Þolinmæði frúarinnar er alvarlega í prófun. Það er búið að era mildara veður þessa vikuna, en voða mikið grámygluveður. Ágúst er orðin voða kvefaður, hann hefur ekki verið að síðan hann var pínulítill, svo hann er ekki alveg að fatta þetta.

Frúin er búin að fara út nokkrum sinnum í vikunni. Það er stærra verkefni að koma henni út, upp og niður tröppur og út í bíl. En mjög gott að komast út í ferskt loft.

Bóndinn og Auður renndu til Þýskalands í verslunarleiðangur í gær. Það vra ekki svo leiðilegt að sleppa við það. Einn af fáum kostum þess að vera í gifsi.

Annars gengur hér allt sinn vanagang. Auður er ennþá í reiðskóla. Við ákváðum að tala við kennarana og heyra hvort að Auður gæti fengið að prófa annan hest. Þessi sem hún var á, var alls ekki að gera sig. Hún fékk að prófa annan hest á fimmtudaginn og það gekk allavega mikið betur. Þetta eru almennt hálfgerðar truntur. Það er kannski ekki auðvelt að fá hesta í svona störf. Við vonum að þetta eigi eftir að skila meiri árangri.

Síðustu jólagjafirnar bárust í vikunni. Það olli nú einhverjum ruglingi. Auður vildi vita, hvenær að kæmu jól aftur. Skildi ekki alveg í þessu.

Við fórum í vinakvöldverð á föstudaginn. Frúin var dregin með, það er eins og hafa lítið barn með, það þarf að hafa hjólastól og hækjur með. Það þarf þó ekki að hafa skiptitösku með bleium og svoleiðis. Sem betur fer.

Við fórum líka í samtal í leikskólanum í vikunni. Ágúst fékk mikið hrós. Hann er rosalega góður að leika, bæði við stráka og stelpur og hugsar vel um þá sem eru eitthvað leiðir. Stundum á hann erfitt með að þegja. Hann á nú líka frekar erfitt með það hérna heima. En það er nú senniega ekki mjög stórt vandamál. Hann er eldfljótur að læra söngva og það sem þau annars eru að læra. Ekki leiðilegt að fá svona góð meðmæli með drengnum.

Jæja ætli sé eki best að fara að fara að sinna börnum og búi. Frúin getur nú lítið annað en að fjarstýra því frá sófanum, með mjög misjöfnum árangri.

Kveðja

Gramgengið


Vetrarveður

Kæru bloggvinir

þá kom fyrsti snjórinn hjá okkur. Það kom smá föl í nótt. Það birtir allavega til þegar það er smá snjór. Þeir eru að spá áframhaldandi kulda, en það er ekki víst að það fylgi því mikill snjór. Þetta er fínt svona.

Frúin er eitthvað aðeins að skríða saman. Hefur nú ekki mikla orku, en það er allavega ekki eins miklir verkir og hún hleypur ekki á klósettið í tíma og ótíma. Það er nú samt ansi mikið verkefni fyrir hana að vera svona ósjálfbjarga. Krakkarnir skilja ekkert í því að hún komi ekki hlaupandi þegar þau eru búin á klósettinu, eða almennt þegar þeim vantar eitthvað. Þau hafa annars verið mjög dugleg að hjálpa til. það er auðvitað mikill munur. Bóndinn fór með þau út núna að viðra þau. Auður spurði í gær, hvort við ætluðum ekki að fara út og viðra þau. Það hafði nú enginn fullorðinn á heimilinu orku í það, en við fengum dóttur vinahjóna okkar til þess. Það voru allir dúðaðir, en þau komu inn eftir 15 mínútur. Það er spurning um, hverjum var kalt. Eða hvort þau nenntu ekki að vera úti. Þau eru vön að fara út á hverjum degi, svo þeim bregður við. Frúin hefur heldur ekki farið út úr húsi. Það eru ansi mikil viðbrigði. Þetta reynir ekki minna á andlegu heilsuna, en þá líkamlegu, að vera svona farlama.

Vinnufélagi frúarinnar kom við hér á föstudaginn með blóm. Þeim finnst víst bara fínt að ég sé ekki í vinnunni. Það eru víst svo mikil læti í mér.

Annars er nú lítið spennandi í fréttum héðan. Auður byrjaði allt í einu í vikunni að spá í, hvernig maður segði mismunandi hluti á íslensku. Ágúst apar svo auðvitað eftir henni. Það eru voða dugleg að æfa sig við matarborðið að biðja um ýmsa hluti á íslensku. Þetta hljómar bara nokkuð vel hjá þeim. Það er auðvitað erfitt fyrir þau að segja til dæmis r og þ, en þetta kemur allt ef áhuginn er fyrir hendi. Það er aldrei að vita hvenær hann rennur út, svo það er mjög mikilvægt að ´nýta þetta tækifæri.

Jæja ætli það sé ekki best að reyna að fara að gera eitthvað að viti.

Kveðja úr kuldabolalandi

Gramgengið

 


Lipurtá

Kæru bloggvinir

það hefur verið fimbulkuldi hér í nokkra daga og við höfum fundið fyrir því að gluggarnir hér eru ekki mjög einangraðir. Eftir öll þessi ár í Danmörku kemur þetta svo sem ekki á óvart, en er nú frekar þreytandi. Eftir 15 stiga frost einn daginn rauk hitamælirinn upp á við aftur og svo hefur verið hlýrra síðustu daga. Frekar mikil skipti í veðrinu.

Frúin var skorin aftur á mánudag og það var sjálfur yfirlæknirinn sem gerði aðgerðina. Það virkar eins og honum hafi tekist betur til. Lýsingarnar í útskriftarbréfinu eru miður fallegar, Það hljómar eins og það hafi nánast ekki verið heilt bein eftir í fætinum. Frúin fékk að liggja þarna inni um nóttina, enda ekki mjög hress eftir svæfinguna. Á þriðjudeginum fékk hún svo að fara heim og sama dag fóru Helga og Kristín Júlía´líka heim. Það var nóg að gera hjá bóndanum þann daginn. Hann þarf örugglega að leggjast inn á heilsubælið eftir næstu 8 vikur. Frúin getur ekki mikið annað en að sitja á rassinum með löppina upp í loft. Hún kemst ekki út og er almennt til lítils gagns. Hann verður því að sinna öllu heimilishaldi. En hann er nú öflugur maður og reddar þessu nú örugglega eins og öðru.

Frúin hefur verið ansi þjökuð af verkjum í fætinum og þegar hún hélt þetta væri að lagst, byrjaði að koma rosa mar og bólga á ökklanum, sem nuddast í spelkuna í hvert skipti sem hún hreyfir sig. Fyrir utan það, fékk hún svo blöðrubólgu svo það þýðir klósettferðir á klukkutíma fresti, líka á nóttinni. Það er ekkert verið að taka þetta með neinum vettlingatökum. Frúin varð síðast mikið veik fyrir 16 árum, svo kannski tekur maður þetta bara með trompi, þegar maður gerir það. Kannski væri gáfulegra að gera þetta meira jafnt.

Krakkarnir hafa átt voðalega erfitt að finna út úr því að mamma þeir vra hafi verið í burtu í nokkra daga. Ágúst kom heim úr leikskólanum tvo daga í síðustu viku með illt í maganum, sem hvarf um leið og pabbi hans sótti hann. Við hringdum í leikskólann og útskýrðum málið og vonandi hefur þetta bara verið mömmusýki.

Auður var orðin mjög spennt fyrir að byrja í skólanum aftur. Hún saknaði hans svo mikið og líka kennarans síns. Það er spurning hversu lengi það varir. En gott meðan það er.

Vonandi hafa aðrir komist betur inn í nýja árið en við.  Þetta hlýtur að fara upp á við héðan í frá.

Kveðja frá Gram


Gleðilegt nýtt ár

Kæru bloggvinir

Gleðilegt nýtt ár til allra þarna úti og takk fyrir að fylgjast með okkur hérna hinum megin.

Eins og fram hefur komið á fésbókinni var frúin svo ótrúlega heppin að mauka á sér ristinni milli jóla og nýárs. Hún hefur nú alltaf verið einstaklega lagin við að detta og meiða sig, en aldrei hefur henni tekist eins vel til og nú. Henni heppnaðist að brjóta eitthvað lítið bein inn í ristinni og rífa einhverja liðþófa úr sambandi. Það var farið í aðgerð á fimmtudaginn og allt leit í fyrstu vel út, en við nánari skoðun kom í ljós að þetta var ekki nógu vel gert. Læknirinn sem framkvæmdi aðgerðina taldi sig nógu færan til þess, en þetta er eitthvað mjög sérstakt brot og krefst mikillar sérhæfni að laga það, og þá hæfni hafði hann sem sagt ekki. Yfirlæknirinn kom og tjáði frúnni þetta daginn eftir aðgerðina. Henni til mikillar ánægju. Það er bókuð ný aðgerð á morgun. Vonandi að það verði þá ekki píparinn sem á skurðlæknavaktinni.

Maður veit ekki hvort maður eigi að gráta eða hvað. EN það er auðvitað gott að þeir viðurkenna mistökin og vilja reyna að bæta það upp. Málið er bara að þegar ég verð skorin á morgun, þarf að skera á þremur stöðum, í staðinn fyrir einum. Það verða settir einhverjir naglar sem þarf að taka úr eftir 4-6´mánuði og það er mikil sýkingarhætta þegar það er skorið´aftur eftir svona stuttan tíma. Við erum í skýjunum yfir þessu öllu. En frúin hefur alltaf haft mikla hæfileika til að vera óheppin, svo það er víst bara hluti af að vera hún.

Hún er því búin að liggja óstarfhæf með löppina upp í loft. En hún er of bólgin geta þeir ekki skorið á morgun. Bóndinn er því búinn að hafa nóg að gera. Hann tók nú líka eina byltu milli jóla og nýárs, braut sem betur fer ekki neitt, en er búinn að vera mjög lemstraður og kvefaður í þokkabót. Þetta frí hefur því ekki alveg verið eins og planlagt, en það væri nú líka eitthvað nýtt.

FRúin er fjarri góðu gamni næstu 8 vikur, má ekkert stíga í löppina og þarf að láta hana vera hátt uppi, svo hún bólgni ekki mikið. Hvernig haldið þið að það gangi. FRúin hefur aldrei verið góð að sitja kyrr, svo þetta er virkilega stór æfing.

Við reyndum nú að halda áramótin hátíðleg í gærkvöldi, þrátt fyrir allt þetta vesen. Börnin voru næstum jafn spennt og á aðfangadag. Bóndinn stóð sveittur í eldhúsinu allan daginn og töfraði fram dýrindismat. Auður er orðin mjög spennt að fara í skólann aftur. Saknar kennarans og krakkanna.

Helga og Kristín Júlía fara heim á þriðjudag. Það verður eitthvað kvartað hér þegar þær fara. Planið er að Ágúst fari í leikskólann á morgun, svona til að létta lífið fyrir Helgu, hún er búin að vera í fullri vinnu eftir að frúin braut fótinn. Auður byrjar svo í skólanum á miðvikudaginn og þá ætti allt að komast í einhverjar skorður. Bóndinn verður að yfirtaka bæði sundæfingar og reiðnámskeið, en hann fer nú létt með það.

Jæja ætli sé ekki kominn tími á að hoppa á klósettið. Það er ekkert smá sem maður finnur fyrir harðsperrum þegar maður getur bara notað einn fót og hendur til at komast áfram. VIð fengum lánaða göngugrind á sjúkrahúsinu.

En talandi um óheppni, þá eru fleiri óheppnir en frúin. Konan sem lá við hliðina á henni á sjúkrahúsinu var að fara yfir til nágrannans í rokinu sem gekk yfir fyrir jólin. Hún tókst á loft og datt á mjöðmina og braut hana. Þvílík óheppni.

En jæja bestu nýárskveðjur frá okkur hrakfallabálkunum


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband