Gleðileg jól

Kæru bloggvinir

Gleðileg jól kæru bloggvinir. Hér er búið að vera nóg að gera. Helga og Kristín Júlía komu í vikunni og það hefur verið mikið fjör í kringum það. Ágúst hefur nú verið eitthvað smá abbó, en Auður og Kristín ná vel saman. Ágúst og Kristín geta líka alveg leikið saman, ef enginn er að blanda sér. Helga kom færandi hendi með skötu og hangikjöt. Kalkúnninn og hamborgarahryggurinn voru keypt í Þýskalandi.

Börnin áttu dálítið erfitt með að bíða eftir jólunumm. Jólasveinninn mildaðist eitthvað eftir því sem dagarnir liðu og það komu engar kartöflur í skóinn á síðasta sprettinum. Ágústi fannst nú eitthvað svindl að jólasveinninn kæmi ekki meira. Ekki skrýtið þegar það er búið að vera gjafir á hverjum degi í marga daga. Þegar nær dró kvöldi í gær, róaðist liðið eitthvað og þegar kom að því að taka upp pakkana, þá gekk þetta nú allt saman. Þau voru mjög sátt. Bæði með smáhlutina og stærri hluti. Það voru mjög þreytt börn sem fóru í rúmið í gær.

þau sváfu nokkuð lengi í morgun og fóru svo að leika sér með dótið sem var í jólapökkunum. Það er gaman að sjá hvað þau eldast og þroskast og geta noið hlutanna meira. Það er búið að fara út alla dagana og brenna orku. Það voru ótrúlega mörg börn úti í gær, svona miðað við venjulega, en í dag var ekki mikið um að vera. Það hefur verið fínt veður báða dagana. Það komu smá þrumur og eldingar í gærkvöldi.

Í kvöld var svo gætt sér á hangikjöti og laufabrauði. Ótrúlegt hvað maturinn hefur mikið að segja þegar halda á jól.

Það er ekkert búið að plana neitt sérstakt hina jóladagana, en ætli maður finni ekki eitthvað að gera.

Jólakveðjur til allra þarna úti

Gramgengið


Jóla hvað

Kæru bloggvinir

þá er víst bara ein vika til stefnu, svo það er eins gott að maður er að verða tilbúinn.

Það var brunað til Þýskalands í gær til að klippa gengið, svo var verslað eitthvað smávegis. Það er bara eftir að renna á annan stað í Þýskalandi til að kaupa hamborgarahrygginn og kalkúninn. Við lögðum ekki í að keyra það í gær. Bóndinn getur skotist í vikunni. VIð komum við í bakaleiðinni í Tönder til að reyna að komast í meiri jólafýling. Það heppnaðist nú ekki alveg. Þetta var mest peningaplokk. Þeir eru farnir að stíla inn á barnafjölskyldur, og að ná pening af þeim fyrir alls konar bull. Við létum okkur hafa það að fara í lestarferð með svona traktorslest og hittum jólasveininn. Það var alveg nístandi kalt í gær, þó að það væri ekki frost. Það er svona hráslagakuldi hérna núna.

Á föstudaginn stóð bóndinn í ströngu við að undirbúa vinakvöldverð. VIð elduðum hamborgarahrygg með brúnuðum kartöflum og öllu saman. Þetta heppnaðist víst bara mjög vel. Allavega voru nánast engir afgangar. Þetta var  mjög huggulegt. Auður fór heim með vinkonu sinni sem er alltaf með á þessum kvöldum, svo við sáum hana ekki frá því um morguninn þar til um kvöldið. Það virtist ekki há henni mikið.

Þau systkin eru ýmist perluvinir eða miklir óvinir. Þau skilja ekkert í því að við viljum ekki hlusta á þau tuða allan daginn og þræta. Þau upplifa þetta ekki á sama hátt og við.

Helga og Kristín Júlía koma á þriðjudaginn. Það er heilmikill spenningur fyrir því og svo auðvitað fyrir jólunum og öllu sem því fylgir. Aðallega hjá Auði, en hún æsir Ágúst auðvitað upp í vitleysunni. Hann stjórnst voða mikið af henni. Hún er annaðhvort gríðarlega umhyggjusöm, eða alveg öfugt. Maður veit aldrei hvaða Auður vaknar hérna á morgnana. Hún er nú samt oftar í góðu skapi.

Það er verið að spá rauðum jólum. Það er ekki venjan að það séu hvít jól, svo við sættum okkur bara við rauð jól. Það skptir ekki öllu máli. Börnin væru eflaust til í snjó, svo maður gæti farið að renna sér, en það verður ekki á allt kosið.

Það er verið að stefna á að slaka vel á í jólafríinu. Það kemur í ljós hvernig það á eftir að ganga. Bóndinn skellti sér í að baka fleiri piparkökur í dag. Hann vildi svona gamaldags, sem eru seigar. Þetta heppnaðist alveg ljómandi vel hjá honum.

Jæja ætli sé ekki best að reyna að fara að hafa stjórn á þessum börnum.

 

Kveðja

Gramgengið

 


Jólakökubakstur

Kæru bloggvinir

hér hefur að venju verið nóg að gera. Það hefur verið heldur hlýrra undanfarna daga, en í staðinn fyrir frost, þá hefur verið meiri rigning. það er voða drungalegt flesta daga. En við höfum ekki snjó og ófærð, svo við kvörtum ekkert mikið.

Hér er nóg að gera í jólaundirbúningi. Við renndum til Haderslev í gær að leysa nokkur jólamál. Það var ekkert mjög jólalegt, kannski gerist eitthvað meira þegar nær dregur jólum. Maður hefði búist við meiri jólalegheitum. Við ætlum að fara með liðið í klippingu til Þýskalands næstu helgi og þá er hægt að koma við í Tønder, þar er reynt að gera eitthvað meira úr þessu.

Í dag var ráðist í að baka smákökur. Nágrannabörnin komu við hérna í morgun og voru í marga tíma. Það gengur nú venjulega mjög vel. Ágúst var nú eitthvað ósáttur í dag. VIð höldum kannski að allt þetta húllumhæ í kringum að jólasveinninn kemur í nótt, sé eitthvað að stressa hann. Auður er farin að skilja að ef maður er óþekkur þá fær maður kartöflu í skóinn. Hún hefur af þessu nokkrar áhyggjur. Ágúst er ekki alveg að fatta það. Frúin fór með 4 börn að versla í morgun. Frekar mikil bjartsýni. Þau voru náttúrlega ansi lífleg í búðinni, en þetta hafðist allt saman.

Börnin fengu að skreyta herbergin sín í gær, það þótti þeim mjög spennandi. Það er búið að safna smá skrauti saman sem þau mega skreyta með inni hjá sér. Svo má hlusta á jólalög og lesa jólasögur. Það hlýtur að verða léttir að mega gera allt annað en eitthvað tengt jólunum, þegar þau eru búin.

AUður er orðin mjög spennt að fá systir sína og frænku í heimsókn eftir rúma viku. Spenningurinn er alveg að fara með hana. Það er gaman að sjá hversu gaman henni finnst allt þetta jólaamstur. Hún og pabbi hennar eru mikil jólabörn og Ágúst verður það örugglega líka. Kannski verður frúin það líka á endanum.

ANnars er allt í föstum skorðum fram að jólum. Auður fær frí þriðjudaginn fyrir jól, svo hún hefur nokkra daga til að hafa það huggulegt með systir sinni. Við Ágúst fáum frí á fimmtudaginn fyrir jól. Frúin ætlar ekki að vinna á þorláksmessu. Það er alltaf nóg sem er eftir að gera, þó maður sé að reyna að dreifa þessu yfir mánuðinn.

Jæja best að reyna að slaka aðeins á, áður en maður þarf að fara í bælið.

Kveðja

Gramgengið


jólaundirbúningur

kæru bloggvinir

 

Börnin gangast mikið upp í jólaundirbúningi. Auður varð gríðarlega ánægð þegar það var opnað fyrir jólamúsíkina 1. desember. Hún var búin að bíða spennt. Við hlustum mikið á jóladiska í bílnum. Við eigum ekki svo marga,en hún kann mörg lög utanað. Ágúst er músikalskur eins og við hin og er fljótur að læra texta. Hann er víst að brillera í leikskólanum með hæfileikum sínum.

Það er búið að vera nóg að gera í dag í félagslífinu. Ágúst fékk vin sinn frá leikskólanum í heimsókn í morgun. Við fórum út að leika, sem var nú ágætt, því þessi vinur hans er ansi fjörugur. Á meðan við vorum úti, bökuðu bóndinn og Auður Elín piparkökur. Það þurfti svo að skreyta þær. Börnin misstu nú fljótlega þolinmæðina, en skreyttu nokkrar kökur. Svo gerðum við líka haframjölskökur. Það eru svona hrákökur. Gríðarlega girnilegt, en börnunum finnst þetta mjög gott. Inn á milli þessa var svo soðin rabarbarasulta fyrir jólin. Það eru engin jól án sultu sko.

Frúin er búin að ná sér í kvefdrullu, þá fyrst í vetur.Hún er búin að missa röddina, það er gríðarlega heppilegt fyrir konu í hennar starfi.  Börnin hafa sloppið nokkur vel, bæði við kvef, lús og njálg, sem gengur reglulega yfir í skóla og leikskóla.

Eftir hádegi í dag þurfti Auður að viðra sig og Ágúst fór með. Við hittum aðra vinkonu Ágúst Ægis úti á leikvelli. Það er nú ekki þannig að það séu mörg börn úti að leika, svona venjulega, svo þetta var nokkuð óvanalegt.

Við náðum rétt svo heim, áður en nágrannabörnin komu. Þau hafa greinilega ekki hreyft sig mikið um helgina, því þau hlupu hér um allt, eins og algjörir vitleysingar. Þau stoppuðu sem betur fer ekki lengi. Það er mjög mismunandi hversu mikið þau koma hingað. Yngsti strákurinn kemur nokkuð oft, en getur oft ekki stoppað, því hann saknar mömmu sinnar svo mikið. Eða svo segir hann. Það er mjög gott að þau hafi einhvern að leika við, en það væri auðveldara ef þetta dreifðist betur.

Auði fer heilmikið fram í reiðmennskunni. Hún fer þó bara fetið ennþá, en eins og með allt annað, þá byrjar hún að brokka þegar henni hentar. Það er búið að lofa henni reiðstígvélum og nýjum reiðbuxum ef hún heldur áfram að vera svona dugleg. Það veitir ekki af að æfa jafnvægið. Hún hefur því miður erft jafnvægisleysi móðir sinnar, ásamt gríðarlegum almennum lipurleika.

Það er verið að sýna íslenska sakamálaþætti, bæði í sjónvarpinu hérna og á netflix. Við erum nýbúin með seríu sem heitir morð í Reykjavík og nú eru þeir að sýna ófærð. Það er voða sniðugt að sjá þætti á móðurmálinu.

Jæja ætli sé ekki best að fara að skríða í bælið

Kveðja frá Gramgenginu


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband